Að setjast niður til þess að segja frá verður nefnilega til þess að ég þarf að staldra við; horfa yfir sviðið og reyna að raða þessu öllu saman niður. Spyrja sjálfa mig hvað sé mikilvægast, hvað komi fyrst og hvað sé svo lítt merkilegt að óþarfi sé að eyða í það pixlum.
Góð vinkona mín, ein þroskaðasta manneskja sem ég hef kynnst, lætur farsímann sinn heilsa sér þegar hún kveikir á honum með eftirfarandi spurningu: ,,Hvað skortir núna?“ Spurningin er hlaðin hvatningu um að vera í núinu, lifa í einmitt þessu andartaki en ekki þeim sem eiga enn eftir að koma. Svarið hlýtur því alltaf að vera það sama: Akkúrat núna skortir mig ekkert.
Æðruleysið er komið aftur – skorti það um tíma en fann það í gær (á tannlæknabiðstofunni af öllum stöðum). Sem minnir mig á orðaskipti sem ég átti eitt sinn fyrir þó nokkrum árum við son minn þá sex ára gamlan (nú 12 og hálfs). Við bjuggum þá í Hruna í gamla vesturbæ, þrenningin hún ég, Heimasætan og Snúðurinn og vissum ekki svo mikið sem um tilveru draumaprinsins sem síðar varð, hvað þá að okkur grunaði að Skottan ætti eftir að bætast í veröldina.
Yðar einlæg var að tína upp blaut handklæði úr skólatösku pjakksins síðdegis (sem áttu að hengjast upp af honum við heimkomu) þegar hún lét þessi orð falla stundarhátt, í miklum mæðutóni (enda ætlunin að vekja sektarkennd með slóðanum): ,,Mig vantar æðruleysi!“ Þá heyrðist innan úr herbergi skýr og ákveðin drengsrödd: ,,Þig vantar kærasta!“ Mín hváði hissa og var sagt í sama tóni að það vantaði líka stóran bróður og litla systur.
Þegar ég spurði Snúðinn hvort hann vissi um vænlegan kandídat í kærastadjobbið svaraði hann neitandi, en bætti við hugulsamur: ,,Þú verður að finna hann sjálf. Þú þarft að hitta vini þína og finna kærasta sem verður ástfanginn af þér og þú ástfangin af honum.“ ,,Og á hann þá að eiga stóran strák og litla stelpu?“ spurði ég. ,,Já, það væri best. Það vantar stóran bróður og litla systur í þessa fjölskyldu,“ endurtók hann ákveðinn á svip.*
Jamm og já. Síðan þá hefur margt breyst og honum bæst bæði stjúpi og stjúpa og fjórar litlar systur að auki. Eins gott að fara varlega í að óska sér, því það gæti allt saman ræst og gott betur!
Jamm og já. Síðan þá hefur margt breyst og honum bæst bæði stjúpi og stjúpa og fjórar litlar systur að auki. Eins gott að fara varlega í að óska sér, því það gæti allt saman ræst og gott betur!
Ætti þá kannski að fara að koma mér að títtnefndu núi aftur og rekja heilsufarstíðindi héðan úr Gilmore kastala í Eiðinaborg síðla í maímánuði á því herrans ári 2007. Sem mætti svo sem koma fyrir í einum bókstaf, endurteknum nokkrum sinnum: Zzzzzz...! En eins og þið vitið er ég ekki fyrir að stytta mál mitt ;o)
Frá heimkomu af sjúkrahúsinu hefur prinsinn sem sé sofið ósköpin öll - svona 18-20 tíma á sólarhring - og lystin er lítil en þó einhver (engin á mat krydduðum engifer!). Hitavellan hefur farið, komið og farið aftur. Kollurinn hefur því miður myndað mótefni gegn tópasinu eins og öðrum verkjapillum og það virkar ekki lengur svo að höfuðverkirnir líta við reglulega, stoppa sem betur fer yfirleitt ekki lengi.
