Ég man ákaflega vel þetta ár þegar ég uppgötvaði allar skemmtilegu, útskornu ufsirnar í miðbænum, sums staðar meira að segja vindhanar, ártöl oft líka og þökin svona líka marglit og flott. Og svo beindi ég sjónum mínum hærra og fór að góna í skýin; taka stöðuna á himninum ef svo mætti að orði komast. Óteljandi listaverkin sem skaparinn hefur birt mér þar. Þetta hér að ofan er frá í dag, klukkan að verða fjögur, fyrir ofan Tjörnina. Michelangelo hvað?
Og eins og það er nú barnslegt þá sendi ég iðulega bæn upp í blámann í sömu andrá og ég sé hann, þótt ég viti vel að Hún er alls staðar, í öllu og allt um kring en ekki á gullstóli þarna fyrir ofan skýin eins og ég hélt þegar ég var sjö ára (þá leit ég reyndar ekki á Guð sem bestu vinkonu mína heldur eins konar strangan en góðhjartaðan jólasvein sem fylgdist með því ofan úr skýjunum hvort ég myndi eftir því að signa mig og fara með faðirvorið fyrir nóttina).
Á skýjuðum dögum leita ég að glufu og sendi bænina þangað - og/eða þakkirnar - og þá daga sem hvergi sér í svo mikið sem örlítinn bláma minni ég mig á að hann er þarna samt á bak við og skýin eru á stöðugri hreyfingu, rétt eins og lífið og líðanin. Aldrei kyrrstaða, hvorki þarna uppi né heldur hérna niðri.Ég fletti fuglum himinsins upp í nýju bókinni bókanna á netinu og sjá, í Fjallræðunni frægu þar sem ofangreint faðirvor (sem Sú uppkomna hélt einu sinni að héti Þaðervor) er einmitt að finna, vísar meistarinn til þeirra þegar hann ræðir hversu óþarft það er að hafa áhyggjur. ,,Lítið til fugla himinsins," segir hann. ,,Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?"
Og spyr síðan spurningarinnar sem óteljandi spekingar og lífslistamenn, þar á meðal sá sem ég hlusta á þessa mánudagseftirmiðdagana, hafa haft eftir honum gúgúplex sinnum síðan: ,,Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?"
Kona verður dáldið hugsi við þennan lestur; það eru hátt í 2000 ár síðan þessi ræða var flutt, búið að prenta hana í mest seldu bók allra tíma (nema Harry Potter sé kominn fram úr?), dreifa henni um nánast alla jörðina og við erum ekki enn að ná þessu...
Vona að þetta dragi samt ekki kjarkinn úr Guðjóni, ef svo ólíklega vildi til að hann myndi reka hér inn nefið. Mæli með honum, eindregið. Réttum úr bakinu, horfum oftar upp í loftið ;o)
Og já, hér í lokin er ábending, auglýsing, ósk - eiginlega tilmæli til ykkar sem standið nærri einhverjum sem er kempumaki (sjá skilgreiningu í færslu 9. okt. á því hvað kempa er): Segið þeim frá því að á fimmtudagskvöldum sé lítill stuðningsfundur sérstaklega þeim ætlaður í gamla safnaðarheimilinu í kjallara Neskirkju (vestur í bæ, við Hagatorg), á vegum Ljóssins . Hefst klukkan átta, stendur í hálfan annan tíma.
Segið þeim að þið hafið áreiðanlegar heimildir fyrir því að þarna sé alveg sérlega notalegt andrúmsloft, algjör trúnaður, kertaljós, kaffibolli og staður og stund til að næra sig og styrkja, tala um hvaðeina sem leitar á hugann og kannski er erfitt að ætlast til að aðrir skilji en þeir sem hafa verið eða eru á einmitt þessum sama stað í lífinu - og síðast en ekki síst, hlusta á aðra í svipuðum sporum, skemur eða lengra komna. Ég skora á ykkur - látið þetta nú spyrjast. Ljósið er stuðningsmiðstöð fyrir bæði þá sem greinst hafa með krabbamein og fjölskyldur þeirra.
Það eina sem viðkomandi þarf að gera er að slá á þráðinn til þeirra í Ljósinu og boða komu sína. Það er allt og sumt. Ef vill má meira að segja fá prívatviðtal þar til að byrja með, svona til að brjóta ísinn. Stíga eitt skref í einu og svo annað...
3 ummæli:
Sonur minn bað alltaf: "Fagurt vor." Þau eru svo dásamleg.
Það er nærandi fyrir andann að lesa bloggið þitt. Takk fyrir það.
Loftið er fyrir alla eins og sagt er hér fyrir norðan. Bið að heilsa.
It's look barren. Barren in a deliciously peaceful way. Is it good to be home ?
Skrifa ummæli