Líf í árvekni: Jólabókin mín

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Jólabókin mín

Ég hef verið spurð að því af og til frá því við fluttum heim til Íslands hvort ég sé ekki með bók í flóðinu í ár. Það hefur nú oftast verið fólk sem hefur ekki frétt af viðureigninni við drekann en stundum líka fólk sem hefur ekki áttað sig á því að skáldsagnaskrif krefjast nokkuð meiri einbeitingar en aflögu hefur verið í þeim skrítna skógi sem við höfum reynt að rata um undanfarið ár.

En nú get ég - sjálfri mér nokkuð á óvart - sem sagt svarað þessari spurningu játandi þrátt fyrir allt. Skolað hefur á land í fyrstu öldu jólabókaflóðsins 2007 bók sem ég á (reyndar bara 1/25) hlut í og getur hér að líta kápumyndina af: Masks and Mumming in the Nordic Area. Ritstjóri er Dr. Terry Gunnell dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, útgefandi Kungl. Gustav Adolfs Akademien för svensk folkkultur í Uppsölum.

Þetta er örugglega þykkasta kilja sem út hefur verið gefin norðan Alpafjalla, 840 síður (!), og inniheldur yfir tvo tugi fræðigreina eftir þjóðfræðinga frá Norðurlöndunum um hvers kyns grímubúningasiði á norræna svæðinu, auk þriggja greina um áþekka siði á Írlandi, í Skotlandi og á Nýfundnalandi.

Ég segi nú ekki að þetta sé tebolli sem allur almenningur kann að meta á jóladagsmorgni með smákökum og Nóa konfekti, en þarna er þó kominn gríðarmikill fengur fyrir þá sem hafa áhuga á grímusiðum hvers konar, rótum þeirra, þróun og þýðingu fyrir okkur og samfélagið sem við lifum í.

Ekki síst er áhugavert - að minnsta kosti fyrir okkur nirðina - að bera saman siði landanna á norður- slóðum og sjá hvað þar er margt líkt með skyldum og hvað ólíkt og velta því fyrir okkur hvað er komið hvaðan, hvernig og hvers vegna.

Greinin mín á síðum 643 til 666 (!) er unnin upp úr BA ritgerðinni minni í þjóðfræði (2005) og ber þá hnitmiðuðu yfirskrift: Elves on the Move: Midwinter Mumming and House-Visiting Traditions in Iceland.

Þar er rakin saga og lýst þrettánda-og áramótaheimsóknum grímubúinna barna á Þingeyri við Dýrafjörð, Hauganesi við Eyjaförð, Ólafsvík og í Grindavík þar sem þessir siðir lifa enn góðu lífi, sums staðar allt frá því um 1930 (eða lengur?), sem og grímu-og heimsóknasiðum ungs fólks í Gjögri á Ströndum, á Barðaströnd og í Vestmannaeyjum, hvar þeir lögðust af fyrir (mis)löngu síðan.

Greinin er myndskreytt, með bæði gömlum og nýjum myndum af grímuklæddum ,,álfum" svo sem eins og þeim sem hér má sjá (fyrir ofan eru drengir á Þrettándanum á Þingeyri við Dýrafjörð um miðjan áttunda áratug 20. aldar, fyrir neðan stúlkur í gervi Hermione Grangers og Harry Potters á Þingeyri á Þrettándanum 2004).

Ritstjóri bókarinnar, Terry Gunnell (sem svo vill til að átti einmitt hugmyndina að fyrrnefndu BA verkefni um þrettándasiðinn vestra og víðar) skrifar um grímusiði á öllu norræna svæðinu þar sem rætur íslenskrar ,,alþýðuleiklistar" af þessu tagi eru raktar allt frá Skírnismálum Eddukvæða og Grýlukviðlings úr Sturlungu fram til þrettánda- öskudags- og dimmissjónsiða á 21. öld.

Sjálfur skrifar hann sérstaklega um dimmissjónsiði íslenskra stúdentsefna og Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur og sömuleiðis kennari við þjóðfræðideildina í HÍ skrifar um öskudagssiðina bæði norðan heiða og sunnan en um þá gerði hún á sínum tíma rannsóknarritgerð til meistaraprófs.

Ég er auðvitað að rifna úr stolti yfir mínum 1/25 hlut í þessu stóra verki og því fá að vera innan um allt þetta merkisfólk sem þarna skrifar og á samtals á nokkurra alda skólagöngu og fræðistörf að baki. Ef eitthvert þeirra sem ég tók viðtöl við og fékk upplýsingar og ljósmyndir hjá við rannsóknina mína á sínum tíma, skyldi nú reka hér inn nefið þá langar mig að nota tækifærið og þakka þeim öllum margfaldlega fyrir hjálpina.

Segiði svo að kona sé ekki með (í) bók fyrir jólin!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þetta !!! Þarf einmitt að lesa einhverntíma um siðinn Barðstrendska, þekki hann lítið þó ég hafi alist upp við sögur af honum
Kveðja
Dedda

Kalli Hr. sagði...

Jahérna og ég sem hélt að ég væri nörd! :-) Innilegar hamingjuóskir með útgáfuna!

Gunni sagði...

Ha ha.. ég þekki þessa tvo efstu.. Og man líka eftir að hafa farið sníkjandi í hús dulbúinn sem draugur á þrettándanum fyrir vestan! Hamingjuóskir með tuttugastaogfimmtahlutann!

Katrín sagði...

til hamingju, maman!

Nafnlaus sagði...

Hahahaha....Til hamingju með 1/25 hluta í bók í jólabókaflóðinu. Nú fékk ég það staðfest að þú værir nord. Það er frábært að fá að fylgjast með þér hér á blogginu. Takk fyrir það. Hingað kem ég daglega þó ég kvitti sjaldan. Þú ert jafn frábær í dag og þegar ég þekkti þig menntó.

Kveðja Auður Lísa