Líf í árvekni: Grímugerð

mánudagur, 5. febrúar 2007

Grímugerð

Makalaust merkileg, tæknin til allra hluta. Í morgun var tekið nákvæmt mót af andliti míns heittelskaða með efni sem er á ensku kallað ,,thermoplastic" og gæti kannski útlagst sem hitaplastefni á ylhýra málinu (ensk/ísl. orðabókin átti ekki til orð, frekar en oft áður).

Gríma þessi er til að halda höfði Björgvins á nákvæmlega réttum stað þegar geislasverðin hitta drekarestina fyrir, og verður fyrsta atlagan væntanlega gerð á sjálfan Valentínusardaginn, þann 14. febrúar.

Grímugerðarmaðurinn sagði okkur að þessi tækni hefði verið tekin í notkun fyrir um ári á krabbameinsdeild Western General Hospital, en hún hefði reyndar verið í notkun í Ameríkunni í mörg ár.

,,We always get everything last here!" sagði hann en var þó kannski í aðra röndina feginn því sömuleiðis sagði hann okkur að nýjungin gerði hans eigin sérþekkingu við gifsmótun úrelta.

Áður voru geislagrímur sem sé gerðar með því að heitt gifs var lagt yfir andlitið og gríma úr plasti síðan búin til eftir því, sbr. þá sem sést í efstu hillunni á myndinni til hægri, sem kostaði bæði mikla vinnu og aðra heimsókn sjúklings í mátun.

Bangsinn er með slíka grímu, notaður til að sýna litlum börnum sem þurfa í geisla, en þau þarf vitanlega að svæfa fyrir aðra eins nákvæmnisaðgerð, litlu skinnin.

Þegar gifsið var notað mátti viðkomandi gjöra svo vel og liggja kjur í klukkutíma eða meira, en hitaplastefnið harðnar hins vegar á sirka korteri. Sumir ku fá innilokunarkennd af aðförunum og ekki að undra en prinsinn átti ekki í vandræðum með að slaka á þótt heitt væri í framan; tæmdi hugann og nýtti tímann í mindfulness hugleiðsluna sem hann ástundar daglega.

Plastefnið er alveg slétt spjald fyrir notkun, en síðan er það hitað duglega til þess að það gefi eftir, og er síðan þrýst eða dregið niður yfir andlitið.

Eins og sést á myndunum eru göt fyrir festingar neðst sem ætlaðar eru til þess að festa grímuna við bekkinn í geislameðferðartækinu. Áður en að því kemur hins vegar þurfti að taka CT mynd af kolli piltsins og merkja nákvæmlega út frá henni á grímuna hvar geislarnir eiga að lenda.

Þegar að meðferðinni sjálfri kemur þarf hann þó ekki að vera með þennan útbúnað á sér nema í örfáar mínútur; mestur tíminn fer víst í að koma honum rétt fyrir á borðinu en geislarnir baða drekabeðinn aðeins í örskotsstund.

CT er skammstöfun sem stendur fyrir computed tomography, sem að ég held snarast sem tölvusneiðmyndataka (Palli?). Skelli hér inn mynd af græjunni sem er engin smásmíði, og síðar meir set ég væntanlega inn einnig tölvusneiðmyndir bæði og segulómunarmyndir (MRI) frá því fyrir og eftir skurðaðgerðina, því nú erum við komin með í hendurnar afrit af öllu saman á geisladiski, þ.e. CT og MRI frá í október og nóvember og CT mynd frá 3. degi eftir aðgerð.

Sá að sálufélagi Þórir í Ameríkuhreppi hefur þegar sett slíka syrpu inn á Ameríkubloggið (18. janúar); þannig að heilaæxlisfílar* geta litið þar á og séð m.a. hvernig augnsvip menn hafa á röngunni... (!)

P.S. Á listann Góðar ástæður til að fara til Íslands hefur þessi bæst við síðan síðast og er sú sjötta: SS pylsur með öllu.

