Líf í árvekni: Dreki í nærmynd

mánudagur, 5. mars 2007

Dreki í nærmynd

Fyrir réttu ári síðan tók ég áþekka mynd og þessa hér, af páskalilju völlunum við Leven Terrace, þar sem við bjuggum fyrst hér í Edinborg. Eins og sjá má á þeirri mynd eru liljurnar nokkru fyrr á ferðinni í ár.

Í ár eru reyndar allir litir sterkari, fegurðin meiri. Skynjunin sterkari.

Margt hefur gerst á þessu ári, sem nú er liðið frá því að minn heittelskaði kom heim úr skólanum, settist við eldhúsborðið og sagði mér frá því að hann hefði orðið fyrir ákaflega furðulegri upplifun fyrr um daginn.

Skyndilega hafði honum þótt sem hann hefði séð alla æsku sína fljúga í minningabrotum um huga sinn á örskotshraða, og orðið snögglega óglatt. Um tíu mínútum síðar var ógleðin liðin hjá en þegar hann átti þá að taka til máls og flytja ásamt skólasystrum sínum fyrirlestur, komst hann sér til enn meiri furðu að því að hann mundi alls ekki um hvað fyrirlesturinn átti að vera.

Tók þó til við að lesa af glærunum sínum, áttaði sig á því að umfjöllunarefnið var áhrif andlegs ástands á líkamlega heilsu og smám saman skiluðu upplýsingarnar sér aftur í hugann, sem - eins og við skildum talsvert löngu síðar - hafði orðið fyrir áhrifum af skilaboðum líkamans um heilaæxli á stærð við myndarlega sítrónu í vinstra gagnauganu.

Áður en það upplýstist var lokið við meistaranám í heilsusálfræði, farið í Íslandsferð, gengið í hjónaband í dómkirkju Reykjavíkur, farið í brúðkaupsferð til Rómar og flutt búferlum innan Edinborgar í tvígang.
Í vikunni eru liðnir fimm mánuðir frá því að þessi tölvusneiðmynd (CT) leiddi drekann í ljós, þann 6. október 2006. Sem sé skugginn sem birtist hægra megin á þessari þversum-einsog-neðan-frá-séðu mynd af heilabúi míns heittelskaða.
Segulómmyndatakan (MRI) þann 9. nóvember sýndi betur hvað við var að kljást. Verst að við höfum ekki samsvarandi myndir að sýna ykkur eftir skurðaðgerðina þann 12. janúar sl.; CT myndirnar síðan þá eru svo óljósar af völdum bjúgs að ekki einu sinni læknirarnir gátu sagt með fullri vissu annað en það að minnsta kosti helmingurinn væri farinn, líkast til meira.

Leifarnar hafa nú verið bakaðar í geislum dag eftir dag frá því um miðjan febrúar, og eiga enn eftir að fá á sig skot út þennan mánuð, árásirnar verða 30 í allt, hver um sig þreföld. Mögnuð töfratala, þrír, eins og allir vita sem einhvern tímann hafa lesið ævintýri.

Svefninn hjá prinsinum orðinn til muna betri en í fyrstunni þegar sterarnir ollu honum andvöku og reglulega skila sér nú í minnið nöfn sem höfðu látið á sér standa fyrir aðgerð, svo sem eins og á kvikmyndum, þekktu fólki og óþekktu (skrítið hvað við tölum oft um leikara!), adressum heima og hér í borg, og meintum, heimsfrægum sálfræðiprófessorum (Eysenck, einhver?).

Botna færslu dagsins á mynd sem var tekin á sunnudaginn síðasta, í hjólreiðatúr fjölskyldunnar meðfram skurðinum sem liggur hér í gegnum hverfið og heitir Union Canal, nær víst alla leið til Glasgow. Fórum að vísu ekki svo langt en hver veit, ef hann hangir einhvern tímann þurr þarna á vesturströndinni, þá getur vel verið að við lítum þangað við einhvern sunnudaginn...

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl bæði tvö

Takk fyrir þessa upprifjun og stórmerkilegar myndir af heilanum. Heilinn er stórmerkilegt fyrirbæri sem vekur fleiri spurningar en hægt er að svara. Hvað eftir annað koma fram upplýsingar um virkni hans og óvirkni og í hvert skipti hváir maður af undrun.

Í Björgvins tilfelli þá þrýstir æxlið á heilastöðvar sem framkalla óumbeðin áhrif, og kannski sýnir að ÖLL okkar reynsla er geymd í slímugum taugafrumum sem gera ekki annað en að skjóta rafboðum sín á milli eins og þeim sé borgað fyrir það. Enn sem komið er lærum við meira um heilan þegar eitthvað fer úrskeiðis í virkni hans en með að skoða ætlaða virkni (hver svo sem hún er).

Ég get ímyndað mér að það hafi verið óþægileg reynsla að fá allt í einu röð mynda frá löngu liðnum tímum, svo öflugar að núverandi tilvera eða skynjun raskast um tíma og maður finnur sig staddan í fortíðinni. Villa þetta er nánast efni í lyga... ég meina skáldsögu. Ég er meira að segja með titilinn:
"Maðurinn sem hélt að núið væri í gær."

Ok... ég skal hætta, ég missi mig alltaf þegar ég byrja að skrifa um það sem er mér ofarlega í huga, og
það er nú hann Björgvin vinur minn.

Bið að heilsa í bili

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa, Bjorgvin og Stelpurnar,Sendum okkar bestu kvedjur fra Canari, hofum thad fint her! sol og hiti 30 c, vill til ad thad er nokkur vindur, fer ekki ad liggja i solbadi strax .Vonum ad allt gangi vel! Astar kvedjur mamma og pabbi.

Smali sagði...

Árin gerast líklega ekki mikið viðburðaríkari en síðasta ár hjá ykkur. Það er gott að sjá að frændi er allur að koma til. Vonandi gengur allt vel hjá ykkur þangað til við sjáumst næst (og vonandi líka eftir að við sjáuumst næst).

Haffi frændi og fjölskylda

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra og ég bið kærlega að heilsa ykkur öllum. Ég bý einmitt í húsi númer þrjú og er mjög sátt við það :) þrír er mjög oft í húsnúmerum hjá mér og á ég afmæli daginn 12ta sem leggst saman og verður að tölunni 3 :)

Nafnlaus sagði...

Hálf óraunveruleg stærðin á þessum helvítis dreka.
Megi hann láta sig hverfa sem allra fyrst.
Ástarkveðja
Auður Lilja