Líf í árvekni: Að gangast við því sem er

miðvikudagur, 31. október 2007

Að gangast við því sem er

,,Að fyrirgefa er að láta af voninni um betri fortíð." Þessi setning hefur ómað í huga mér frá því að ég fékk hana að gjöf frá einni af Maríunum í lífi mínu (þær eru þrjár) um daginn.
Hef líka verið að hugsa um reiðina; er hún ekki einmitt andstæðan við fyrirgefninguna? Fyrirgefningin lausnin á reiðinni, leiðin í átt til frelsis frá óttanum. Mín kenning er sú að reiði stafi næstum alltaf af ótta (segi næstum, því það borgar sig aldrei að alhæfa og reiði getur vitanlega líka stafað af réttlætiskennd sem er misboðið og það er hið besta mál, þess háttar reiði er afar holl og án hennar væri aldrei bætt úr neinu sem aflaga er).
Það er ekkert skrítið þótt til að mynda únglíngar í frumskógi gelgjuskeiðsins verði auðveldlega reiðir og brúki sig við sér eldra fólk; hið innra er óöryggi og ótti við að standast ekki eigin kröfur og annarra sem skyndilega eru allt aðrar en áður. Reiðin getur verið gegn okkur sjálfum en hún verður að fá útrás - og því fer sem fer.
Engu skiptir hversu mjög er tiplað á tánum í kringum þann hrædda og reiða; reiðin gýs upp við minnsta mögulega áreiti og yfirleitt tilviljun háð hver verður fyrir barðinu á henni. Næst þegar þú verður fyrir barðinu á reiði annarra, spurðu þá sjálfa/n þig að því hvað það geti verið sem sá eða sú sem reiddist sé hrædd við - og þegar þú sérð svarið þá ertu laus við að taka gremjunni persónulega.
Reiðigusur eru bara eins og hnerrar kvefaðrar manneskju. Hafa ekkert með þig að gera en stafar mjög líklega af einhvers konar óttabakteríum ;o)
Fyrir tæpu hálfu ári las ég þá góðu bók, The Power of Now, eftir Eckhart Tolle og sat þá við sjúkrabeð Míns heittelskaða á taugafræðideild Vestri Almenna Spítala í Edinborg. Friðurinn til lestrar var algjör og afar kærkominn eftir vikubasl við að fá læknirana til að leggja fárveikan Minn inn á sjúkrahúsið og finna út úr því hvað gengi að honum - þetta var þegar eftirköstin af geislunum og aukaverkanir af lyfjum skullu á fimm vikum eftir lok geislameðferðarinnar.
Í þögninni inni á þessari prívatstofu (Minn svaf mestallan tímann) sat ég sem sagt og nærði andann með besta lesefni sem ég hef komist í lengi, á meðan maísólin skein fyrir utan gluggann af heiðskírum himni.
Að bókarlokum punktaði ég niður nokkrar setningar frá Eckhart í doppótta glósubók sem vinkona mín ein gaf mér til slíkra nota og bætti síðan við innblásin af Eckhart og andagift Núsins speki um óttann og friðinn sem því fylgir að gangast við veröldinni eins og hún er; leggja af bardagann gegn því sem er liðið og taka augnablikin fyrir eitt í einu í ró og spekt.
,,Að taka því sem er - gangast við veruleikanum án andstöðu og sætta sig við að allt er eins og það er - leiðir til æðruleysis og innri friðar. Sá friður er tenging okkar við hið guðlega.
Æðruleysi merkir óttaleysi. Óttinn getur ekki átt samleið með friðnum. Óttinn er að baki öllum tilfinningunum sem eru okkur erfiðar; reiðinni, höfnunarkenndinni, afbrýðiseminni, minnimáttarkenndinni og sektarkenndinni. Ótti við að vera ekki nógu góð, standast ekki kröfur veraldarinnar sem hljóma stöðugt fyrir eyrum okar og taka sér á endanum bólfestu í huganum og magnast þar upp.
Óttinn við að vera ekki elskuð, vera yfirgefin, vera dæmd ófullnægjandi, óttinn við skort. Óttinn við að hafa ekki nóg og vera ekki nóg. Veröldin stýrist í mörgu af ótta. Við hlaupum undan honum á harðaspretti sem leiðir til þess eins að við hlaupum hann uppi í endalausum vítahring.
Óttinn víkur undan þegar við göngumst við því sem er, þegar við hættum að berjast við vindmyllurnar og dveljum í núinu. Friður færist yfir og við skiljum að ekki er hægt að berjast við eitthvað sem er ekki hér og nú.
Um leið og við göngumst við því sem er hér og nú finnum við að það mun ekki gleypa okkur, að við ráðum vel við þetta eina andartak. Við höldum um þá vitneskju, umföðmum hana og finnum að við rúmum allt sem við þurfum að rúma hér og nú.
Við getum hvílt í því trausti og sleppt dauðahaldinu á óttanum við hið ókomna því að við vitum að þegar - og ef - þar að kemur mun þá líkt og nú eitt andartak taka við af öðru og við verðum fyllilega fær um að takast á við það óhrædd."
Verið góð við hvert annað í dag ;o)

7 ummæli:

Katrín sagði...

Góður pistill eins og vanalega, maman, en verð nú að benda á að í dag er einmitt dagurinn sem fólk Á að óttast! Hrekkjavaka... bú!
-ta fille

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að deila með okkur góðri lesningu nú sem endra nær.
Eva (ókunn en samt svo kunn)

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Takk Eva ókunna. Þú veist að Bjarnarstígsbollinn og kleina með bíða þín hér ef þú skyldir eiga leið heim á landið bláa ;o)

Nafnlaus sagði...

Sérlega skemmtileg og fróðleg lesning, Vilborg.

Nafnlaus sagði...

Virkilega góð lesning þessi pistill hjá þér kæra systir.
Ástarkveðja
Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Alltaf er gjöf hér á síðunni til mín. Þakka þér Villa fyrir þennan pistil sem og aðra.

kv. Dísa

Nafnlaus sagði...

Alltaf yndislegt að lesa þig! Þetta er orðin fastur liður hja mer að kikja a þig þegar Tapio fer með strakinn i hattinn!
Eg þarf alltaf að lesa eitthvað göfugt aður en eg fer að sofa ,þa fer eg með gangsterann i rumið segir Tapio.
Mer finnst þessi setning afar skritin sett fram, eg skil hana en einhvað truflar mig samt. Eg ætla að lata hana oma lika með mer. Takk
fyrir.