Líf í árvekni: Aðventa

þriðjudagur, 18. desember 2007

Aðventa

Það fór eins og við væntum; smákökubjóðið á laugardaginn heppnaðist svo ljómandi vel að ákveðið hefur verið að gera það að árlegri hefð. (Takið laugardaginn 13. desember 2008 frá).

Gestir voru eindregið hvattir til þess að gefa hverri af sortunum sex gæðaeinkunn en þótt nokkrum þrýstingi væri beitt af báðum bökurum tókst ekki að kveða upp úr um hvort okkar væri hæfileikaríkara á þessum vettvangi. Spillti það enda nokkuð forsendum fyrir hlutlausri afstöðu að annar helmingur gestanna var vel kunnugur uppskriftum af heimili annars bakarans en hinn hinum helmingnum... (skildist þetta?).
Að bjóðinu loknu náði ég þessari frábæru mynd af börnunum mínum að leika sér saman og virðist ríflegur aldursmunur ekki koma að sök þegar leir er í boði...
Ég var að átta mig á því að aðventan í ár er sú fyrsta á þessari öld sem ég er ekki annað hvort að kynna nýja bók eða lesa fyrir próf/skrifa BA ritgerð í þjóðfræði. Sem skýrir vísast af hverju mér finnst ég hafa svona mikinn tíma til að jólast núna og henti strax í nóvember hugmyndinni frá í janúar sl. um http://www.buynothingchristmas.org/ .

Sú uppkomna, sem kvartaði jafnan sáran á árum áður undan annríki móður sinnar á þessum tíma, er einmitt í sínum fyrstu prófum sjálf í háskólanum núna. Súrt ;o)
Únglíngurinn í skóginum er sömuleiðis í sinni fyrstu stóru prófatörn; í 8. bekk Hagaskóla er lífið ekkert föndur og dúllerí þessa dagana..!
Saman við aðventuþræði úr ljósadýrð, smákökuilmi og eftirvæntingu fléttast samt sem áður örlítill kvíðastrengur sem verður því stríðari sem nær dregur næstu segulómmyndatöku hjá Mínum heittelskaða. Hún fer fram fös. 28. desember, niðurstöðurnar ljósar þann 2. janúar (Dags. leiðréttar frá fyrri færslu).

Hugurinn leitar ósjálfrátt til baka til aðventunnar í Eiðinaborginni 2006 þegar við vorum full óvissu um hvað biði okkar eftir að fyrir lá greining um heilaæxli og ákvörðun um skurðaðgerð í janúar.
Það var undarleg aðventa og að sínu leyti ágætt að hafa þurft að liggja yfir mörg hundruð síðna lesefni fyrir síðasta prófið í meistaranáminu mínu í þjóðfræðinni megnið af desembermánuði.
Og í ár er ósköp gott að hafa ljósin, skóinn jólasveinsins, greniskreytingarnar, smákökurnar, jólakortaskrifin og gjafastússið allt til að gleðjast við...

1 ummæli:

Amerikugengid sagði...

Gleðileg jól kæru vinir, gangi ykkur sem allra best í MRI-inu, við fengum Þóris myndatöku frestað fram á næsta ár....10.jan. En hér er bannað að hafa áhyggjur af útkomunni fyrr en daginn áður, ég leyfi mér það því ekki fyrr en 9. jan! Reynið endilega að njóta jólanna í allri sinni dýrð án þess að láta Tuma tumor hafa áhrif á þau.
Bestu kveðjur og knús
Guðrún Erla
USA