Þetta er mikil kúnst, og ég held að árangurinn sé einna bestur þegar konu tekst að hafa stjórn á hugsun sinni. Beina henni að andartakinu, verkinu sem er verið að vinna. Vera að strauja þegar ég er að strauja, vera að leika við Skottuna þegar ég er að leika við Skottuna, vera að reyta arfa í vorblíðunni (18 stig í gær, 15. apríl) og sníða burt fúna kvisti í garðinum þegar ég er að því, hlusta á hvað fólk segir þegar það talar við mig og hugsa um það, en ekki eitthvað allt annað.
Sinna því af kærleika sem gert er og gera þarf, þjóna Guði jafnt í því smáa og því stóra, eins og Tapio talaði um í kveðjunni sinni um daginn að Lúther hefði hvatt okkur til að gera. Góð pæling, það.
Hugsun er stórlega ofmetin, segir Eckhart Tolle, í bókinni sinni The Power of Now. Að vera er hreint og beint æðra vitundarstig en að hugsa; verundin æðri en hugsunin. Erfiðari viðureignar, vissulega - reyndu bara að þagga niður í samræðunum sem stöðugt fara fram í kollinum á þér. Óskaplega erfitt að láta það vera að hugsa. Þá er ég ekki að tala um skipulagða hugsun, einbeitingu við verk sem unnið er að, rökrænar pælingar um til að mynda skipulag ferðalags í júní um hálöndin og eyjarnar (sjá næsta eða þarnæsta blogg).Heldur hitt, að hugsa um framtíðina, það sem gæti gerst og hvenær það gerist og hvað það er ergilegt að vita aldrei hvað gerist næst og af hverju guð getur nú ekki sent mér bréf og sagt mér að minnsta kosti svona undan og ofan af því sem á eftir að gerast svo að ég geti ... já, hvað myndi ég nú gera við það? Undirbúið mig betur fyrir það sem koma skal? Hvernig myndi ég nú fara að því? Man hvað mér dvaldist við svona hugsanir fyrir þó nokkuð mörgum árum, þegar veröldin var svo völt og hverful að ég átti stundum bágt með mig.
Niðurstaðan þá var sú að vísast er eins gott að ekkert okkar veit fyrir víst hvað framtíðin ber í skauti sér, því þá er eins víst að við færum ekki fram úr á morgnana af ótta við að klúðra einhverju við undirbúninginn fyrir það sem framundan væri. Mikið betra að vænta einfaldlega hins besta og vakna helst alltaf með eftirvæntingu í hjarta, úr því að við ráðum því hvort eð er ekki nema að litlu leyti sem enn á eftir að bresta á.
Hugsa sem svo: Hvað skyldi ég nú fá upp í hendurnar í dag? En ekki: Í hverjum fjandanum ætli ég lendi í dag?
-----
Snúðurinn er farinn heim á klakann kalda, það var yndislegt að hafa hann þessar tvær vikur, svo lífsglaður og forvitinn um alla skapaða hluti - heimurinn er til að fræðast um hann þegar maður er tólf og hálfs (hálfþrettán ára afmælið var 5. apríl), skilgreina og skoða á kortum af Google Maps.
Umhverfismálin, hlýnun jarðar og álframleiðslan á landinu bláa er meðal helstu áhugamála núna. Lét drenginn lesa valdar síður úr Draumalandinu - sjálfshjálparbók fyrir hrædda þjóð, til að hann mætti fræðast um áhrif álvinnslu á Íslandi til jarðvegseyðileggingar á Jamaíku, þeirri fögru heimaey tengdafólks Bjössa frænda hans á Ísafirði.
Pilturinn allur að lengjast, tognað ekki aðeins á handleggjum og fótum heldur líka andliti svo að hægt er að ímynda sér hvernig hann muni framkallast í fullorðinn mann á næstu örfáu árunum. Varla þorandi að kalla hann Snúð mikið lengur. Kannski tekur kona betur eftir breytingunum sem eru svo örar á þessu aldursskeiði af því að við höfum sést með hléum undangengna 20 mánuði, sem liðnir eru frá því að Skotlandsævintýrið hófst. Lærdómsríkt að vera fjarstatt foreldri, auk alls annars. Margt sem ég skil betur en áður.
