Líf í árvekni: Að vera eða vera ekki... dugleg

miðvikudagur, 4. apríl 2007

Að vera eða vera ekki... dugleg

Snúðurinn minn kom á föstudaginn frá Íslandi - búinn að lengjast um þrjá sentimetra á jafnmörgum mánuðum - og með honum blessuð sólin.

Við fögnuðum með því að fara í ísbúðina og á róló – mynd- skreytingar þessarar færslu síðan þá og úr hvunndeginum í byrjun þessa yndislega aprílmánaðar; útsýnið fallega yfir liljuvellina við Meadows-garðinn og húsin þar norðan við.

Baráttan við drekann snýst að miklu leyti um það að leyfa honum ekki að leggja undir sig allt ævintýrið. Hjálparliðið okkar hvítklædda (doktorar og hjúkrunarfólk) gerir sitt til að lumbra á honum líkamlega, en prinsinn og prinsessan þurfa sjálf að takast á við óhræsið þegar það herjar á andann og hugann.

Sögukona (sem jafnframt gegnir hlutverki prinsessunnar undurfögru), verður að viðurkenna fyrir sitt leyti að sú viðureign er erfið og virðist hreint ekki verða auðveldari með tímanum, enda þótt máltækið segi að æfingin skapi meistarann.

Nú er rétt hálft ár frá því að við fréttum af tilvist heilaæxlisins og þrir mánuðir frá því skurðaðgerð leiddi í ljós við hvað var að eiga. Tíminn er skrítin skepna og frá einu sjónarhorni virðist þessi tími líkastur hálfri mannsævi en frá öðru aðeins örfáar vikur. Talandi um sjónarhorn – það er eitt af þessu sem kona má velja sér sjálf og þarf ekki tileinka sér eftir neinni forsögn að ofan. Jákvæða sjónarhornið er auðvitað besta bragðið gegn drekanum, en gjarnan vildi ég nú samt finna línuna sem horfa má eftir án þess að sjá skömmina reka sitt leiðindatrýni inn í sjónsviðið.
Það er helst að setja eitthvað í veginn eins og skemmtilega bíómynd eða grípandi bók og sérdeilis að ná góðri vinnuskorpu við þýðingarnar. Það er eins og ágæt kona og kollegi á ritvellinum sagði eitt sinn við mig: ,,Ég er alltaf hamingjusömust þegar ég hef verið dugleg.“
Sömuleiðis komst ég að því um daginn að kröftug hreingerning getur líka komið að góðu gagni; þriggja stunda þrif á bökunarofninum eru sérlega heilandi, skrúbbið er góð æfing í lífi í aðgát/ varurð/ eftirtekt/ mindfulness og geislandi hreinn ofn, plötur og grindur virka sem vítamínsprauta fyrir sálina. (Í alvöru!)

Það er nefnilega eins og hamingjan felist í þessu, að geta horft á eigið sköpunarverk að kvöldi dags, hvort sem það er nokkrar síður af (helst góðum) texta, prjónles (einsog það sem Arnot ,,frænka" McDonald sýndi mér í dag) eða hrein eldavél og hugsað með sér: ,,Já, þetta gerði ég nú við þennan dag!“

Kannski er þessi aldagamla lúterska vinnusiðfræði svona samgróin hugsuninni að enginn dagur þyki almennilegur nema það liggi eitthvað eftir mann. Krefjandi löngun til að tryggja sér eftirskriftina: ,,Henni féll aldrei verk úr hendi.“ En kannski er það einfaldlega mannleg þörf að skapa; vera frjór, setja mark sitt á veröldina svo við finnum að við eigum heima í henni. Séum ekki bara ,,total waste of space“ eins og únglíngurinn myndi segja.
Eftir þennan daginn liggur víst ekkert eftir yðar einlæga af efnislegu tagi nema þessi pistill hér, og jú, síðar í kvöld mun væntanlega einnig liggja eftir tóm flaska undan Chardonnay hvítvíni á eldhúsborðinu í Montpelíer hæðum númer 57 ;o)

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Yndislegt alltaf að lesa skrifin þín :O)
Ég hef oft sagt það að mín stærstu vonbrigði við að greinast með banvænan sjúkdóm er að maður er jafn mannlegur og breyskur en á sama tíma er það hin mesta sæla. Fyrst í stað á allt að vera svo fullkomið og óaðfinnanlegt í umgengni og samskiptum, en svo áttar maður sig á því að það er einmitt þessir hversdagslegu hlutir sem að gefa lífinu gildi. Bara það að brjóta saman þvott, moppa gólfið, vaska upp, koma börnunum af stað í skólan, fara með mömmu gömlu í verslun, allir þessir hlutir sem að manni finnast aft nauðaómerkilegir og jafnvel íþyngjandi verða allt í einu kærkomnir. Svon einhvernveginn gengur jú lífið fyrir sig hjá flesum og svo auðvitað laumum við inn í dekurstundum , en lífið er svo dýrmætt þegar maður hefur tækifærið á að sinna því svona. Að líta yfir dagsverkið- það er ekki svo sjálfgefið :O)

Nafnlaus sagði...

