Líf í árvekni: Heima á ný

laugardagur, 21. júlí 2007

Heima á ný

Ósköp er nú gott að vera komin heim á landið bláa í fangið á öllu sínu fólki (eða svo gott sem) og um það bil inn á eigið heimili á nýjan leik. Strákormarnir sem við leigðum Hallveigarstíginn höfðu reyndar dáldið annan skilning en yðar einlæg á því hvað telst þrifalegt. Það kom ekki að mikilli sök því við gátum fyrir klíkuskap fengið í hvelli afar kraftmikla konu okkur til bjargar sem skilaði af sér glansandi íbúð eftir 20 tíma þrif.

Málararnir tóku síðan ótrauðir við af Guðnýju hinni þrifnu, máluðu allan stigaganginn uppúr og herbergin og olíubáru gólfin sem verða einmitt orðin þurr á morgun, laugardag, þannig við getum farið að færa sófasettið í nýþvegið áklæðið og gluggana í sín nýþvegnu tjöld. Búslóðin losnar vonandi úr tollinum á mánudag eða þriðjudag og þá fáum við vaska sveit hjálpara til að bera fyrir okkur þessi 500 kílógrömm af dóti (upplýs. úr komutilkynningu Samskipa) inn í hús. Þeir sem hafa gaman af reiknikúnstum geta þá reiknað út hve mörg kíló fóru út úr íbúðinni okkar í Edinborg á mínútu, því þrír menn báru þetta hálfa tonn í flutningabílinn þar á 50 mínútum.

Fjölskyldunni bættist þarfur þjónn í gær; flæktumst á bílasölur með Jonna mági og mín með hjartað í buxunum að fara að keyra aftur eftir nær tveggja ára hlé en það var engrar undankomu auðið þegar við heiðurshjónin urðum yfir okkur skotin í blárri sítrónu c3 árgerð 2004, því Jonni varð náttlega að keyra sinn bíl heim og minn mann má ekkert keyra fyrr en ár er liðið frá því að grautað var í kollinum á honum á Western General Hospital (sem sé í janúar).

Það hefur þó gengið áfallalaust að þeysast um borgina síðan þá á milli Frænku í Kópavoginum, þjóðskrár, þvottahúss og tollgæslunnar - og náttlega með Skottuna í pössun til ömmu - enn sem komið er og Guð gefi að svo verði áfram. Skil samt ekki hvernig það er hægt að búa í þessari borg svona lengi (20 ár!) og hafa ekki enn lært að rata út fyrir 101. Mætti ætla að það væri ég sem væri með ,,a hole in the head." Maðurinn með holuna í kollinum er því starfandi áttaviti um þessar mundir og segir fátt annað við sína heittelskuðu en ,,til hægri hér" eða ,,til vinstri hér".

Læt duga í bili; í næsta bloggi verður myndskreytt af meira gagni og áður en ég læt smella af á sjálfa mig verð ég búin að bera á mig sjálfbrúnkandi krem - agalegt að mæta hingað norður skjannahvít úr rigningunni í Skotlandi og sjá ekkert nema kaffibrúnt fólk um allar jarðir!

9 ummæli:

bryndis sagði...

Velkomin heim

Magga sagði...

Hæ hæ!
Gott að heyra að umskiptin hafa gengið vel :) Hér híma kaldir og hraktir Edinborgarar, nýkomnir inn úr endalausa mígildinu, og láta sig dreyma um íslenskt sumar...viss haldhæðni í því ;)
Bestu kveðjur frá fyrrverandi samborgurum!
Magga, Arnar og Elvar Orri

Auður Lilja sagði...

Yndislegt að fá ykkur heim!
Sjáumst í fyrramálið :o)

Gerður sagði...

Velkomin heim.
Hvernig væri að við stelpurnar úr MÍ hittumst þegar fer að hausta?
Kveðjur
Gerður.

Nafnlaus sagði...

HÆ hæ og velkomin heim.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim
Ertu enn með sama gamla símanúmerið? ég verð stödd í borg óttans á morgun og það væri gaman að hitta þig snöggvast.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim!

Kveðja, Herdís Pála.

bjarney sagði...

Velkomin heim! Það er fastur punktur í tilverunni að lesa þetta skemmtilega og góða blogg!!

Alla sagði...

Velkomin heim.
Þetta með að rata hefur ekkert með 20 ára búsetuna að gera. Ég er búin að búa í Mosó í tvö ár, eftir 30 í henni Reykjavík en er þó hætt að rata TIL Reykjavíkur...enda nýjar götur að þvælast fyrir manni í hverri viku :-D
Enn og aftur velkomin og gangi ykkur vel að koma ykkur fyrir.
Kveðja Alla.