Líf í árvekni: Í auga stormsins

þriðjudagur, 13. febrúar 2007

Í auga stormsins

Hef varið miklu af tíma mínum frá því að minn heittelskaði greindist með heilaæxli til þess að vafra vítt og breitt um netheimana í leit að haldbærum upplýsingum um þessa nýstárlegu veröld sem okkur hefur nú verið slengt inn í. Svo ótal margt nýtt að læra og skilja. Nýtt tungumál, eiginlega. Mikið af skammstöfunum: BT, CT, MRI, XRT, PFS, MST, PCV, CCNU, dx AA III, GBM, TMZ. Eins gott að hægt er að fletta upp í orðabókinni.

Hugsanirnar sem hringsnúast í kollinum ekki allar fullar af bjartsýni og baráttugleði. Er samt búin að átta mig á því mikilvægasta. Það er kyrrð í auga stormsins. Galdurinn felst í að finna hana og halda í hana. Æðruleysisbænin hjálpar - sumt verður kona að sætta sig við en sumt má hafa áhrif á og svo er að hafa visku til að átta sig á hvað á heima hvoru megin og kjark til að breyta því sem hægt er að breyta. Eitt af því sem ég get haft áhrif á er eigin viðhorf, eigin hugsanir - og þar með eigin líðan. Dagarnir snúast svo um að finna aðferðir sem hjálpa í þá átt. Leitina að miðjunni.

Í einni af ferðasögunum sem ég hef rekist á á flakki mínu um vefi samferðafólks í æxlisheimum fann ég ágæta nálgun, sem snýst um að beina kröftum sínum inn á við, ekki síður en út á við. Þótt sjúkdómurinn hafi ráðist inn í líkamann er engin ástæða til þess að hann ráði niðurlögum hugans og andans.

Að skrifa pistlana hér hjálpar á margan veg. Með því að deila byrðinni léttum við hana um leið. Og kveðjurnar ykkar, bæði stuttar og langar - (Gummi, Björgvin hringir fljótlega!) - og ábendingarnar eru ómetanlegar.

Orkudrykkjavefur Kaffi Sigrúnar aldeilis frábær. Nú er skálin góða orðin yfirfull af ávöxtum af öllu tagi; ísskápurinn heldur ekki allri hollustunni lengur ;o) Fór í bæinn í gær með Skottuna, heimsótti heilsubúðina og náði bæði í próteinduft til að blanda í djúsinn og ginseng fyrir piltinn.

Í dag er væntanleg hingað til okkar í annað sinn heilsusálfræðingur, ung kona útskrifuð úr þeim sama háskóla og prinsinn sótti, til þess að taka við okkur viðtal um baráttuna við drekann. Hún er að vinna rannsókn á vegum Edinborgarháskóla og taugalækningadeildar WGH sem snýst um það hvernig sjúklingar og aðstandendur upplifa þetta ferli allt saman, viðmót starfsfólks og upplýsingagjöf, svo að spítalinn geti bætt um betur. Eins konar gæðaeftirlit á þjónustunni, skilst mér. Fyrirmyndarmál, eins og svo margt annað í heilbrigðiskerfi Tjallanna.

Og á morgun hefst geislameðferðin. Nýr kafli í bataferðalaginu. Í gær var einn mánuður liðinn frá skurðaðgerðinni. Setti í tilefni af því inn myndasyrpu í albúmið sem þið getið séð hér.

Kveðja úr auga stormsins ;o)

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl verið þið! Höfum aðeins verið að fylgjast með ykkur á bloggsíðunni ykkar. Þekkjumst ekki. Okkur finnst þið ótrúlega dugleg og sýna mikinn styrk og æðruleysi, greinilega vel gert og vel gefið fólk. 'Eg algjörlega sammála þér. Æðruleysisbænin hjálpar mikið. Þekki þetta aðeins þar sem maðurinn minn. Gísli Ragnar greindist með krabbamein í eista í nov 2005. Gangi ykkur sem allra best. Kveðja Sólveig + Gísli Eyrarbakka, 'Islandi

Nafnlaus sagði...

Hugurinn hvarflar til ykkar oft á dag.

Góða ferð.

Nafnlaus sagði...

Hæ Böbbi og Villa.

Með skrifum þínum, Villa, hefur þú minnt mig á hversu frábært fólk þið eruð og hversu þakklátur ég er að þekkja ykkur. Öll höfum við okkar mál að vinna úr, mis erfið, en ef ég gæti aðeins fengið brot af afstöðu ykkar til hlutana að láni þá væri ég á græni grein.

Einhvernvegin tekst ykkur að koma ró á alla þessa óvissu og fá okkur sem fylgjumst með úr fjarlægð til að líta á þessi veikindi og allt sem þeim fylgir, sem hálfgert ævintýri; við verðum að fara þessa leið, þar finnast drekar og óvættir, en á milli trjánna skín sólin og að kvöldi borðum við góðan mat og hvílumst.

Mig langar að skrifa miklu meira... en eftir síðasta raus í mér þá þreyti ég ykkur ekki meira.

ykkar vinur
/Gummi

Nafnlaus sagði...

Stundum var í veturleið
veðrasamt á glugga,
var ekki'eins og væri'um skeið,vofa'í hverjum skugga!
Fáir vissu'að vorið beið,
og vorið kemur að hugga.
Halldór Laxness.
'Astar og baráttukveðjur Alltaf kveikt á kertinu á kvöldin! Mamma

Nafnlaus sagði...

Sæl verið þið. Þekki ykkur ekki en hef verið að fylgjast með skrifum þínum Villa á blogginu. Ég er góð vinkona Kidda og Hrefnu og bý á Akureyri en er frá suðurfjörðum Vestfjarða. Þið eruð sannarlega hetjur og sýnið einstakan styrk. Gangi ykkur vel með framhaldið. Góðar kveðjur Soffía Jakobsdóttir.

Nafnlaus sagði...

Guð blessi ykkur, sómahjón. Þið eruð að fá 10 í prófi lífsins á hverjum degi og eins og Gummi sagði hér að ofan, "á milli trjánna skín sólin og að kvöldi borðum við góðan mat og hvílumst". Engu við það að bæta.
Palli og fjölskylda

Nafnlaus sagði...

Knúskveðja úr Kópavoginum.
Kíkjum hérna orðið oft á dag.
Hugsum til ykkar og sendum ykkur alla okkar góðu strauma og bænirnar eru pakkaðar bataóskum fyrir prinsinn.
Bestu kveðjur til ykkar allra
Auður Lilja & Tommi

McHillary sagði...

Vona að allt hafi gengið vel í dag. Reyndi að hringja í gærkvöldi og svo aftur í dag. Er í fríi fram á mánudag og langar endilega að kíkja á ykkur þegar þið eigið lausa stund.Verum í bandi.
Bestu kveðjur,
Hildur

Nafnlaus sagði...

Lífið er ekki svo slæmt...og bara til að læra...búin að komast að því...Böbbi ég mæli með því að þú farir að taka myndir...Frjóvga hugann, þó að þú getir ekki hreyft þig...sért þreyttur... Bíð núna eftir galleryBöbb...