Fyrirgefðu en ég kann ekki alveg á þetta kerfi ég gleymdi að kynna mig- sem sagt bestu kveðjur frá Þórdísi tinnu :O)

Nafnlaus sagði...

Sæl mín kæra, það er einmitt málið að láta ástandið ekki yfirtaka allt ævintýrið -og það er erfiði hlutinn, það þarf jafnvel að beita allskyns brögðum og klækjum til að halda velli i þeim bransa.

Ég var í síðustu lyfjagjöfinni í dag, 25. apríl hefst svo geislastríðið mitt.
Hafið það sem allra, allra best.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Elsku Vilborg,
Fylgist reglulega með ykkur og þekkir þær hugrennigar sem brjótst í þér núna. Þetta hefur móðir krabbameinsveiks barns líka þurft að glíma við. Að halda haus en að leyfa sér að syrgja, syrgja það líf og þann takt sem hvarf með sjúkdómnum en gleðjast jafnframt yfir því að vera venjuleg manneskja og þeim sigrum sem vinnast. Talandi um venjulegar manneskjur, þá hef ég eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að maður verður tæpast venjulegur með þessa lífsreynslu í farteskiu.... allt fær annan lit, líka manns eigin tilfinningar. Það er svo mikill sannleikur í því að heilbrigt fólk eigi margar óskir, en sjúkir einungis eina. Í veikindastríðum er það óskin eftir heill og heilsu sem yfirtekur allt og hjá öllum sem elska hinn veika. Og svo verður maður eins og veikur sjálfur....... það er það skrýta í þessu öllu. Getur vart á sér heilli tekið, er til hliðar við sjálfa sig, geng ekki heil til skógar, verð gleymin, löt og ofvirk, allt í senn....
Þetta er samt hlutskiptið sem við fáum, að þurfa að fara lengri leiðina að hamingjunni.
Páskakveðjur úr Mosfellsbænum frá venjulegri manneskju.
Erna A

Nafnlaus sagði...

Kveðja frá Tromsö - erum að farast úr skítaveðri - regn og snjór í einni bendu. Okkur hlakkar til að komast í góðvirið í landi Skottu. Bið að heilsa Björgvin og ykkur öllum.

Nafnlaus sagði...

Lúterski vinnusiðferði... jæja, um það vill gamli guðfræðingurinn segja kannski eitthvað. Nefnilega það sem Lúther karlinn vildi kenna okkur er EKKI, að við ættum að vinna myrkranna milli alla daga og aldrei hafa gaman. Ef einhver hefur haldid svona er það mesta misskilningur (sem þú Villa ert ekki með, alls ekki) heldur var hann Marteinn sjálfur mikið fyrir góðar stundir með fjölskyldunni og vinum.
En í kaþolskunni sem hann vildi breyta var viðhorf fólks orðið þannig að venjulega fólkið leit á sjálfan sig sem annars flokks manneskjur, að alvöru Guðs þjónar væru þau sem lifðu lífi sinu í klaustri osv. Þessu vildi hann breyta og sagði að hversdagsverk okkar, þó að það væri að skúra gólf eða hvað sem er, er hin sanna guðsþjónustan. Við erum að þjóna Guði með því að hjálpa okkar nánustu, á einn eða annan hátt.
Mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd. Með öðrum orðum: lif hvers og eins einstakt og afar mikils virði. Mér hefur þottið í hug að í nútíma heimi fyrirmyndir okkar eru ekki munkar, riddarar eða dyrðlingar, heldur fræga fólkið í fjölmiðlum. Þess vegna við eigum að hugsa aftur í dag, að sanna lífið er ekki í fjælmiðlum, heldur heima í eldhúsinu að skúra ofninnm eða hvar sem við nú erum.Eða þannig.
Annars er allt í fína, Sigurrós systir hennar Huldu er í heimsókn ásamt Friðriki manninum sinum og tveimur strákum. Bjart og fallegt páskaveður í Finnlandi.
Kristur er upprisinn!