Líf í árvekni: ,,A Hole in the Head“

fimmtudagur, 26. apríl 2007

,,A Hole in the Head“

Kominn tími á heilsufarsblogg eftir nokkurt hlé; nú eru fjórar vikur liðnar frá því að geislastríðinu við drekann lauk og skoðun í gær á mínum, bæði hjá taugasálfræðingnum með myndaspjöldin og hinni tékknesku doktor Önnu Gregor.

Prinsinn, sem átti samkvæmt spám um hefðbundnar aukaverkanir eftir geislameðferð, að liggja marflatur af þreytu á einmitt þessum tíma, hjólaði galvaskur í viðtölin bæði, það fyrra fyrir hádegi hjá sála en það síðara miðdegis og hafði þá yðar einlæga með sér.

Fyrsta sinn sem ég hjólaði þessa hálftíma (hvora) leið upp á spítala en sirka 30. skiptið hans og þótt ég hafi nú verið full aðdáunar fyrir á mínum manni fyrir að hafa hjólað í nær hvern einasta geislatíma, þá fell ég nú alveg í stafi.

Leiðin er reyndar lítillega aflíðandi á leiðinni að heiman en miklu mun brattari á bakaleiðinni en ætla mætti ;o) og ekki býð ég í að rata þetta einsömul; endalausar beygjur hægri og vinstri og aftur til hægri og yfir þessa götu og hina, þar til við komum loks á óskaplega fallegan hjólreiðastíg um miðbik ferðalagsins.

Þá var engu líkara en við værum skyndilega stödd í miðri skáldsögu eftir Jane Austen; fuglasöngur í lofti í stað umferðarniðs, nýlaufgaðar trjágreinar slúttu yfir stíginn beggja vegna,* sólstafir í gegnum laufþakið. Á milli trjánna gat á einum stað að líta hóp fólks á besta aldri, reyndar að spila boccia en ekki krikket (Katrín, var nokkuð spilað boccia í Hroka & hleypidómum?), á ákaflega snyrtilegri og íðilgrænni grasflöt. Allir í þessum skemmtilegu, hvítu peysum með dökkbrydduðu V-hálsmáli, karlarnir í hvítum buxum með straujuðu broti og konurnar vitanlega í plíseruðum pilsum. Makalaust falleg sjón.

En áfram með smjörið, þetta átti að vera sjúkra- en ekki ferðasaga. Í stuttu máli er allt gott að frétta, miðað við aðstæður. Í lengra máli (hér geta þau sem eru ekki fyrir smáatriði sjúkrasagna skrollað niðrúr að myndinni neðst) er Björgvin engan veginn eins þreyttur og búist var við á þessum tímapunkti en á þó nokkuð í land með að ná fyrri kröftum; reiknast sjálfum til að hann hafi um 60-70% af orkunni sem hann hafði fyrir aðgerð og geisla.

,,It´s still early days,“ sagði dr. Anna og taldi líkast til þrjá mánuði í að hann yrði að fullu vinnufær að nýju eftir allan fyrirganginn. Sem þýðir að drengurinn mun vafalaust setja metnað sinn í að hrinda þeirri spá - og gera það. Prinsessan undurfagra þykist eiga hér nokkurn hlut að góðu máli, en hún hefur verið iðin við að dæla vítamínum, lýsi og allslags bætiefnum í sinn mann (afar vel rannsökuðum að sjálfsögðu, ekkert hómópatahúmbúkk hér í kastalanum!).
Staðan í pilluboxunum marglitu, sem eru orðin sex talsins, er um þessar mundir Læknirar 18 - Villa 16 (já, á dag), en yðar einlæg mun síga fram úr innan tíðar, því nú hverfa ógleðipillurnar alveg út og sterapillunum fer ört fækkandi.

Prinsinn hefur þegar minnkað steraneysluna um helming sl. mánuð og á að draga enn hraðar úr henni eftir skoðunina í gær, því að ljóst virðist að heilabólga sé ekki lengur vandamál.

Höfuðverkirnir, sem enn eru nokkuð þrálátir, stafa sem sé væntanlega ekki af henni heldur mest af því að eftir skurðaðgerðina er prinsinn með ,,a hole in the head" eins og doktorinn komst svo skemmtilega að orði, sem veldur því að þegar hann beygir sig niður eða sefur á vinstri hliðinni lekur mænuvökvi fram á við að gagnauganu og veldur verkjum í heilahimnunum, sem eru ekki ,,waterproof" (einnig orðrétt tilvitnun) og minn því lítið eitt ávalari á vinstra gagnauganu en því hægra.

