Líf í árvekni: Gíraffar um alla borg

mánudagur, 29. október 2007

Gíraffar um alla borg

Fórum með Skottuna í Húsdýragarðinn á laugardaginn; í fyrsta sinn frá því sumarið 2004 en þá kúrði hún sofandi ofaní vagni allan tímann og ekki nema von, tveggja mánaða sponsið.

Hún var að vonum spennt fyrir dýragarðsferðinni - þekkir enda flest dýr með nafni sem gengið hafa um jörðina, meira að segja ,,dænóþors" (sá eina þannig í Hellisgerði um daginn) - og þegar við ókum út Lækjargötuna í átt að Sæbrautinni blöstu fyrstu skepnurnar þegar við sjónum út um bílgluggann: ,,Gíraffar, gíraffar, maggir, haddna!"

Við vorum smástund að átta okkur en við svolitla skoðun varð þetta vitanlega alveg augljóst hverjum fullorðnum líka. Mikið lífslán er það að eiga börn sem hjálpa okkur að líta veröldina nýjum augum. Í stað þess að ósjálfráða hugsunin ,,Sjónmengun!" skjótist upp á yfirborðið hjá mér í hvert sinn sem ég sé byggingarkrana - eða jafnvel gremjuþrungið: ,,Hvar endar öll þessi þensla?!" - þá hugsa ég nú um jórtrandi gíraffa, heimspekilega á svip, með þetta líka fína útsýni sjálfir.
Og í morgun var í fyrsta sinn í vetur dálítil mjöll í borginni; stillt veðrið og hitastig við frostmark - svo tært loftið að það er hrein nautn að draga andann djúpt, djúpt...

2 ummæli:

Mamma sagði...

Já það er yndislegt hvað börnin sjá í umhverfinu,maður fer að horfa með öðrum augum í kringum sig! 'Asarkveðjur! Mamma.

Katrín sagði...

þetta er nú bara gluggaveður fyrir mig. voða fallegt útum minn stóra glugga, en út í kuldann fer ég ekki nema af brýnustu þörf!