Líf í árvekni: Fyrsta vika sumars

laugardagur, 21. apríl 2007

Fyrsta vika sumars

Sumar vikur eru skrítnari en aðrar. Vantar eiginlega betra orð, en skrítin verður að duga í bili. Í þessari fyrstu viku (íslensks) sumars, á mánudaginn nánar tiltekið, gekkst ein af fóstrunum þremur á leikskóla Skottunnar undir heilaskurðaðgerð á Western General Hospital.

Hún hafði fengið mikla höfuðverki og sjóntruflanir á föstudag og rannsóknir um helgina leiddu í ljós að hún var með æxli á heiladinglinum.

Sem betur fer eru slík æxli ekki jafnillvíg og flest önnur heilaæxli, hægt er að fjarlægja þau í gegnum nefið í stað þess að fara í gegnum höfuðkúpuna og inngripið því minna og það sem er mikilvægast; langflest eru góðkynja og vaxa því ekki aftur, en viðkomandi þurfa yfirleitt að taka hormóna það sem eftir er ævinnar.

Áfall er það engu að síður, stúlkan ekki nema 23 ára gömul, og allir sem til þekkja slegnir yfir tíðindunum. Guð gefi nú góða niðurstöðu úr vefjarannsókninni í næstu viku.

Í morgun komumst við síðan að því að ástralska fjölskyldan á efri hæðinni - sem við höfum satt að segja ekki haft við önnur samskipti en þau að heilsast ef við hittumst á tröppunum og skiptast á athugasemdum um veðrið - hefur líkt og okkur verið tíðförult upp á Western General; heimilisfaðirinn er með hvítblæði. Hann greindist fyrir tveimur árum og hefur verið í meðferð sem hefur skilað því að honum líður ágætlega núna.

Í dag hittum við ofan í bæ vestfirsk- hún- vetnskar systur í Skotlands ferð, þær Lenu og Árnýju, frænkur mínar í föðurætt sem ég leit eftir að sumarlagi 1974-1976 norður á Blönduósi - reyndar aðeins Lenu og eldri systrum hennar tveimur, Árný var nú bara glampi í augum foreldra sinna þá ;o) ásamt bróðurnum sem síðar bættist í hópinn. Lena var síðan barnfóstra hjá mér sumarið 1989 þegar hún var 16 ára og heimasætan núverandi tveggja ára, og bjó hjá okkur mæðgunum í Ásbyrgi á Ísafirði.

Kjarnakonur miklar, báðar tvær eins og þær eiga kyn til, og klifu léttstígar þrepin 289 upp í Walter Scott minnismerkið við Prinsastræti - Lena tæplega 70 kílóum léttari en þegar hún lét tröppuhlaupin eiga sig í Edinborgarheimsókn fyrir örfáum árum!

Árný skartaði dökkum sólgleraugum í Loren- stíl; hún greindist fyrir sex vikum með "ímyndað æxli" (?!) við mænu sem olli svo miklum mænuvökva að hann þrýsti á sjóntaugina og svipti hana sjóninni að stórum hluta.

Frænka er þó makalaust æðrulaus yfir öllu saman og kveðst þakklát fyrir að fá að halda að minnsta kosti einhverri sjón; hefði hún greinst viku eða tveimur síðar hefði hún orðið alveg blind. Það er svona hugarfar sem gerir fólk sterkt.

Einn daginn eru allir að stússast í sínu og enginn þarf að takast á við erfiðari mál en eyrnabólgu afkvæmanna og næsta kreditkortareikningi. Næsta dag er annar hver maður að takast á við alvarlegan sjúkdóm sem snýr öllu lífinu á hvolf, ekkert efnislegt skiptir máli lengur; heilsan, ástin og vonin eru það sem allt snýst um.
----

Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég hefði fundið túkall í blómabeðinu þegar ég var að reyta arfann og gekk vitanlega út frá því að nú myndi bætast í budduna innan skamms. Sá var nú ekki lengi að skila sér!

