Þessa dagana er hægagangurinn ríkjandi, ekki alveg að eigin ósk reyndar, því prinsinn hugrakki telur nú orkuprósent hvers dags á fingrum annarrar handar. Jæja, hann segir mig vísast ýkja núna en þreytan er vissulega mikil og líkust því sem var fyrst eftir uppskurðinn í janúar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að hitinn hefur verið eðlilegur og höfuðverkirnir mun færri allra síðustu daga en um langt skeið og skammvinnari.
Í stað þess að innbyrða verkjalyf af sterkara taginu hefur minn mann nú þann háttinn á að leggjast hið snarasta flatur á hægri hliðina þegar höfuðverkur bankar uppá , fá sér tópas (sem Jonni mágur kom færandi hendi með að heiman) og oftar en ekki er verkurinn farinn eftir korter.
Spurning hvort tópasframleiðendur ættu kannski að huga að markaðssetningu á þessu ágæti sem undralyfi við höfuðpínu. Óvíst hvort það virkar þó fyrir aðra því það er engu líkara en bragðkirtlar prinsins hafi verið forritaðir upp á nýtt og að undanförnu hef ég fengið skrítnustu athugasemdir eins og hversu margar skeiðar af sykri ég hafi sett út á kornflexið hans (ætti nú ekki annað eftir!) og hvaða aukabragð sé eiginlega að kaffinu (?!).
En að allt öðru - mig langar að bæna á ykkur, lesendur góðir, og láta okkur vita af því ef þið getið verið heimasætunni, henni Katrínu minni, hjálpleg og bent henni á atvinnutækifæri heima á Íslandi í sumar (sem og næsta vetur, meðfram væntanlegri háskólagöngu).
Ykkur til upplýsingar, sem ekki þekkið stúlkuna af eigin raun en gætuð vitað af opnum dyrum fyrir hana út á vinnumarkaðinn þá verður hún tvítug eftir ellefu daga (guðminngóður!), og þótt ég sé vitanlega ekki hlutlaus þá verð ég að segja að samviskusamari, ábyrgari og duglegri unga konu er vart hægt að hugsa sér til vinnu.
Fyrir utan nú dótturlega fullkomnun (hjálpar við öll húsverk, passar hvenær sem óskað er, er ALLTAF stundvís, stendur sig snilldarvel í skóla, er glaðlynd, o.s.frv.) þá er hún bæði afar vel mælt og skrifandi, jafnt á íslensku sem ensku (sjá blogg sl. 3 1/2 ár), mjög hraðritandi á lyklaborð og kann á allt sem nöfnum tjáir að nefna við ritvinnslu. Sumarstörfin fram að þessu hafa verið garðyrkja (bestu meðmæli verkstjóra Vinnuskólans til skrifleg) og fiskvinnsla (Grandi tvö sumur), en það er víst best að geta þess að það síðarnefnda er engan veginn efst á óskalistanum.
Mesta starfsreynsluna hefur hún af barnagæslu (sl. 12 ár) og margir fleiri en yðar einlæg, meðal annars íslenskar barnafjölskyldur í Edinborg, geta borið henni gott vitni í þeim efnum.
Áhugasviðið er vítt og breitt og nær hvaðeina kemur til greina, afgreiðslustörf af hvers konar tagi gætu hentað því stúlkan hefur þjónustulund góða (og mikla, persónulega reynslu af verslun bæði á fatnaði, tónlist og myndefni!) en kannski væri draumastarfið falið í sýsli með bækur og/eða blöð og texta. En kannski eitthvað allt annað sem á enn eftir að koma í ljós.
Ó, að standa á þröskuldi fullorðinsáranna og allir þessir möguleikar ósnertir og innan seilingar eins og konfektmolar í kassa... ;o)
P.S. Ef ykkur kemur eitthvað hjálplegt í hug, endilega sendið línu á vilborg(hjá)snerpa.is eða sláið á þráðinn til okkar hingað í Eiðinaborg í síma 0044 131 22 11 935.
4 ummæli:
Hæ kæra fjölskylda.
Bestu kveðjur til ykkar og vona að Björgvin fari að hressast. Þið þurfið að reyna að njóta vel tímans sem eftir er í borginni...veit ekki um sumarstarf fyrir Katrínu en get tekið undir að um sérlega samviskusaman og ljúfan starfskraft er hér um að ræða! Stefni svo á að heyra í þér á allra næstu dögum...
Skal leggja heilann í bleyti. Hefur hún áhuga á sambýlum eða hjúkrunarheimilum. þar er hægt að fá vinnu. Skal finna til slóðirnar ef hún vill. Annars ráða þeir yfirleitt í ágúst þegar þeir losna við sunarfólkið.
Hér er allt nokkuð gott. Ragga biður að heilsa. Bjarni og Védís útskrifast á þriðjudaginn!!! Hlakka til að sjá ykkur í júlí. Björgvin og þið öll verðið áfram í fyrirbænum hjá okkur. Bænahringur eftir tvo daga. Knúsmús Njóla
Kæra Njóla, sendu endilega slóðir á hvaðeina, allt til skoðunar!
Sendi fyrirspurn á bóksölu stúdenta.. segðu meynni að leggja inn "starfsumsókn" á eigin síðu svo potensial ráðendur geti skoðað beint.. :-) Óskaðu bóndanum sem bests bata og vonandi helst töframáttur tópasins áfram - þeir eru nefnilega hættir að búa til blátt ópal sem var þeim gæðum búið að "bæta hressa og kæta".
Skrifa ummæli