Líf í árvekni: Krókusarnir eru komnir

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Krókusarnir eru komnir

Stundum eru dagarnir góðir, stundum ekki eins góðir. Það er ekki vert að segja frá því um allar trissur þótt það sígi eitthvað lundin, enda til þess eins fallið að draga hana enn meira niður. Alltaf líka hægt að koma auga á eitthvað gott í tilverunni, svo sem eins og krókusana sem eru þegar farnir að stinga upp kollinum á Meadows völlum.

Ljómandi góður dagur hjá okkur á sunnudaginn; fórum í hjólatúr og heimsóttum uppáhaldskaffihús Skottunnar, Fíla og Beyglur, sem er svo ágætlega staðsett örskammt frá hennar elskaða Meadows-róló.
Þarna er betrekkt með ljósmyndum, málverkum og teikningum barna og fullorðinna af fílum af öllu tagi, í hillunum óteljandi fílafígúrur. Eigandinn er víst fílafíll (sbr. nýyrði kynnt í síðustu færslu).Þetta er raunar afleggjari kaffihúss með sama nafni til húsa á Georgs fjórða brú í gamla bænum, sem státar af því á ágröfnum platta að hafa hýst Jóhönnu Kaðlín Rowling og vökvað hana á kaffi (eða te?) á meðan hún skrifaði uppkastið af fyrstu Harry Potter bókinni á servíetturnar þeirra.

Það var víst svo kalt þann vetur og hún - á þeim tíma eðli málsins samkvæmt ekki orðin ríkari en Elísabet II - hafði ekki efni á að kynda íbúðina svo hún skrifaði á kaffihúsum. Eða svo segir sagan. Kannski hefði henni ekkert gengið að kynda þótt hún hefði átt fyrir því aur, hvað svo sem hún skrúfaði upp ofnana og bætti í arininn, vegna þess að næstum öll hús í Edinborg eru með 4-5 metra lofthæð og hitinn leitar jú upp á við, auk þess sem Skotar hafa ekki lært kúnstina að einangra hús. Gott að eiga sokka og peysur úr íslenskum lopa við slíkar aðstæður.
Alltaf gaman að fá kveðjur frá ykkur sem lítið inn um blogggluggann hér í Gilmore kastala í dagsins önn. Yljar og styrkir að vita af góðum tilhugsunum. Takk fyrir það.
Þið sem berið þessa dagana meiri byrðar en sanngjarnt getur talist og eigið til að gleyma því að vænta góðs af lífinu eftir allt það sem á undan er gengið – já, og líka þið hin sem eruð að pirra ykkur stundum á smámunum ;o) – lítið endilega við á þessari síðu í góðu tómi og kynnið ykkur leyndarmálið um lögmál aðdráttaraflsins.

Á reyndar sjálf eftir að horfa á myndina en get fullvissað ykkur um að bókin er góð. Lagið sem er leikið undir jákvæðni-myndbandinu er ábyggilega útsetning á gömlu lagi eftir Enyu (ekki sniðugt að smella á þetta í vinnutímanum, Auður!).

P.S. Gummi, þú spurðir um mindfulness hugleiðsluna og Björgvin bað mig fyrir þetta svar til þín: ,,Eins og Tao Te Ching sagði: Those who know do not speak; those who speak do not know."

P.P.S. Í samræðu í framhaldinu sagði minn heittelskaði að maðurinn sem sæti í jógastellingu og hugleiddi væri eins og fingurinn sem bendir á tunglið. Er ennþá að velta því fyrir mér hvað það merkir...

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er virkilega svona grænt Hjá ykkur!!! Hér er allt hvítt yfir að líta, en hafisinn er farinn sem betur fer!Samt 6-8 c frost og nístingskalt úti! eins gott þetta er 'a Islandi og hægt að hita upp! 'Astar og baráttukveðjur ! mamma

Nafnlaus sagði...

Sólin skein ákaft inn um gluggan minn í Öldunnu á sunnudaginn (4. feb.)Það var kærkomið því ég hafði blótað Þorra fram undir morgun. Blessunin hefur vitjað okkar daglega til að ylja okkur síðan. Sólarpönnukökur og háir stýrivextir eru mér ofalega í huga. Mikið er annars gott að þið skulið vera að koma heim. Okkar vegna og ykkar líka að sjálfsögðu.
Ís-kveðja frá Ísafirði
Matta

Nafnlaus sagði...

Stórfin mynd af ykkur Skottunni, sá hana ekki í dag hún var í felum ! Nína og Venni báðu fyrir kærar kveðjur!Mamma.

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar mínar!

Hugsa til ykkar daglega!

Kv. Hlíf

Nafnlaus sagði...

Yndislegar myndir og hvað sem lofthæð líður þá er nú glæsilegt þarna í Edinborg innan dyra sem utan!

Við vitum aldrei hvað bíður á morgun, hvað þá lengra fram í tímann, við bara ímyndum okkur að við vitum það og plönum og plönum meðan lífið líður hjá. Svona yndislegir dagar eins og sunnudagurinn hljómar eru það sem lífið er fyrir.

P.P.S. er náttúrlega tilvísun í Enter the dragon. "It is like a finger, pointing to the moon. (högg á hendi lærisveinsins), don´t look at the finger or you will miss all the heavenly glory", ein af gullnum setningum meistara Bruce.

Kv. Palli

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ
Nú verð ég að láta vita af mér ég kíki á bloggið ykkar á hverjum degi. Mér fannst þú vera tala til mín því ég heiti Auður og les bloggið þitt í vinnutímanum (já já veit alveg að það er ekki sniðugt). Við þekktumst í gamla daga því við vorum saman á heimavistinni á Ísafirði reyndar var ég bara fyrstu önnina.
En gangi ykkur vel í baráttunni við dekann.
Kveðja Auður Lísa

Nafnlaus sagði...

Skrýtið veðurfarið þarna í Bretalandi. Ég tók einmitt eftir því þegar ég var í Lundúnaborg um jólin að þá var grasið grænt en á sumrin er það bara sviðin og þurr sina eins og að vetri hér.
Ástarkveðjur og vonir um góðan bata. Bjössi bró...

Nafnlaus sagði...

daginn ætla bara skilja eftir spor mitt ég er allt of löt við það en hugsunin er hjá ykkur á hverjum degi og orkan að vestan er send til ykkar á hverjum degi, drekinn sigrast . kveðja úr Dýrafirði frá okkur sem horfum í axjo á lögguleik við dýnamít þyrla og allt og ein þóa saga í lokinn það er allt í rífandi gangi hér enda nota ég bara dýnamít á þetta. kveðja Gunna

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Til Palla: *Skellihlátur* Fékk orðrétt sömu skýringuna hjá B! Verð greinilega að leggja mig betur eftir kvikmyndum meistara Brús Lí!

Til Auðar Lísu: Mikið er gaman að heyra frá þér, man svo vel eftir þér af heimavistinni og trúi varla hvað það er langt síðan - reikn, reikn...?!! Bestu þakkir fyrir að heilsa á okkur, bloggið er þvílíkt að skila okkur góðu.

Til Gunna bró: Tølvuspelið kom hér við í dag og er komið í póstinn norður á bóginn. Sendingarkostn. of lítill til að tale om. Venlig hilsen til Marit og børnen.

Til Vestfirðinganna og annarra áhugamanna um veðurfar: Næsta blogg verður um fyrsta snjóinn sem skilaði sér í loks í morgun. Jessmann!

Nafnlaus sagði...

hehe, nú er maður svo upptekinn í vinnunni að það gefst ekki einu sinni tími til að lesa brandarapósta lengur , hvað þá senda þá áfram svo núna er setið yfir netinu að kvöldi til og bloggheimar lesnir.
Spennandi að skoða The secret linkinn, var einmitt að heyra af þessari mynd og að hún væri algjört meistarastykki.
Verð að útvega mér eintak.

Ofsalega er fallega grænt þarna hjá ykkur, hérna í Kópavoginum er allt hvítt, mætti halda að maður væri fyrir vestan!

..best ég hringi bara í þig núna áður en ég fylli út allt athugasemda-plássið þitt :o)

Knús & kreista
Auður Lilja & kó

Nafnlaus sagði...

Er svo mikill perri að ég geri ráð fyrir að þetta sé hið ofnotaða vísifingurstákn sem er misnotað af fólki á neikvæðan hátt þegar það vill að annað fólk vilju hafa mök við sjálft sig ( skilur nokkur þessa þvælu, blehhh! ;0P ) Biðjum að heilsa við Ragga. Það er 11. febrúar og við á leiðinni í kvennamessu í Dómkirkjunni.