Á þriðjudag kom loksins langþráður núll-reikningur yfir útsvar sem við, með góðri aðstoð Camerons konsúls, höfum misserum saman sóst eftir hjá borgaryfirvöldum, en samkvæmt milliríkjasamningum eru útlenskir og/eða námsmenn eins og við undanþegin þessum skatti sem er reiknaður út frá íbúðarstærð (hvort sem það er leigð íbúð eða eigin eign).

Bjúrókrasían hér er með ólíkindum seinvirk og mörg bréfin búin að ganga á milli, sum frekar ógnvekjandi - þ.e. þau sem við höfum fengið (Final Notice, Deal With This Now!) - við erum sjálf náttlega alltaf mjög kurteis, enda ríflega þúsund pund í húfi fyrir árið.

Hélt sem sagt að þessi málalok væru tvípenníið, en flæðið lumaði á bónus; í gær kom umslag frá téðum borgaryfirvöldum Eiðinaborgar með 300 punda ávísun á yðar einlæga, útsvarsgreiðsla sem við höfðum innt af hendi í fáfræði okkar haustið 2005 og höfðum ekki einu sinni reynt að fá til baka, þar eð okkur var sagt að það væri fyrirfram vonlaust!

Um að gera að bíða í eftirvæntingu, það góða skilar sér alltaf á endanum. Og hvernig er annað hægt þegar kirsuberjatrén í Meadows (sjá efstu mynd) og á Prinsastræti blómstra í sinni reginbleiku dýrð?! p.s. Minn heittelskaði réð mér eindregið frá því að blogga um hagvaxtarhvetjandi olíuhreinsistöðina sem einhverjir erki iðjótar hafa stungið upp á að klessa niður í náttúruperlunni Dýrafirði, af því það er ekki hollt að tjá sig opinberlega þegar maður er í miklu uppnámi (les: fjúkandi ill) svo að ég ákvað að láta duga að stinga hér í restina mynd af slíkri starfsemi, ef ske kynni að einhver velktist í vafa um hvernig þessi draumavinnustaður 500 Pólverja og Litháa* mun væntanlega líta út. Myndir segja meira en mörg orð.

*Hef einhvern veginn ekki trú á að mörg okkar sem höfum kvatt Vestfirðina undanfarna áratugi værum til í að snúa heim aftur í vinnu við olíuhreinsun. Fremur en suðurfluttir Austfirðingar muni sækjast eftir að vinna í álverksmiðjunni sinni. Ekki einu sinni þótt það myndi bæta úr "skorti á hagvexti á Vestfjörðum" eins og hæstvirtur framsóknarformaðurinn komst svo listilega að orði.

Af hverju í ósköpunum eru svona margir haldnir þeirri þráhyggju að aukinn hagvöxtur sé lykillinn að hamingju þjóðarinnar?! Getur einhver fundið mun á eigin líðan eftir því hvernig hagvöxturinn hagar sér frá einu misserinu til annars, og hvort mikill munur var á t.d. 2,5% aukningu fyrir andlega heilsu og almenn lífskjör umfram 1,5% aukningu?! Arrg...! Nei, nú er ég hætt, verð að standa við loforðið um að vera ekki að æsa mig yfir þessu, enda á þetta allt eftir að gufa upp í loft eins og fyrri daginn, góðu heilli, hvort sem þjóðin kýs frjálshyggjuna og framsókn yfir sig í vor eina ferðina enn eða ekki, eða tekur á sig rögg og breytir til.

p.p.s. Bara eitt í viðbót: Þegar gúgglað er orðunum "oil refinery pollution" koma upp ein milljón eitt hundrað og fjörtíu þúsund vefsíður.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!

10 ummæli:

Erna A sagði...