* Nýyrði í málinu, höfundarréttur tilheyrir yðar einlægri, sem fellur sjálf í þennan flokk fólks. Gæti útlagst sem gliomaphiles á engilsaxnesku...

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komiði blessuð og sæl og hér sé Guð...

Spennan heldur áfram að magnast og það liggur við að maður gleymi alvarleika málsins við að lesa um öll undraverkin sem Björgvin fær að reyna.

Eitt langar mig að fá skýringar á, en það er þessi mindfulness hugleiðsla; hvernig er hún framkvæmd?

Ég spyr vegna þess að, eins og Björgvin veit , hef ég mikla reynslu af hugleiðslu undir handleiðslu Sigga jóka og Guðna, en þeir minntust aldrei á mindfulness. Kannski er þetta eitthvað sem ´´eg get nýtt mér, þetta hljómar allavega mjög "djúpt."

Ég vill benda ykkur á nýjasta tölublað Time magazine (feb.12. vol.169. No.7) en þar er að finna ítarlegan greinarflokk um heilan og nýjustu rannsóknir á starfsemi hans. Ég mæli með þessari grein

bið að heilsa í bili...

Gummi

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með Guðmundi, maður gleymir nærri því ástæðunni fyrir þessu öllu saman í aðdáun á læknavísindunum.

Knús og kossar frá Northampton.

Nafnlaus sagði...

Gangi Bóndanum og ykkur fjölskyldunni vel í þessarri baráttu.
Kveðja úr firðinum

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir spjallið í gær Vilborg, það var æði. (hm hm kanski 2 tíma samtal kallist ekki spjall!!!) Hann er ekkert smá flottur í grímunni!!! Heyrumst fljótlega
þinn sálu...
Guðrún Erla

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg og Björgvin (þótt ég þekki Björgvin ekki nema af lestri Mindful Living).
Vegferðin ykkar er næstum sama og okkar. Að lesa dagbókarfærslur þínar Vilborg, og hugsa svo hvar maður sjálfur var staddur í ferlinu öllu þegar við vorum í aðgerð, lyfjum og grimugerðnni fyrir geislameðferðina, sýnir og sannar að þið eruð afburða vel gerðar manneskjur. Ég var svoo aum að ég hefði ekki getað þetta, þótt að hetjan hann Kári Örn minn hafi bloggað sjálfur um sína reynslu. Það að geta skrifað með þessum hætti um þessa sáru lífsreynslu og haldið húmornun er bara það flottasta. Þú ert nú líka orðsis manneskja og flikari en felstir að koma hugsunum í orð. Fin til mikillar samhygðar með ykkur og bið fyrir ykkur. Erna A

Nafnlaus sagði...

Kvedja ur nordurvegi. Var ad lata senda a thig pakka... en svo vill eg fa hann afram.. tølvuspil fyrir børnin .. geri upp sendingarkostnad seinna. bestu og barattukvdjur. thetta er bara eins og thattur ur nyjasta tækni og visindi i ruv-sjonvarp i gamla.

Nafnlaus sagði...

Hæ - leit inn. Ég kom að uppsetningu svona CT-tækis hér á Ísafirði, aðallega stjórnhlutanum sem er Unix og skoðunartölva sem er PC með tveimur háupplausnarskjám. Þessi tæki vinna með röntgengeislum sem er skotið allan hringinn á meðan bekkurinn færist til og er hægt að afmarka nákvæmlega það svæði sem er myndað fyrirfram. Orkan sem tækið tekur til að framleiða röntgengeislana er umtalsverð því að ekki nema 5% af henni verða að geislum, hitt breytist í hita. MRI-tækin vinna hinsvegar ekki með röntgen heldur það sem á ástkæra ylhýra er nefnt segulómun.
Bjössi bró..

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg, Hrafnhildur kollegi minn sýndi mér síðuna þína. Ég vildi nú bara senda ykkur baráttukveðju, það hlýtur að ver einhver tilgangur með því, sem sumt fólk þarf að ganga í gegnum. Gangi ykkur allt í haginn og guð veri með ykkur í baráttunni
Kær kveðja
Lísa Páls Rás 1