Á þriðjudag sóttum við heim maxfaxinn mr. Larkin hjá Edinburgh Dental Institute (myndin tekin á biðstofunni þar) en hann er sérfræðingur í öllu því er viðkemur andlitsvöðvum. Honum þótti Björgvin geta opnað munninn bara þó nokkuð mikið og er sá eini sem hefur tekið svo til orða þar um, enda prinsinn vart fær um að gapa meira en sem nemur þykkt á brauðlausum borgara frá því eftir aðgerðina í janúar.
Fólk sem hingað kemur, sagði maxfaxinn orðum sínum til skýringar, getur yfirleitt alls ekki opnað munninn nema agnarögn eða ekki neitt vegna þess að það hefur gengist undir geislameðferð sem lendir neðar á andlitinu (en í tilviki Björgvins), vegna krabbameina í hálsi og munni. Og sagði okkur sem sagt að helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er væri sú að geislarnir hefðu valdið örum á kjálkavöðvanum vinstra megin og þar hefur myndast ,,fibrosis" (sem ég held að sé örvefur á íslensku, Palli?) sem hindrar eðlilega hreyfingu.
Ekkert er við því að gera - því fibrósinn þessi kemur alltaf aftur þótt hann sé numinn burt með aðgerð -annað en að æfa sig í að gapa sem mest til þess að vinna gegn því að ástandið verði verra. Svo að það má sem sagt hafa gagn af öllum þessum geispum, svo kona sé nú jákvæð!
Góðu fréttir vikunnar eru þó þær að læknirarnir hafa gefið kenninguna um vírussýkingu upp á bátinn eftir hitavellu í 3 vikur og telja nú líklegast að flogalyfið (Carbamezapine) geti átt sök á hitanum; það á til að hafa þá aukaverkun og slíkt gæti hafist þegar saman koma öll þessi ,,snemm-síðbúnu" eftirköst af geislunum sem fyrr eru talin. Svo að framundan eru væntanlega lyfjaskipti og betri líðan.
Ekki er þó von til þess að orkan aukist að neinu gagni alveg á næstunni og eins víst að prinsinn hugrakki verði að hvíla sig mikið næsta mánuðinn að minnsta kosti. Ástæðan ku vera eyðing svonefnds myelins í heilanum. Miðtaugakerfið er eins og skiptiborð sem sendir rafboð eftir taugaþráðum til hinna ýmsu líkamshluta. Þessi boð stjórna öllum meðvituðum og ómeðvituðum hreyfingum.
Flestir taugaþræðir eru einangraðir með slíðri úr efni sem kallast myelin. Þessi einangrun er mikilvæg fyrir leiðnina í tauginni. Þetta er svonefnt hvítt efni í heilanum (sem sé ekki sjálfar gráu sellurnar) og það tekur heilann yfirleitt um sex vikur að bæta skaðann sem orðið hefur á því af völdum geislameðferðar (þessi læknisfræðilega skýring er í boði heimasíðu MS-félagsins).
Enda þetta á að gefa í skyn að von sé góðra tíðinda í atvinnumálum Heimasætunnar en segi ekki meir í bili, svo að þið fáið nú einhverja spennu í lífið og lítið hingað fljótt aftur ;o)
P.S. Til ykkar sem hafið hug á að senda okkur kveðju í comments-gluggann en lent í vandræðum við framkvæmdina: Það þarf bara að haka við og skrifa nafnið sitt annað hvort í reitinn merktan Other eða Anonymous og slá síðan á Publish your comment. Hunsið alveg ósk um password og username því þess háttar er eingöngu ætlað þeim sem eru skráðir bloggarar með síður hjá www.blogger.com .
* Nei, minni mitt er ekki svona gott; ég á þetta samtal skrifað niður frá því í apríl 2001 í svonefndri Matthíasarbók, sem verður kannski birt opinberlega í heild sinni þegar söguhetja hennar hefur aldur til að hafa húmor fyrir því sem þar stendur ;o)
9 ummæli:
Jú, fibrosis ku vera örvefur eða eitthvað í þá veru. Held þú ættir að lokum að skrifa kennslubók í læknisfræði, svo skýr ertu í öllum skrifum um þessi veikindi öll.
