Líf í árvekni: Án titils

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Án titils

Mín daglega hreyfing er ganga, helst upp úr hádeginu þegar ofurlítillar birtu nýtur þessa dvergvöxnu skammdegisdaga því tilgangurinn ekki bara að fá blóðið á hreyfingu heldur líka ljósglætu í sálina.
Stundum er þetta röskleg kraftganga í kringum Tjörnina eða bardagi gegn hvassviðrinu úti við Gróttu þar sem hafið tekur við af landinu og mætir himninum, stundum rólegt rölt upp og niður Skólavörðuhæðina í heimsókn til Hallgríms og Leifs, eða Laugavegslabb í leit að draumaskóm sem hvergi fást.
Alltaf eitthvað nýtt að sjá, svo er síbreytilegu veðrinu hér í þessu bláa landi að þakka - aldrei eins frá degi til dags og umhverfið skiptir um svip þegar hvessir, kólnar, fer að rigna, blása, frysta, snjóa, hlýna aftur. Tjörnin ýmist úfin eða slétt, leggur kannski yfir nótt og svanir spranga um í svörtum sokkabuxum. Húsin spegla sig í klakaþilinu stundarkorn; svo er þiðnað af henni á ný miðdegis.
Hélt aldrei að ég gæti fengið leið á veðri en komst að öðru í Eiðanaborginni þegar eilífur grámi á himni og vindnæðingur réðu ríkjum dag eftir dag eftir dag um miðbik vetrar; gjörningalaust veður það.

Yst á Seltjarnarnesinu er göngustígur á fjörukambinum meðfram ströndinni; þar á leiðinni hefur ókunnur listamaður komið fyrir einu og öðru sem hafið og mannfólkið hafa fleygt í klettótta fjöruna og stillt þannig upp að úr verða listaverk, ekkert síðri en þau sem prýða sali listasafnanna og kosta grilljónir.

Það er eitthvað óendanlega sárt við þennan litla glugga sem kannski var einu sinni á bakherbergi í lágreistu, bárujárnsklæddu húsi á Nesinu þar sem gamall, hvíthærður maður átti afdrep sitt og horfði löngum út á sjóinn á meðan hugurinn heimsótti liðna tíð...

Engin ummæli: