Líf í árvekni: Laugardagslangloka

laugardagur, 5. maí 2007

Laugardagslangloka

Í dag tókst okkur loksins að komast á fætur og út í bæ nógu snemma til þess að fara í þessa heimsókn á bændamarkaðinn á Castle Terrace, sem ég boðaði fyrir margt löngu (morgunsvæf, við) og haldinn er fyrripartinn á laugardögum frá vori til vetrarbyrjunar.

Margt um manninn þar enda margt í boði hjá bændum Lothian-sýslu og nágrennis: Dádýrakjöt (í básnum á efstu mynd), kjúklingar, Angus nautakjöt, egg úr hamingjusömum púddum, handgerð sápa samkvæmt ,,fornri keltneskri hefð" (við keyptum auðvitað soleis, sóp-on-a-róp með netluilmi), reyktar pylsur, hamborgarar grillaðir á staðnum, grænmeti, nýbakað lauk-og hnetubrauð (mmm!), skosk hindberjasaft og finnsk bláberjasaft svo fátt eitt sé nefnt.

Á hæðinni ofan við markaðinn gnæfði vesturhluti Edinborgarkastala; dálítið drungalegur að sjá þar sem hann bar við skýjaðan himin.

Laugardagar eru uppáhaldið mitt. Meðal annars vegna þess að þeir byrja alltaf á því að ég fær morgunmat, kaffi og Moggann í rúmið (les: tölvuna). Sjaldan hefur mér tekist jafnvel til með jólagjöf eins og þegar ég gaf mínum heittelskaða morgunverðarbakka um síðustu jól.

Uppfyllti fullkomlega þessi skilyrðin þrjú sem hann setur fyrir jólagjöfum, já og afmælisgjöfum reyndar líka: 1. gjöfin þarf að koma á óvart og 2. hann vantar hlutinn en áttar sig ekki á því fyrr en hann opnar pakkann. Snilld, þótt ég segi sjálf frá ;o) Erfitt verður þó að uppfylla þriðja og síðasta skilyrðið um næstu jól, en það er að hver gjöf sé valin af enn meiri hugkvæmni en sýnd var árið áður. Skilst að ein helsta ástæðan fyrir því að pilturinn var á lausu í öll þessi ár áður en yðar einlæg kom til sögunnar sé einmitt þessi, að engri kvinnu hafi áður tekist að uppfylla þessi ,,einföldu" skilyrði við afmælis-og jólagjafainnkaup og frekari samvistir því verið afþakkaðar. Enginn þrýstingur, sei sei nei...*
----
Þessi fyrsta vika maímánaðar hefur á fleiri en einn veg verið ólík því sem kona ætti að venjast heima á landinu bláa; hér hafa bæði alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins og kosningar til þings og sveitarstjórna landsins komið og farið án þess að svo mjög væri eftir því tekið. Í landi Skota er 1. maí ekki frídagur, og þótt gefið sé ,,bank holiday" fyrsta mánudag eftir hann þá komst ég að því að það frí er ekkert sérstaklega tengt við verkalýðsdaginn í hugum fólks; að minnsta kosti var svarið þegar ég spurði við eldhúsborðið hjá Möggu í Básum um daginn, af hverju þessi frídagur væri næsta mánudag: ,,Af því bara, það er alltaf frí fyrsta mánudag í maí."

Þegar ég hafði orð á því að fyrsti maí væri runninn upp færðist talið þegar í stað að Beltane eldhátíðinni sem haldin er aðfarakvöld ,,maídagsins" á Calton Hill í miðborginni (sjá myndir frá Beltane 2006 hér) og þeim forna sið að baða sig upp úr dögginni uppi á Arthur´s Seat í dögun 1. maí en hún ku eiga að lækna öll mein, líkt og Jónsmessudöggin á Íslandi.

Á heimleiðinni sá ég þó merki þess að einhverjir innfæddra að minnsta kosti tengja daginn baráttu fyrir bættum kjörum; á stéttinni framan við kringluna St. James' Centre stóðu fjórir eða fimm síðhærðir, skeggjaðir menn með heimagerð skilti sem á voru letruð slagorð í sönnum 1. maí-anda: ,,Niður með heimsvaldastefnuna og kapítalismann" og ,,Viva 1. May!"

Á fimmtudaginn, 3. maí, gekk svo annar hver atkvæðisbær Skoti til kosninga til sveitarstjórna og svæðisþings. Eða tæplega það. Er búin að gúggla eftir ,,turn out" hvað eftir annað en fæ ekki nákvæmari upplýsingar um kjörsóknina en þær að í þessu kjördæminu hafi hún verið 42% en í hinu heil 56% (sem er met!) og í því þriðja hafi íbúarnir ljóslega fengið nóg af þeim stimpli að vera kjörlatastir allra Skota (24% kjörsókn 2003) og þyrptust heil 38% á kjörstað til að bæta úr skák í ár. Kona á bara varla til orð (eins og það gæti gerst, not!) yfir áhugaleysi hérlendra á þátttöku í lýðræðinu.

Það tíðkast ekki hér að troða auglýsingum frá stjórnmálaflokkunum í sjónvarpið eða í gegnum bréfalúguna svo að fátt var til að kveikja í manni kosningastemmingu. Scotsman var að vísu með eitt aukablað um kosningarnar um daginn með mynd af forystusauðum flokkanna og yfirliti yfir helstu stefnumál en það var ekki fyrr en á kjördaginn sjálfan sem ljósastaurarnir í miðbænum voru skreyttir eins og hér sést.

Niðurstöðurnar létu síðan á sér standa; ekki búið að telja fyrr en síðdegis á föstudaginn! Ástæðan var að hluta til sú að tölvurnar sem áttu að hjálpa til við talninguna feiluðu eitthvað á flóknum kjörseðlum en að atkvæðin frá innri Suðureyjum komust ekki yfir á meginlandið með þyrluflugi fyrir þoku og voru á endanum talin á ystu ey Suðureyja; eyjunni við hafsbrún sem heitir Lewis norðan til en Harris sunnan til (því má svo við bæta að eyjan sú kemur við Korku sögu.)

Helstu tíðindi kosninganna - fyrir utan öll ógildu atkvæðin (5%) - eru að Verkamannaflokkurinn er ekki lengur stærsti stjórnmálaflokkur Skotlands heldur Scottish National Party, skoski þjóðernisflokkurinn, en munar þó bara einu þingsæti; SNP er með 47 en Verkó 46. Það dugir reyndar ekki til meirihlutastjórnar í Holyrood; nú þarf að smíða samsteypustjórn og þá er eins líklegt að svonefndir frjálslyndir jafnaðarmenn (Lib Dem) smeygi sér að, enda þótt þeir séu aðeins örfáir þá þykja þeir víst góður valkostur til samstarfs, verandi leiðitamir öðrum svo framarlega sem þeir komast að kjötkötlunum. Minnir dálítið á álíka lítinn flokk heima á Fróni...

Mér skilst af sögn eins lærimeistaranna í School of Celtic & Scottish Studies að SNP sé bæði hægri og vinstri sinnaður flokkur, var víst einhvern tímann fyrir margt löngu steyptur saman af sjálfstæðissinnum beggja vegna við miðlínu sem gátu sameinast í andúð sinni á þeim engelsku. Scotsman segir að stuðningur við flokkinn sé ekkert endilega það sama og vilji til að slíta sambandinu við England og Wales eftir þriggja alda friðsamlega sambúð; það séu frekar áherslurnar í pólitíkinni að öðru leyti og óánægja með Blair sem þar ráði ferð.

Vísast eru Skotar pirraðir á því að ráða engu í því sem máli skiptir sjálfir - ,,allt sem kostar peninga er ákveðið fyrir sunnan" - og kannski verður kosningaþátttakan meiri ef SNP fær því framgengt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandsslit. Háðfugl einn sem skrifar reglulega pistla í Scotsman fullvissar oss lesendur reyndar um að ef af því verði muni landar hans flestir greiða atkvæði með því sem hann kallar ,,the chicken-out-clause" en samkvæmt henni verði sjálfsstjórn aukin en sambandinu haldið óbreyttu við Betu drottningu.