Önnur ástæða fyrir höfuðpínunum, sem nú blasir loks við að eitthvað fáist gert við, er að við aðgerðina í janúar var eitthvað átt við vöðva/taugar tengdar kjálkanum vinstra megin, með þeim afleiðingum að Björgvin hefur ekki getað opnað munninn meira en sem nemur þykkt á hamborgara - án brauðsins - og kjálkaliðurinn fer þá ögn á skjön. Þetta á nú tannlæknir að líta á innan tíðar og vonandi að kippa í liðinn (eða þannig).

Þar sem undirrituð hafði ekki eftirlit með skýrslutökunni hjá taugasálfræðingnum get ég fátt af henni sagt; einustu upplýsingarnar þaðan að hafa var að minn hefði komið ,,eitthvað betur" út úr sumum prófunum en áður en ,,eitthvað verr" í öðrum. Hann kjaftar ekki af sér, drengurinn, sagði einhver í vetur.
Allt í allt er staðan því barasta þokkaleg og bjartara yfir bæði fólki og veðri en verið hefur um sinn (18 stiga hiti í forsælu þessa dagana!). Að kvöldi dags áttum við svo öll sömun indæla stund með norsk-íslensku ættingjunum okkar; fjölskyldan Davíðsson-Husmo kom aftur til Edinborgar eftir Hálandaferðalag og bauð okkur í mat oní bæ.

Þar var mikið talað, á íslensku, ensku og norsku (eftir 2 hvítvínsglös er ég bara ágæt í norsku), spilað á tölvuspil, hlegið og hlaupið upp og niður stigann á risloftið á Dario´s Pizza House, þar sem myndin hér að ofan er tekin.

*Myndin efst er reyndar ekki úr hjólreiðaferðinni heldur af hlyninum í næsta garði, sem byrjaði fyrir fáeinum dögum að skrýðast laufi á ný að loknum vetri.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef oft heyrt að einhver fari holu á höggi, en í höfði...neeei. Annars allar mínar bestu óskir til ykkar beggja, Villa mín, reynum nú að rekja þræðina betur þegar þið eruð komin heim, ég er svo áþreifanlega minnt á það þessa dagana hvers virði það er að týna ekki sambandinu við frændfólk og vini...

Nafnlaus sagði...

Gott að Prinsinn stendur sig svona vel! Stórfínar myndir og skemmtilegar af liðinu okkar í útlöndum!
Gangi ykkur allt í haginn !
'Astar kveðjur mamma og pabbi.

Unknown sagði...

Takk kærlega fyrir samverustundina um daginn frænka. Það var ofsalega gaman að hitta á ykkur þarna úti.

kveðja,
Lena

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá á skjá ... sjálfann sig þeas. Bestu kveðjur og takk fyrir okkur - en panta betra veður næst! Það snjóaði i dag hérna uppi svo að maður má svosem ekki kvarta yfir smá rigningu. Ástríkur: "Er oft svona þoka hérna?" Fyrrenvarðí frændi: "Nei alls ekki. Bara þegar ekki rignir." (Frítt frá Ástríkur í Bretlandi)

Katrín sagði...

neibb. man ekki heldur til þess að það hafi verið krikket í P&P/H&H - það var hinsvegar krikket í myndinni Becoming Jane, sem þú hefur ekki séð.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, takk fyrir góðar kveðjur á fermingardaginn minn.

Smali sagði...

Gott er að heyra að allt er nokkurnveginn á áætlun. Á næstunni koma sérlegir fulltrúar mínir, Kristjana og þessi Óskar, og gera tékk á Böbba. Ég veit að það verður tekið vel á móti þeim. Kveðja af ísa köldu landi.
Haffi

Ps. Perla var himinlifandi með fermingarskeytið, án þess hefði hún bara fengið eitt.

Christine sagði...

Vá er gott að vera aftur með fyrrverandi mína, þakka þér dr. Ekpen fyrir hjálpina, ég vil bara láta þig vita að þetta er að lesa þessa færslu ef þú ert með mál með elskhuganum þínum og leiðir til skilnaðar og þú gerir það ekki Vilja skilnaðinn, Dr Ekpen er svarið við vandamálið. Eða þú ert nú þegar skilnaður og þú vilt samt að hafa samband við hann. Dr Ekpen stafrænar rifrildi núna (ekpentemple@gmail.com) eða whatsapp hann á +2347050270218 og þú verður klæddur sem þú gerðir.