Líf í árvekni: Láttu mig ekki þurfa að koma niður!

föstudagur, 2. mars 2007

Láttu mig ekki þurfa að koma niður!

Þegar ég gekk framhjá kirkjunni í götunni okkar á leiðinni með Skottuna á leikskólann í gær varð mér litið eins og vant er á tilkynninga skiltið framan við hana.

Stundum eru þarna tilvitnanir í hina góðu bók, sem minna konu á hvað er mikilvægast í henni versu. Stundum tilkynnt um fræðslufundi og samkomur sem kona hugsar með sér að séu kannski áhugaverðar þannig séð, þó ekki væri nema frá þjóðfræðilegu sjónarhorni, (sótti sko kúrsinn Þjóðfræði trúarlegrar tjáningar í fyrra í Edinborgarháskóla) en gerir þó aldrei neitt í að sækja.
Kirkjan líka sjálf lokuð og læst að sjá alltaf, ekkert ,,verið velkomin, komið inn og svipist um“ skilti eins og við St. John’s kirkju á horninu við Prinsastræti og Lothianveg. Þau í kirkjunni við Gilmore Place fara ekki alltaf hefðbundnar leiðir til að ná athygli sóknarbarnanna og tilheyra þó að ég held ábyggilega hinni íhaldssömu Church of Scotland, sem byggð er á grunni af kalvínskum kenningum.

Þennan daginn voru þarna tvær tilkynningar, hvítt letur á svörtum grunni. Á annarri stóð: Við þurfum að tala saman. Guð. Á hinni: Láttu mig ekki þurfa að koma niður. Undirritað af þeirri sömu: Guð. Ég skellti upp úr. Við ættum víst að tala saman oftar, vinkonurnar, því þótt ég eigi það til að verða óþolinmóð eftir svörum Hennar þá veit ég að þau koma á endanum, með milligöngu annars fólks, bóka, tónlistar, auglýsingaskilta. Galdurinn er að kunna að hlusta eftir þeim, býst ég við.

Í glugganum á leikskólanum var í gær gleðiósk með dag sánkti Davíðs, 1. mars. Það er liklega af því að það er velsk telpa á leikskólanum sem þau létu þessa sérstaklega getið, en eins og við vitum sem höfum lesið dagatal dýrlinganna spjaldanna á milli (linkur neðarlega til hægri) var sá uppi á sjöttu öldinni og er verndardýrlingur Wales.
Um hann er sagt að hann hafi lifað á vatni, brauði og vætukarsa en svo eru blaðlaukurinn honum tengdur líka. Ein saga er sú til af sælum Davíð að þegar Saxar hafi sótt að velskum hetjum hafi hann tekið eftir því að allir kapparnir voru hverjum öðrum líkir og erfitt að greina að vini og andskota. Hann stakk því að velsku stríðsmönnunum að setja blaðlauk í hjálma sína og húfur til þess að greina sig frá Söxunum. Til að gera langa sögu stutta þá unnu þeir laukskreyttu bardagann og alla tíð síðan fagna Walesverjar degi Davíðs með því að gæða sér á blaðlaukssúpu 1. mars ár hvert. Namminamm....

Áður en ég sný mér að öðru verð ég svo að bæta því við þeim gagnslausa fróðleik líka, af því að í ætt minni eru þeir allmargir nafnar dýrlingsins, að á velsku er Davíðsnafnið borið fram eins og á íslensku. Og stafsett svona: Davydd. Já og enn eitt, úr því að ég er komin í þennan ham: Kyndingarviðgerðamaðurinn sem kom hingað í gær í sjöttu og síðustu heimsókn (vonandi) heitir einmitt Dave, sem og nýr kunningi minn sem flytur okkur að næsta máli, og kommenteraði fyrstur manna á seðlabúntin okkar.

Samkeppnin í kommentaglugganum um frumlegustu hugmyndina að því hvernig búntin tuttugu og fjögur lentu þarna á eldhúsborðinu í Gilmore kastala var jöfn og hörð og gaman að sjá hve margir tóku þátt, meira að segja hann Dave (ekki kyndingarviðgerðarmaður heldur hinn), sem hafði þó ekki hugmynd um að yfir stæði keppni af þessu tagi.

Íróníuskotin tilgáta litlu systur minnar er náttúrulega ,,rétta“ svarið, þótt verðlaunin fyrir frumlegheit hljóti að fara til síðastnefnds Dave fyrir uppástunguna um pósthúsrán. Við seldum sem sagt bílinn okkar með stýrið vitlausu megin og kominn tími til, enda staðið svo gott sem óhreyfður á planinu síðan í haust þegar læknirinn sagði Björgvin að skila inn skírteininu. Kaupandinn, ungur hrossabóndi úr nálægri sveit, greiddi fyrir í seðlum og þarna sáum við í fyrsta sinn hina grænu, sjaldgæfu 50 punda seðla, auk allra þriggja útgáfanna af pundseðlum sem prentaðar eru hér í landi. Svo margbreytileg þessi skosku pund að enskir vilja þá ekki í viðskiptum; of auðvelt að falsa þá segja þeir, og oft gert.
Fengum fyrir fólksvagninn næstum jafnmikið og við keyptum hann á haustið 2005 og eigum þess utan von á tæplega tveggja búnta inngreiðslu á bankareikninginn frá tryggingafyrirtækinu, svo að það er vitanlega kátt í höllinni. Auk þess að hafa nú alla þessa aura til að frílysta okkur fyrir þá getum við nú andað léttara því að:

· kolefnisfótsporið okkar á plánetunni jörð er ekki jafnstórt og áður · við spörum okkur bensínkostnað (höfum reyndar ekki fyllt tankinn síðan í ágúst 2006) · við spörum okkur líka ergelsi yfir bensínverðhækkunum · við sköpum leigubílsstjórum og strætóbílstjórum vinnu · við spörum okkur tíma með því að kaupa í matinn á netinu og sköpum sendlunum hjá ASDA vinnu við að taka saman og færa okkur innkaupin heim að dyrum · við göngum og hjólum meira og fá þannig bæði hreyfingu og (oftast) hreint loft · við lentum ekki í veseninu út af gallaða bensíninu · við tökum betur eftir umhverfinu en ella - krókusarnir og páskaliljurnar sjást betur í gönguferð en bílferð.

Og ekkert hnu með það, systir góð ;o)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið djéskoti er ég klár :o)
og ekkert hnu með það :Þ

Nafnlaus sagði...

Fyrsti bíllinn minn eða fyrsti bíllinn sem ég átti hlut í var einnig seldur fyrir seðla. Þetta var í gamla daga (nema hvað) og áður enn tvö núll voru tekin af krónunni. Það voru ansi margir seðlar og búntin þykk. Ekki man ég nákvæmlega hvað hluturinn margar milljónir var en það hefur líklega verið nokkrar. Reyndar fékk ég ekki nema helminginn af verðinu, enda ákveðinn eldri bróðir ekki búinn að drekka meira á þeim tíma sem hann var búinn að vera að selja mér bílhlutinn. Náði einhver samhenginu í þessu? He he. Hnu?

Nafnlaus sagði...

Allir þessir peningar minntu mig á það þegar ég og Vilborg unnum í fiski á Þingeyri. Líklega voum við 14 eða 15 ára og fengum útborgað í peningum. Sue útdeildi bónusmiðunum góðu og Edda Þórðar færði okkur launaumslögin úttroðin af peningum.

Matthildur