Líf í árvekni: Vetrarsólstöður!

föstudagur, 21. desember 2007

Vetrarsólstöður!

Sólarupprás í Reykjavík í dag var kl. 11:22, sól var í hádegisstað 13:25 og sólsetur kl. 15:29. Dagurinn verður ekki styttri en þetta. Loksins fer hann að lengja á ný. Að vísu ekki mjög mikið, á morgun verður hann 9 sekúndum lengri, en það munar um hvert hænufet. Fékk mér jarðarber og bláber með rjóma í hádegismat í tilefni dagsins.
Annan daginn frá sólstöðum, segir Almanak Háskóla Íslands, lengist gangur sólar um 27 sekúndur og þriðja daginn um 44 sekúndur. Vegna vísindalegs áhuga míns og góðrar vinkonu minnar í þessum skammdegisefnum (Matta, þú veist hver þú ert!) hnuplaði ég líka frá almanakinu Háskólans þessu línuriti yfir lengd sólargangsins og hvernig hann breytist yfir árið í Reykjavík.

Breytingin er nokkuð jöfn, nema kringum sólhvörfin. Örasta breyting í Reykjavík er tæpar 7 mínútur á dag, en meðaltalið er 5,6 mínútur. Á Akureyri er meðalbreytingin 6,8 mínútur á dag, en örasta breytingin um 8 mínútur á dag.

Í Reykjavík er stysti sólargangur 4 stundir og 9 mínútur, en sá lengsti 21 stund og 10 mínútur. Á Akureyri er stysti sólargangur 3 stundir og 6 mínútur, en lengstur verður hann 23 stundir og 40 mínútur. Í Grímsey er stysti sólargangur 2 stundir og 15 mínútur en um hásumarið er sól á lofti þar í heilan mánuð án þess að setjast. Þau sem áhuga hafa á sólarmagni á eigin heimaslóðum, séu þær aðrar en ofangreindar, geta reiknað það út með Sólarreikninum hér.

Rökkrið getur verið ljúft og notalegt, ekki síst þegar kertaljósin loga, en ég er samt sem áður þegar komin með nóg af svo góðu, sérdeilis þegar ég hugsa til þess hvað það eru margir mánuðir enn til vors. Úff, það er víst best að taka þetta einn dag í einu eins og allt annað.

Ég var að reyna að útskýra fyrir henni Morag vinkonu minni í Eiðinaborg hvernig það væri að búa í svona miklu myrkri - og þessa örfáu tíma sem sólin er á fótum er alskýjað og gráminn yfir öllu - og fann ekki betri samlíkingu en að það væri eins og að vera á kafi oní skoskum hafragraut.

Að vísu er líklega ekki hægt að kveikja á kertum oní hafragraut en það er aukaatriði. Grauturinn er þykkur og grár þannig að ég held að hún hafi náð því hvað ég átti við.

Best væri auðvitað að geta gert eins og múmín-álfarnir, lagst í dvala á haustin og vaknað aftur á vorin.

,,En það er nú eiginlega það sem við gerum," sagði Minn þegar ég hafði orð á þessu við sólarupprás ,,í morgun."

Þau sem eru glöð í dag vegna þess að nú fer að birta til mega gjarnan deila gleði sinni með öðrum í kveðjuglugganum hér fyrir neðan.

P.S. To my Scottish friends: The graph shows you the hours of daylight in Iceland throughout the year. Months horizontally, hours of daylight vertically. From today, things are looking brighter! Also, please note, I´ve added an English-speaking blogsite of a friend to my links on the right-hand side, called The Iceland Weather Report. Be prepared though; there is a lot more to it than the weather report! ;o)

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rökkrið getur verið ljúft og yndislegt, og hér á Akureyrinni er ekkert yndislegra í rökkrinu en að bregða sér í Hlíðarfjallið og skíða svona svolítið.....

Þórh.Helga

Nafnlaus sagði...

Ef styssti dagurinn er 22 des ætti það ekki að vera byrjun nýs árs ?

Villa sagði...

Nei, því þá er ekki víst að við sem höfum góða vinnuveitendur fengjum frí á milli jóla og nýárs!

Annars var ég nokkrum klst. of snemma með færsluna, því strangt til tekið voru vetrarsólhvörfin í ár ekki fyrr en 6:08 að morgni 22. des - ástæðan fyrir því að þetta flakkar til á milli daga eftir árum er hlaupárið og önnur slík ónákvæmni í alheiminum. Sjá m.a.

http://www.visir.is/article/20071222/FRETTIR0605/312220005/-1/FRETTIR

Katrín sagði...

það er ekkert bandstrik í múmínálfunum...

Nafnlaus sagði...

ætla nú ekki að hafa neina aðra skoðun á sólarmálum en þá að gleðjast umtalstsvert yfir lengri tíma sólu meðal vor :-)
....en höfum ávallt sól í sinni.....

Alda sagði...

Takk fyrir linkinn kæra vinkona! Vona að þú og þínir njótið hátíðarinnar. Gleðileg jól.