Líf í árvekni: Afmæli og Emelíur

miðvikudagur, 23. maí 2007

Afmæli og Emelíur

Á mánudaginn síðasta, 21. maí, var haldið upp á þriggja ára afmæli Skottunnar með pompi og pragt. Reyndar voru veislugestir ekki aðrir en við fjölskyldan og Jonni frændi sem lagði land undir fót alla leið frá Íslandi í tilefni þessa merkisdags ásamt Hjalta vini sínum. En það var bara ljómandi gaman þótt ekki væri skarinn stærri, og veisluföngin enda ekki af verri endanum; súkkulaðikaka á la Nanna tengdó hans Árna frænda og pönnukökur á la Katrín með sultu og rjóma.

Gleðin afmælisstúlkunnar átti sér engin takmörk þegar það rann loks upp fyrir henni að ekki var ætlunin að fara (aftur) í afmæli hjá Luca leikfélaga af Rainbow (eins og hún virtist halda) heldur átti hún sjálf afmæli og þennan líka fjölda af fínum pökkum og allt sem í þeim var: Leikföng, mynddiska og fatnað bæði á sig og Emelíurnar (dúkkurnar hennar þrjár heita allar Emily). Eins og sést hér til hægri eru prjónafötin frá ömmu Sigrúnu m.a.s. með vösum!

Eldavélin góða vakti líka mikla lukku og kvöldmatur var eldaður samfleytt í þrjá klukkutíma. Skottan sýndi í verki að hún er mikil málamanneskja, en auk íslensku og ensku talaði hún allan liðlangan daginn ákaft á eigin máli sem enginn reyndar skildi frá orði til orðs, en meginmerkingin var okkur öllum ljós: Það er mjög gaman að eiga afmæli!

2 ummæli:

Amma sagði...

Hjartanlega til hamingju með þriggja ára afmælisdaginn elsku Sigrún Mín Kata amma!:-)

Daddi sagði...

Hjartanlega til hamingju með þriggja ára afmælisdaginn.um daginn.kveðja: Daddi frændi á Islandi