Læt gott heita að sinni, bið í lokin forláts á því hversu langt hefur liðið á milli blogga núna og vona að ég hafi ekki með pennaletinni misst af gestagangi hér í ókominni tíð og þar með kveðjum í kommentakerfið sem annars myndu fylla hér skjáinn ;o)
p.s. Ég fann tveggja pennía pening í garðinum þegar ég var að reyta arfann í gær...!
11 ummæli:
Það er líka gott veður í Kaupmannahöfn. Þið fáið kveðjur þaðan. :)
Hæ elsku Villan mín.
Góður pistill eins og alltaf, myndi stundum líka vilja bréf frá guði en kannski yrði engin hamingja ef maður vissi hvenær væri von á henni. En jæja, ferðalagið gekk vel og við vorum í svolitlu sjokki yfir heimkomunni í gær en öllu hressari í dag enda skein smá sól og það var eitthvað svo heimilislegt að fara og kaupa gamla góða myllubrauðið í Bónus.
Góðu fréttirnar eru þær að ég birgði mig upp af góðu hvítvíni í Fríhöfninni og lofa að eiga a.m.k. eina eftir þegar þið komið heim.
Er strax farin að hlakka til að skála við þig fyrir heimkomunni ykkar.
Ástarþakkir enn og aftur fyrir allar góðu stundirnar okkar og hlakka til að eiga margar enn.
Luv, Hilla
Elsku Villa mín.
Þetta er fallegur pistill hjá þér.
Þörf áminning fyrir mann, muna að lifa í núinu og "pissa ekki á daginn í dag" :o)
Ástarkveðjur frá okkur hérna á skerinu kalda með gluggaveðrinu fína!
Auður Lilja
Kunnuglegar pælingar og að sjálfsögðu vel orðaðar í þessum pistli...
Kveðjur til Edinborgar með von um að núið sé alltaf sem best :)
(p.s. ég hlakka til að sjá mynd af seðlabúntinu sem tveggja pennía peningurinn er fyrirboði að ;)
Elsku Villa og Böbbi.
Þörf hugvekja og passar sérlega vel við titil bloggsíðunnar - færslurnar koma alltaf reglulega aftur að þeim útgangspunkti sem þú lagðir upp með í fyrsta blogginu í hitteðfyrra.
Vonandi komumst við til ykkar fyrstu helgina í maí.
Hér í Lundhúnum er verið að rusla ofan af háalofti í marga skippa drasli síðustu 10 ára, til undirbúnings heimför um maímiðju. Það sem eftir situr af heilu háalofti og vert er varðveislu kemst í eitt fat lítið.
Bestu kveðjur héðan að sunnan.
Það er alltaf svo gott að lesa bloggið þitt. Þetta með núið er svolítið snúið sagði einhver eða dreymdi mig það kannski. Og þú mátt vita að ég ætla strax á morgun að byrja á því að vænta þess besta, eða kannski ég byrji frekar í næstu viku. Í allra síðasta lagi í vor.
Ég þarf nefninlega að leyfa mér að blása í nokkra daga yfir hugmyndum athafnamanna um olíuhreinsunarstöð í fallegasta firði heims, Dýrafriði. Ég er að reyna að sjá ekki fyrir mér strandaðan riðdall frá Rússlandi, dauða og djöful.
Allra bestu kveðjur og knús frá óbeislaða Vestrinu,
Matta
Hér er alltaf gott að koma.
kv. Dísa
Elsku Villa og fjölskyldan öll!
Gleðilegt sumar og þökk fyrir öll skrifin í vetur.''Astarkveðjur frá okkur pabba,hafið það sem best!
Fraus saman sumar og vetur!
Gleðilegt sumar elskurnar! og takk fyrir veturinn. Hér er kalt en sólin skín. Það síðasta sem ég fjárfesti í áður en ég yfirgaf breska jörð var The Secret. Nú gerir maður ekkert annað en að visjulæsa sig í allrahanda góðum aðstæðum. Þetta hlýtur að verða eilíf hamingja. Hlakka til að ræða þetta allt fljótlega.
Luv, Hilla sumar smilla.
Fyrir 17 árum kom þetta ljóð til mín.
Í vananum
yfir gráum stálgrautarpotti
með appelsínugulri sleif
læðist grunntóninn að
listfenginn í andartakinu
og vaninn breytist í helgiathöfn.
Gleðilegt sumar!
Snúðurinn er óskaplega líkur móður sinni.
Knús og kram.
Skrifa ummæli