Líf í árvekni: Pappírsbrúðkaup

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Pappírsbrúðkaup

Svoddan annríki hjá minni að það hefur farist fyrir að gera grein fyrir dögunum hér í netheimum; ákvað að skutla hér inn myndasyrpu frá hreint yndislegum verslunarmanna- helgarsunnudegi, (30 stafir!) 5. ágúst, sem ofan á sólríkið var okkar fyrsti brúðkaupsafmælisdagur og því vitanlega vel fagnað.

Hátíðahöldin hófust með útdeilingu brauðs til íbúa Tjarnarinnar, bárust þaðan yfir í Kolaportið þar sem fyrstu kókosbollunnar í tvö ár var neytt af mikilli nautn og lauk síðan með dýrindiskvöldverði okkar pappírsbrúðhjónanna á Sjávarkjallaranum, þar sem snædd var andabringa súkkulaðifíkilsins og humar á þrjá vegu.
Guminn gaukaði bók að frúnni í tilefni dagsins (yðar einlæg eins og rati keypti ekki neitt handa honum, bæti úr á næsta ári þegar við eigum bómullarbrúðkaup) og afkvæmin okkar voru svo elskuleg að splæsa á okkur bæði blómum og tveimur einkar veglegum bollum frá Söstrene Grene, sem hafa nú verið teknir í notkun sem kvöldtebollarnir (Frænka og Raggi komu okkur á bragðið með kvöldte þegar við vorum hjá þeim fyrstu vikuna).
Heimasætan fyrrverandi smellti á okkur mynd í tilefni dagsins þegar hún mætti úr Höfðakampi hingað á Hallveigarstíginn til að líta eftir litlu systur um kvöldið; eins og sjá má hefur minn heittelskaði rakað af sér skeggið og nokkur ár í leiðinni svo að sumum þótti nú bara nóg um (Skottan fór að gráta þegar hún sá hann skegglausan)!

P.S. Mér fannst full korní að setja inn ársgamla mynd undir ,,samanburðaryfirskini" en stenst samt ekki mátið að vísa á brúðkaupsmyndirnar okkar í albúminu hér ;o)

5 ummæli:

mamma sagði...

Hlökkum til að sjá ykkur!
Mamma

Bergljót Davíðsdóttir sagði...

Neita ekki að mér finnst maðurinn fallegri skegglaus. En brúðarmyndirnar fara langt, því þar er hann næstum eins fríður sýnum. EN hvar eru þær teknar. Flaug augnablik í hug að þær hafi verið teknar á milli dýrfirska fjalla en vitann kannast ég ekki við í alfaraleið við fjörðinn fallega; nema út á Svalvogum; varla er þetta hann?
BD
Og aðeins meira; síðan þin er fallega unnin og skemmtileg.

Gunni sagði...

hann er bara stormyndarlegur skegglaus - og bestu kvedur og hamingjuoskir med pappirsbrudkaupid!

McHillary sagði...

Hæ elskurnar.
Innilega til hamingju með pappírsbrullaupið. Þið verðið bara fallegri með árunum, svona reffileg sem þið eruð á eins árs afmælismyndinni.

Annars allt gott hérna megin, elska líka skattstjórann og var að koma heim í dag eftir að hafa skrölt yfir Fimmvörðuháls með stæl.
Hlakka til að sjá ykkur sem fyrst, hvenær á annars að rúlla í Fjörðinn???
Luv, H

Sigga sagði...

Velkomin heim á klakann. Vona að við höfum tækifæri fljótlega til að hittast yfir kaffibolla. Er á leið í dag í afmæli til Gurríar vinkonu minnar á Skaganum. Greip með mér tvær myndir frá snemm-menntaskólaárum. Önnur tekin (af þér held ég) í Tangagötunni, og á henni eru Oddur Árna, Auður Lísa (vann með pabba hennar um tíma), Dedda, Kata Baldurs (nú Katrín Snæhólm (hún er vinkona Gurría)) og ég. Á hinni (veit ekki hver ljósmyndarinn er) eru Dedda, Svanhildur Vilbergs og þú, og á hana hefur verið skrifað "Skál Sigga!". Fékk hana örugglega senda til Ameríku á sínum tíma. Láttu heyra í þér.....822-3719. Kveðjur, Sigga J.