Elsku Villa,
Snilla með stílvopnið. Ég hef lært af pistlum þínum að reyna að hugsa um andar-takið. Þetta orð andar-tak hefur öðlast nýja merkingu hjá mér með þinni hjálp. Andartak þýðir núna fyrir mér að taka um andann, taka um sálina, vera meðvituð núna, hugsa ekki um liðin andar-tök og ekki ókomin andar-tök heldur lifa í andanum núna.. í andar-takinu, grunnu eða djúpu allt eftir því hvernig sálin stillist af. Efnið skiptir minna máli...eða öllu heldur engu máli þegar heilsa og hamingja eru í uppnámi. Þetta er góð lífspeki...Villuspeki. Það er önnur speki sem er komin frá Ömmu minni í móðurætt og veitir mér styrk. Vona að það geti gagnast þér og þínum líka. Amma mín varð tvisvar ekkja, hjúkrunarkona sem kom fjórum börnum sínum til mennta og manns, og örkumlaðist af ættarfylgjunni bæklunarliðagigt. Hún sagði alltaf að það skipti ekki máli hvað kæmi fyrir fólk í lífinu, meiru skipti hvernig tekist væri á við þau hlutskipti sem við fengjum úthlutað. Ég held að þetta sé tær viska. Svo er það hún móðir mín blessunin, sem hefur tvisvar greinst með brjóstakrabbamein. Hún segir að við manneskjurnar skipuleggum en Guð ráði. Þetta hefur tekið biturleikann og reiðina yfir því að barnið mitt skyldi greinast með krabbamein frá mér. Núna reyni ég að lifa í andar-takinu þrátt fyrir meinið, sem hefur ekki hopað jafn hratt og vonast var til, og reyni að njóta hverrar stundar. Er það þetta sem þú kallar mindful living?

Gleðilegt sumar,
Erna A

Hulda í finnaskógum sagði...

Þessi hugmynd um olíuhreinsunarstöð í Dýrafirði er einungis gassprengja sem hent var inn á kosningavöllinn á vestfjörðum!! Til að rugla fólk frá aðal kjarna málanna!
Þetta var illa gert en svona er þessi tík-pólitík. Annars er ég að hugsa um að koma heim og bjarga málunum ! Það virðist að þjóðin er að verða búin að selja allt úr hendi sér!
Ég er búin að vera í svaka kosninga-ham er að lesa á vestfirðir.blog.is
Fellum ríkisstjórnina!!
Lifum heil!

Kiddi bróðir sagði...

Tek undir með Ernu með stílvopnssnilldina, þú ert bara ótrúlegur penni systir góð, ekki nema von að maður sé montinn af þér!

Eitt hliðarspor eða tvö: Mér finnst hugmyndin um olíuhreinsunarstöð í Dýrafirði frábærlega skemmtilega galin. Eiga vestfirskir íslendingar ("gamlir" og "nýjir")kannski að lifa á að tína fjallagrös?? Og ekki síst gaman að hún skuli geta æst þig upp úr skónum :-)svona kortér í kosningar. Nei kjósum frekar bara Ómar & co., hans framboð er alla vega algjört grín !

En látum fjöltíkina liggja á milli hluta, hún er nú svo skrýtin að verðlaunahundurinn Eros í Kópavoginum myndi líklega ekki líta við henni í hundslíki.

Bestu baráttukveðjur frá okkur öllum á Skeljagrandanum, Kiddi+Hrefna & fjsk.

Kolbrún sagði...

Mikið er ég fegin að hafa að hafa lesið bloggið þitt í dag, því yfirvöld eru enn að krefja mig um greiðslu á þessum yndislega "CouncilTax" sem ég ætla að harðneita að borga og styrkist nú í þeirri ákvörðun. Ætla að skreppa til Edinborgar um næstu helgi... svona ef ég get fært ykkur frá landi ísa.
kv, Kolbrún

Mamma sagði...

Frábærlega falleg þessi kirsuberjatré ,verst að við misstum af þeim í fyrra og ekki skemma hinar myndirnar!
Engin hætta á hreinsistöð hér, bara kosningabomba eins og venjulega til að drepa umræðunni á dreif!!!Við endum hér í sumarhúsa byggð með sama framhaldi!Nema að við getum steypt stjórninni. Ekki meiri pólitík! 'Astarkveðjur Mamma

palli sagði...