Enda þótt við höfum búið hér í meira en 15 mánuði (reyndar heila 19) höfum við hvorki fengið hér ríkisborgararétt né heldur kosningarétt og því eltist ég ekkert sérstaklega við það að setja mig af viti inn í stefnumálin. Er þó á því að stuðningur við SNP sé óvitlaus.
Ekki aðeins vilja þeir leggja af hinn fáránlega kánsel-skatt byggðan á heimilisstærð (sjá fyrri blogg um baráttu vora í þeim efnum) og taka upp 3% útsvar á tekjur í staðinn, heldur eru þeir algjörlega á móti plani Blair & kó um að kosta 25 milljónum punda til þess að endurnýja kjarnorkukafbátaflota Bretlands; vilja frekar að þeirri upphæð verði varið í heilbrigðis-og menntakerfi landsmanna og Skotland gert að kjarnorkuvopnalausu landi. Það þykir mér bera vott um góða forgangsröðun, framsýni og heilbrigða skynsemi.


Botna þessa langloku með myndum úr hinum konunglega grasagarði Edinborgar, sem við heimsóttum á sunnudaginn síðasta. Nærðum okkur þar á möluðum ís í brauðformi og ótrúlegri fegurð náttúrunnar sem nú er vöknuð til lífsins eftir vetrardvalann. Mikið makalaust sem við eigum gott að hafa þetta allt fyrir augunum og íkornarnir að skottast yfir grasið.
*Þess ber að geta að eigandi morgunverðarbakkans nýtur hans á sunnudagsmorgnum.

5 ummæli:

McHillary sagði...

Hæ elskurnar!! Mange takk fyrir þennan pistil. Gott framtak að súmmera aðeins stöðuna í skoskum stjórnmálum. Hef ekkert fylgst með þessu héðan, algjörlega net- og símalaus og er svo bissí í vinnunni að ég rétt næ að hella upp á 2 tebolla per 8 klst. Flutti formlega inn í Fjörðinn í gær og allt á fullu við að mála og vesenast. Vonandi næ ég að nettengjast á næstu dögum og ef ég er heppin kemst ég í símasamband á morgun. Nýja númerið mitt er 565 1973. Ekki spurning um long distance hvítvínsfund. Verum í bandi darling og hafið það sem best.
Ykkar Hilla.

Nafnlaus sagði...

Halló SNP-arar.
Bara að kvitta fyrir lesninguna. Ligg í leisíboj með hnútótt bak eftir velheppnaða vesturferð um síðustu helgi með Dadda, Jóni Strandberg, Auði og Sunnu. 17 gráður, logn, sund, fjöruferð, vettvangsferð á Sveinseyrar(olíu)odda, fiskibollur og lambalæri, ekta hótel mömmu lúxus. Og pönnsur á Strandseljum, lambaskoðum að Hrafnabjörgum og 20 stiga hiti í Djúpinu, stelpurnur "urðu" að kæla sig með fótabaði í Hvannadalsá! Frábær ferð, nema bakið var of langt í stofusófann... Nudd og nálastungur x3 í liðinni viku náði ekki að klára málið, reynt enn á morgun.

Kær kveðja af Skeljagrandanum, Kiddi & kó.

P.S.: Og glænýtt hrefnukjöt í matinn í dag, nýtum allar auðlindirnar!

Unknown sagði...

Hæ hæ kæra fjölskylda, það er alltaf gaman að fylgjast með hvað þið eruð að bralla í Skotlandinu.
Við Óskar verðum í Glasgow næstu helgi og ætlum að kíkja til Edinborgar á föstudag eða laugardag, okkur þætti rosalega gaman ef þið gætuð hitt okkur.

Ég vona að allir hafi það gott, bestu kveðjur, Kristjana.

Nafnlaus sagði...

Er með ykkur í anda í Skotalandi að sjá alla þesa miklu fegurð í gróðrinum, og eki síður allar þessar fallegu gömlu byggingar!Gæti sko hugsað mér að koma þar aftur! Kveðja frá Kalla Matt og góðar óskir! 'Astar kveðjur og góðar óskir til ykkar! Mamma og pabbi.

Nafnlaus sagði...

Hæ og hó!
Sé að allir eru vel klæddir á markaðnum svo að við þurfum ekki að öfundast af veðrinu (sumarvettlingar teknir í notkun hér). Hér er búið að spandera í nýjan bíl og allt að verða klárt í sumarfrí nr. 2 sem á að taka í júlí á tjaldstæðum niður eftir Svíþjóð og yfir nýju brúna til Danmerkur. Bið að heilsa og takk fyrir síðast!