Líf í árvekni: Ást í Þingholtunum

þriðjudagur, 31. júlí 2007

Ást í Þingholtunum

Ég elska Ísland, ég elska Íslendinga og ég elska skattstjórann í Reykjavík. (En auðvitað manninn minn meira en alla aðra, þarf nú vart að taka það fram). Ást mín á skattstjóranum byggist vitanlega á því sama og vildarvinátta okkar Glitnis, þ.e. rauðagulli. Og gufar vísast upp um leið og það þverr :o) En er á meðan er og alltaf leggst konu eitthvað til, eins og dæmin sanna.

Búin að vera einsog þeytispjald um bæinn síðustu daga í hinum ýmsu stofnunum og fyrirtækjum við alls lags reddingar sem því fylgja að flytja búferlum heim á landið bláa, á milli þess sem ég hef spænt upp úr kössunum 89 og puntað á heimilinu á ofurkonuhraða. Ég var víst búin að heita sjálfri mér því ,,að koma okkur fyrir í rólegheitunum" en hef nú komist að því að það er svo gaman að gera huggulegt á eigin heimili að mér er algerlega ómögulegt annað en vera að þar til ég hníg niður um miðnættið gjörsamlega búin á því.

Minn heittelskaði býttaði í hvelli út breskum klóm fyrir íslenskar og kaffivélin góða komst í samband strax á fyrsta degi svo að orkunni er vel viðhaldið með koffíni og aldeilis fer nú áttræðisafmælisgjöfin okkar frá tengdó vel þarna í skotinu vaskmegin í litla eldhúsinu okkar (sem verður væntanlega skipt út í vetur í boði skattstjórans í Reykjavík).
Staðan núna er sú að enn er eftir að taka upp úr og fara í gegnum sex eða sjö bókakassa niðri í kjallara sem þangað fóru fyrir tveimur árum (og sortera eitthvað út svo að bækurnar sem við bættum á okkur í Skotlandi komist nú fyrir á bókaveggnum), fara í Sorpu með tvo pappakassa af dóti í Góða hirðinn (sem mér skilst að sé eina ,,thrift búðin" í landinu sem tekur við öðru en fatnaði - það voru svona sjö stykki í hverfinu okkar í Edinborg!), skúra, hengja upp nokkrar myndir, senda kvittanir á leigumiðlunina úti til þess að endurheimta tryggingaféð okkar þar og síðast en ekki síst, gera upp reikningana við strákormana sem leigðu af okkur og gengu hér um eins og hreinustu bestíur, svo ég tali nú bara gott íslenskt mál. (Já, og láta þá sækja draslið sem þeir skildu eftir í kjallaranum og er fyrir okkur!)

Annars er þetta eiginlega komið. Og í dag fengum við loks heimasímann okkar nýja og netið tengt, það gerðist víst reyndar á föstudaginn síðasta en láðist að segja okkur frá því og í onálag var einhver innanhúsbilun á línunni hjá okkur sem olli því að enginn sónn var í símanum þegar við vorum af og til að kanna málð um helgina.

Minn heittelskaði kippti því vitanlega sjálfur í lag í einum grænum. Jafnskjótt og það lá fyrir að að tengingin væri komin en sónninn ekki hvarf hann oní kjallara með einhverjar græjur úr verkfærakassanum og sagðist ætla að finna út úr þessu, þetta væri líklega skammhlaup á línunni (?) og var búinn að því örskömmu síðar. Mér finnst það ekki alveg venjulegt hvað þessi maður er mikill snillingur í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur og það þótt það vanti dáldið í kollinn á honum (!)
Á morgun er enn einn stóri dagurinn í lífi fjölskyldunnar en þá flytur heimasætan (fyrrverandi) kassana sína 16 í Höfðakamp, þar sem hún mun hafa búsetu í námsmannasambýli að minnsta kosti til áramóta og telst formlega flutt að heiman.
Hvað verður á næsta ári vitum vér ekki ennþá; kannski mun hún verða frelsinu svo fegin að hún finnur sér framhald á leiguhúsnæði en kannski mun hún sakna svo æskuheimilisins og blíðunnar sem hún hefur notið þar í ríflega tuttugu ár að hún flytur heim aftur. (Spurning samt hvar á þá að koma henni fyrir því þessi orð eru skrifuð í fyrrum heimasætuherberginu sem nú verður að Mínu allra heilagasta...!)

Botna pistil dagsins á mynd af kaffi- könnunum tveimur sem sátu svo prúðar á hillu í einni af raftækja- verslunum borgarinnar hvar við áttum erindi heiðurshjónin í vikunni eftir baðherbergisljósi, en þær kveiktu með mér þá hugsun að ef við litla systir mín værum kaffikönnur þá væri hún sú til vinstri en ég sú til hægri...

P.S. Efsta myndin er tekin kvöldið sem við komum heim, þann 15. júlí sl., út um bílgluggann hjá Jonna mági á leiðinni í bæinn. Mikið var nú notalegt að vera heilsað þannig af kvöldsólinni í allri sinni dýrð.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já ,mér líst vel á étta með kaffikönnurnar!!!
Annars velkomin heim enn og aftur öll saman!!! hlökkuum til að sjá ykkur! Mamma.

Nafnlaus sagði...

Verið velkomin heim. Ég á góða föðursystur í Kópavoginum sem ég veit að gleðst mikið yfir heimkomu ykkar og náttúrulega vitið þið það líka, en ég mátti til að minnast á það.
Ég kíkka annað slagið hér inn og mikið er huggulegt hjá ykkur og ekki að sjá á myndunum ykkar að þið séuð nýflutt inn.
Kveðja
Theodóra Kristjánsdóttir

Nafnlaus sagði...

eg held ad allir seu ad bida eftir mynd af draslinu strakaormanna margfrægu.. :-) Velkomin heim!

Nafnlaus sagði...

Frábær mynd af okkur systrum þarna hjá Villa mín, hún gæti ekki lýst okkur betur :o)
Enn og aftur alveg hreint frábært að vera búin að fá ykkur heim!
Kærleiksknús til ykkar allra
Auður Lilja "bleika"

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að flutningarnir hafa gengið vel fyrir sig. Hér er verið að pakka af miklum eldmóð niður í mad4boxes. Hvernig tókst annars að "tjúna" sjónvarpið ?
Kveðja frá Edinborg
Arnar og Magga

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Sjónvarpstjúníngin tókst svona líka ljómandi vel, tjúnerinn virkar fínt á Íslandi og óþarfi að tengja í gegnum önnur tæki!

Gunnella sagði...

Velkomin heim (tho ad eg sei ad visu fjarri ;-) Thathegar farid ad kvida fyrir ad flytja heim (til Skotlands ad visu) i April! Otrulegt hvad madur sankar miklu ad ser a stuttum tima ;-D

Nafnlaus sagði...

Ágætt þetta með kaffikönnurnar.
Ef við værum öll kaffikönnur væri ég líkst til expresso kanna.
þva
Matta