Líf í árvekni: Enn er leitað...

sunnudagur, 13. maí 2007

Enn er leitað...

Í þessum skrifuðum orðum er ríkisstjórnarmeirihlutinn fallinn og viðeigandi að varpa hér hamingjuóskum út í veröldina með von um að ekkert breytist til hins verra þegar líður á nóttina. Undarlegt samt að horfa yfir hafið héðan úr landi sem stýrt hefur verið af rósrauðum jafnaðarmönnum undanfarinn áratug og sjá hvað köld frjálshyggjan er enn feiknaöflug heima á Fróni. Engu líkara en fólk taki ekki eftir því að Sjallarnir beri ábyrgð á hvernig í pottinn er búið í íslenskum þjóðmálum, í raun meiri en Framsókn, hafandi ráðið ferðinni í heil fjögur kjörtímabil (hvað var ég að gera fyrir sextán árum...?! Úff, langar ekki einu sinni til að muna það ;o) ).

En að mikilvægari málum hér á bænum: Björgvin er nokkuð að hressast, hitinn mun minni í dag sem og ógleðin - a.m.k. á meðan hann liggur flatur - og fyrsta máltíðin í sex daga var snædd í dag: Franskbrauðssamloka með skinku á la NHS og súkkulaðijógúrt í desert.

Leitin að orsök hitans stendur enn yfir, fengum þó þær ágætu fréttir í kvöld hjá doktor Emmu að blóðsýnin hafi ekki sýnt nein merki um sýkingu og sökk mældist lágt, en væri það hækkað benti það til sýkingar eða æxlisvaxtar. Í dag var svo tekin röntgenmynd af lungum prinsins, ekki að neitt bendi til sýkingar þar en læknironum finnst víst best að vera alveg, alveg vissir.

Að vísu fannst ekki röntgenmyndin í kvöld þegar doktor Emma ætlaði til að taka, en hún kvaðst viss um að hún gæti ekki hafa farið langt og kæmi í leitirnar í fyrramálið.

Minn mann sefur óskaplega mikið ennþá og eftir því sem góð vinkona mín, sem nú er byrjuð í eigin geislastríði heima í Reykjavík, segir mér, er svefninn besti læknirinn.

Björgvin biður fyrir bestu þakkir og góðar kveðjur til ykkar allra sem hafið hringt, smessað og kvittað á bloggið; það er ómetanlegt að finna hlýhuginn streyma til okkar úr öllum áttum :o)

Sting hér inn fyrir ykkur sem áhuga og nennu hafið slóð að upplýsingum um aukaverkanir af geislameðferð gegn heilaæxli.

2 ummæli:

tapio í finnaskógi sagði...

Megi Björgvini batna, er það ekki eðlilegt að koma svona niðursveiflur annars lagið.

Við erum hér svolitið sorgmætt fyrir hönd Íslands og Íslendinga. En allt tekur sinn tíma.

njola sagði...

Sæl sendi áðan tölvupóst en fékk hann í hausinn með fullt af útlenskum táknum. Vona að þetta sé hin klassíska líðan eftir atvikum sem brái af Björgvini von bráðar. Annars má ekki gleyma því að geislameðferð flokkast undir þá tegund læknismeðferðar sem heitir með illu skal illt út reka.Höldum áfram að biðja fyrir ykkur. Sendi Villu svo einakpóst á morgun. Batakveðjur Njóla p.s. vefsíðunni í skólanum verður eytt út ánæstu dögumendilega skoða http://multimedia.is/~BHS213299/ljosmynd/