Bestu baráttu- og batakveðjur héðan af ísa köldu landi.
Matti er auðvitað einstaklega orðheppið skemmtilegt barn enda bregður fjórðungi til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fósturs og síðast en ekki síst, fjórðungi til nafns. Ég hlakka tik að lesa Matthíasar-guðs-spjall einhvern daginn.
Hlýjar kveðjur úr kuldanum á Ísafirði sendir
Matta
Sæl Vilborg,
kíki hérna reglulega og langaði bara að kvitta fyrir mig! Maður verður eitthvað svo rólegur og yfirvegaður að lesa það sem þú skrifar, get ekki útskýrt það. :)
En mikið rosalega er hún Sigrún Ugla orðin sæt!
Kveðja, Védís
Knús til ykkar allra!
Ertu heima í símatjatt á annan í hvítasunnu biskupinn minn?
Knús mús til Björgvins, Skottu, Snúðs og Katrínar með von um góða prófaútkomu. He fnáð að blogga vikulega núna nýlega.
Njóla spóla
Takk elsku Palli fyrir falleg orð -svo er nú að vona að íslenskir læknar tali sömu latínuna og grískuna og hérlendir svo kona þurfi ekki að læra orðaforðann allan upp á nýtt við heimkomu!
Matta, mér verður einmitt svo oft hugsað til þín þegar Matti fræðir okkur hin um muninn á réttu og röngu í henni versu ;o)
Kæra Védís (dóttir "Löggu minnar"): Hjartanlega til hamingju með glæsilega dúxun í Ármúlanum og verðlaunin fimm sem þú sópaðir saman við stúdentsútkriftina þrátt fyrir alvarleg veikindi í allan vetur. Þú ert nú meiri kraftaverkakonan. Hamingjuóskir til Bjarna líka!
Kæra Njólus, er alltaf hreint til í símatjatt og til hamingju með að að hafa aftur tekið upp bloggsamband við heiminn. Gott að skjá til þín.
Ekki er að spyrja að viskunni Hjá Matta ,hann hefur lengi verið glúrinn!Sendum ykkur hlýjar kveðjur úr kuldanum hér og óskum ykkur alls hins besta!
Annars spáir nú loks einhverri hlýju eftir helgina ,svo að við erum vongóð í fleiru en einu tilliti!!! 'Astarkveðjur til allra! Mamma.
Sæl Villa og fjölskylda datt hér inn á flakki mínu á bloggsíðum,það er leitt að heyra með manninn þinn hvað hann er að kljást við,en ég óska ykkur bara alls hins besta og allt muni fara vel.
kærar kveðjur af klakanum
Björnfríður Fanney
Sæl Villa mín, fylgist reglulega með ykkar sætu fjölskyldu.
Ég sé að fleirri Þingeyringar eru að uppgötva síðuna þína.
kærar og baráttukveðjur
úr firðinum
Jóka
Sæl verið þið. Ég heiti Theodóra Kristjánsdóttir og er systurdóttir Sigrúnar mömmu Björgvins. Ég frétti af síðunni ykkar og veikindum í gegnum Björgu systur. Ég tek undir með þeirri sem sagði hér að ofan að það er eins og maður róist við að lesa skrif þín Vilborg. Þú lýsir þessu af svo mikilli nákvæmni að manni finnst næstum því að maður skilji hvernig sjúkdómurinn hagar sér.
Það er gaman að skoða myndir af litlu Sigrúnu Uglu sem Sigrún amma er svo óendanlega stolt af. Hún kom í heimsókn til mín og fjölskyldu minnar til Hríseyjar í fyrrasumar og sýndi okkur myndir af ykkur. Úr brúðkaupinu fína og svo myndirnar af ömmustelpunni sinni. Ég kveð ykkur og vona innilega að ykkur gangi vel og batinn verði góður.
Bestu kveðjur
Tedda
Skrifa ummæli