Frábær pistill að vanda. Held líka að þú yrðir góð í pólitík, ef eitthvað er að marka smáa letrið sem þú skrifaðir. Þú hefur samt við merkilegri hluti að glíma og pólitíkin er ábyggilega ekki mannbætandi.

Villa sagði...

Til svars við athugasemdinni "Eiga vestfirskir íslendingar ("gamlir" og "nýjir")kannski að lifa á að tína fjallagrös??" vil ég benda á að auk fyrirtækisins Íslensk fjallagrös (sjá http://www.iceherbs.is/) hafa eftirtaldir samstarfsaðilar þeirra talsverða hagsmuni af fjallagrösum, og ég vil ekkert háð og spé um þessa mögnuðu náttúruauðlind sem pabbi sauð úr rammasta te við hósta í den (og gerir kannski enn?), og ekkert hnu með það! (Svo fæ ég ekki séð að gamlir Vestfirðingar eða nýir séu neitt að hníga niður úr atvinnuleysi og kreppu, nema kannski þessarri andlegu hægra megin við miðju, hrmpf..!):

Bændur og landeigendur víða um land
• Hráefnisöflun. Mestur hluti frá Vestfjörðum (!!!) og Norðurlandi.
Búbót ehf, Héðinsbraut 4, 640 Húsavík
• Móttaka grasa frá landeigendum, mölun og sýnataka fyrir gæðaeftirlit
• Framleiðsla fjallagrasaextrakts
• Framleiðsla á hálsmixtúru
Pharmarctica, Lundsbraut 2, 610 Grenivík
• Þróunarverkefni í sambandi við krem.
Engjaás Vallarás 3, 310 Borgarnes
• Framleiðsla á fjallagrasaschnapps
Nói Siríus, Hesthálsi 2-4, 110 Reykjavík
• Framleiðsla á Soprano hálstöflum
Lonsdale Health Products Ltd. New Road, Ingleton, England
• Framleiðsla á fjallagrasahylkjum
Eftirtaldir aðilar sjá um markaðs og dreifingarmál:
Heilsuverslun Íslands, Lyngháls 13, 110 Reykjavík
• Sala og markaðssetning afurða ÍF á Íslandi. Auglýsingar og kynningar á vörunum.
Lyfjadreifing, Krókháls 14, 110 Reykjavík
• Lagerhald og dreifing afurða í verslanir á Íslandi
Ilsanta UAB, Gedimino pr.45-5, Vilnius, Lithuania
• Sér um lagerhald markaðssetningu og dreifingu á Soprano í Litháen, Eistlandi, Lettlandi og Póllandi
Nordicstore ehf, Breiðavík 22, 112 Reykjavík
• Selur vörur ÍF í netverslun sinni www.nordicstore.net

Nafnlaus sagði...

Sjaldan er ein báran stök --

tapio í finnaskógi sagði...

Jæja. Ég á svolitið bágt að skilja þessa áráttu sumra Íslendinga að breyta landi sinu að stóriðjusvæði. Hreinasta land Evrópu, sem er og bráðum var. Og eyðileggja með því ferðamannabransann og landbúnaðinn. Hver vill kaupa lambakjöt sem var ræktað milli álvers og hreinsistöðvar? Dæmigert að segja að við lifum ekki með fjallagrasatinslu, eins og væri engir fleiri kostir milli grasa og stóriðjana. Og ef brennisteinstvísyringurinn verður ekki hreinsaður (4000 tonn úr álverinu) ÞÁ er sko ekki hægt að lífa á fjallagrasi, þetta drepst hvort er eð útaf súru regni. Svei!
En kannski er framtiðin björt fyrir gamla og nýja vestfirðinga, sólin skin yfir Dýrafjörð, szwetit sontsze na Zwotnogo Fjord, í wce budet dobre... (ekki alvöru polska)
ég lofa að skrifa ekki meira pólitik hér, leyfði mér bara núna.

Nafnlaus sagði...

Villa mín, ég skrái þig þá í andspyrnuhreyfinguna

Kveðja
Matta