Líf í árvekni: Hvar er doktor House?!

föstudagur, 11. maí 2007

Hvar er doktor House?!

Hafði varla sleppt bloggorðinu sl. laugardagskvöld þegar prinsinn hugrakki lagðist í bólið og hefur legið þar síðan, ansi hreint slappur með ógleði, höfuðverki og hita. Það er að segja þar til um hádegið í dag, föstudag, en þá vorum við doktor Grant taugalæknir orðin alveg sammála um það að svona gæti þetta ekki gengið og drengurinn var lagður inn á spítalann á Department of Clinical Neurology, deild 31, þar sem hann er nú í þessum skrifuðum orðum, til rannsóknar og eftirlits um óákveðinn tíma.

Öll einkenni - nema hitinn - benda til þess að hér séu á ferðinni það sem heitir á engelsku máli "early-delayed side effects" eftir geislastríðið, og gæti snarast á ylhýra sem snemm-síðbúnar aukaverkanir. Slíkt væri mjög viðbúið einmitt núna, sex vikum eftir lok geislameðferðar. Fyrstu viðbrögð læknirins sem ég náði í á mánudag eftir mikið mas (þá var nefnilega af-því-bara-bank holiday) voru því að auka steraskammtinn upp í það fyrra magn sem Björgvin hafði tekið meðan á meðferðinni stóð.

Þegar hitinn hækkaði síðan á miðvikudag var tekin CT tölvusneiðmynd af heilanum til þess að ganga úr skugga um að engin sýking væri þar í gangi. Engin sýking sást nokkurs staðar, til allrar hamingju, og ekki heldur nein heilabólga (en hún hefði útskýrt ógleðina/höfuðverkina/syfjuna) - sem eru vitanlega ekki síður góðar fréttir. Aukin heldur var æxlismassinn minni en CT myndataka strax eftir skurðaðgerðina í janúar sýndi.

Sem getur reyndar verið vegna þess að í janúar var bólga til staðar sem gerði myndina óljósari en ella en hugsanlega vegna þess að geislarnir hafa þegar náð að minnka það sem eftir var af æxlinu, þrátt fyrir að enn sé mjög skammt um liðið og ekki búist við slíkum árangri fyrr en að a.m.k. 3 mánuðum liðnum.
Þar sem enga bólgu var að sjá voru sterarnir því snarminnkaðir og eiga að vera úr sögunni eftir tvær vikur. Eftir stendur að engin augljós skýring er á hitanum - né eiginlega ógleðinni heldur - og búið að þreifa minn mann og þukla í bak og fyrir af samtals þremur læknirum á jafnmörgum dögum án þess að nokkrar nýjar kenningar hafi komið fram um hvað geti amað að, utan hugsanlega vírussýking.

Í dag var því tekið það ráð að draga úr prinsinum blóð á spítalanum og setja í ræktun, til þess að útiloka að einhvers staðar sé sýking í kroppnum sem sterarnir hafi haldið í skefjum eða hulið að undanförnu. Vírussýking kemur alveg til greina og er vonandi bara málið, ofan á aukaverkanir af geislunum - sem læknast þá af sjálfu sér á skömmum tíma og fyrr en ella þar sem hann fær nú viðeigandi aðhlynningu alls þess ágæta fólks sem starfar á DCN.
Nú væri vissulega gott að hafa doktor Gregory House og hans vaska lið við hendina en ekki bara í kassanum... Læt ykkur frétta af gangi máli strax og eitthvað er að frétta (les: ef ekkert er bloggað er allt við það sama og ráðgátan ennþá óleyst).
p.s. Má til með að geta þess fyrir alla femínistana sem hingað koma í heimsókn að hjúkkurnar tvær sem voru á vaktinni í dag og í kvöld voru báðar karlkyns en læknirinn sem heilsaði á drenginn á kvöldvaktinni var kvenkyns.
p.p.s. Tökum Tjallana okkur nú til fyrirmyndar, kjósum rétt(ar) og koma svo, Ísland!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú veitir þér ekki af Vestfirsku seiglunni þykist ég vita. Ég er með ykkur í huganum og bið mína konu á himnum (sem ég er um það bil alveg að fara að trúa á) fallega að láta nú allt fara vel. Ég slæ á þráðinn fljótlega til að skiptast á montsögum af mér og mínum.

Bestu kveðjur úr 5 stiga hita, að vísu í plús, á Ísafirði.
Þ.v.a.
Matta

Bjössi sagði...

Hæ. Hugsa til ykkar. Vonandi er þetta bara vottur af flensu eða öðru ótengdu. bestu kveðjur úr 3ja stiga hita hinumegin við götuna frá Möttu.

Nafnlaus sagði...

megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur. (fylgist alltaf með þó þið þekkið mig ekki).krossum fingur og allar tær) og vonum það besta.

kv Guðný Sig

McHillary sagði...

Sendi ljós og góða strauma af klakanum sem er nokkuð kaldur í dag. Mun fylgjast vel með síðunni hvar sem ég kemst í net og vona að prinsinn verði fljótur að hressast.
Allra bestustu kveðjur,
Hilla litla.

Nafnlaus sagði...

Æ ekki var þetta gott, en vonandi fer þetta allt að lagast. Sendi ykkur knús og orkustrauma.
Dedda

Magga sagði...

Sendi ykkur hlýjar kveðjur frá Suðurlandinu. Vonandi fer Björgvin að hressat fjótt.
kveðja
Magga

Ljúfa sagði...

Baráttukveðjur og knús frá Northampton, fall er fararheill er það ekki?