Líf í árvekni: Geislastríðið hafið!

fimmtudagur, 15. febrúar 2007

Geislastríðið hafið!

Þá er geislastríðið hafið; drekinn fékk fyrsta skotið af þrjátíu í gær, heit kveðja á sjálfan Valentínusar- daginn, og nú dugir ekkert elsku mamma! Lumbrað verður á ófétinu miðdegis alla virka daga næstu sex vikurnar, geislakrafturinn sá mesti sem læknavísindi 21. aldar hafa upp á að bjóða.
Hver sending er mæld í einingunni 60Gy (frmb. grey) og við hverja komu í meðferðina eru sendir geislar frá þremur stöðum á æxlið og 2 sm. jaðar umhverfis það, svona til öryggis.
Yðar einlæg fékk að fylgja sínum heittelskaða í gær í fyrsta tímann og mynda ferlið. Hvert skipti á bekknum er ekki nema í kringum tíu mínútur og fara flestar þeirra í að stilla græjuna af á milli þessara þriggja geislasendinga. Tímafrekast er því eiginlega ferðalagið frá heimili upp á spítala, sem getur tekið upp í klukkutíma, eftir því hvernig stendur á strætóferðum og umferðarsultum.

Annars er prinsinn að spá í að fara þetta bara á eigin(hjóla)fák, að minnsta kosti þegar sæmilega viðrar; mun fljótlegra og ágætis líkamsrækt um leið, kannski um 30 mínútna hjólatúr.

Geislaskotin sjálf eru algjörlega sársaukalaus fyrir piltinn, þótt drekadruslan sé væntanlega og vonandi gjörsamlega steini lostin. Þegar tækinu hefur verið snúið eftir þörfum fara allir út úr herberginu - nema auðvitað aðalsöguhetjan - og fram í stjórnstöðina.

Þar er ýtt á takka hist og her, litlum lykli snúið í stjórnborði og síðan á takkann Beam ON.
Fylgst er með prinsinum í beinni útsendingu á skjánum og ef hann þarf nokkurs við þarf hann ekki annað en að veifa hendinni. Nokkrum augnablikum síðar er allt búið, gríman losuð, bekkurinn lækkaður og kvatt: ,,Sjáumst aftur á morgun!"
Tilgangurinn með geislameðferðinni er bæði sá að drepa sem flestar æxlisfrumur og rústa möguleikum þeirra á að fjölga sér. Þannig er vöxtur æxlisins stöðvaður - eða þess minnihluta sem ekki tókst að fjarlægja með skurðaðgerðinni - og það mun skreppa saman með tímanum.
Doktorarnir Anna og Ian segja okkur þó að nokkuð langt sé að bíða þess að hægt verði að sjá árangurinn á myndum, þar sem geislarnir eru að vinna sín skemmdarverk á frumunum um langt skeið eftir að meðferðinni lýkur.
Bólgur og bjúgur eftir aðgerðina eiga auk þess enn eftir að hjaðna. Næsta segulómmynd verður tekin sirka þremur mánuðum eftir að geislameðferðinni lýkur, í júní/júlí sem sagt, og mun samt ekki sýna allan árangurinn þá, en yðar einlæg er algjörlega sannfærð um að hann verður framar öllum björtustu vonum.
Við hjónakornin enduðum svo þennan sólbjarta og geislum baðaða febrúardag á því að fara í bíó og sjá margverðlaunamyndina The Last King of Scotland, en þar var aðalpersónan Saddam okkar unglingsára, fólið Idi Amin einræðisherra í Úganda. Ekki beinlínis í stíl við Valentínusardaginn en mælum eindregið með henni, áhrifamikil mynd og feiknavel leikin (viðkvæmir ættu samt að loka augunum í svona 3 mín. í lokaatriðinu).
p.s. Teikningarnar eru fengnar að láni úr Sögunni af prinsessunni undurfögru og hugrakka prinsinum hennar eftir Margréti Tryggvadóttur, myndir eftir Halldór Baldursson.

7 ummæli:

mamma sagði...

Hvatningakveðjur og baráttukveðjur í stríðinu við drekan!'AStarkveðjur mamma og pabbi.

Ljúfa sagði...

Mér líst á þetta! Gefið óhræsinu einn á glannann frá mér!

Auður Lilja sagði...

Tek undir með ljúfu, einn frá mér líka!
Rosalega eru þetta vígaleg tæki, þau líta allavegna mjög traustvekjandi út!
Kærleikskveðja

mamma sagði...

Þær eiga vel við ,þessar myndir af Drekaófétinu!
Annars ástarkveðjur Mamma.

Nafnlaus sagði...

Það er um að gera að hafa mikla trú á að drekaskömmin verði gerð óvirk.Ég er sammála því að næst þegar hún verður mynduð verður hún örugglega orðin miklu minni og síður líklegri til að vera til vandræða.En þetta eru sannarlega vígaleg tæki sem þarf til að vinna verkið.Okkar bestu kveðjur um áframhaldandi bata og innri hugarró.
kveðja Kiddý og Co

Þórdís tinna sagði...

Ég dáist að styrk ykkar hjóna.
Guð veri með ykkur.

Bestu kveðjur
Þórdís tinna O)

Gunni & Co sagði...

Bið að heilsa í bæinn. Vorum að koma úr skíðaferð þar sem allir voru á "carving" eða móðins svigskíðum. PS Gistum á Travel lodge á St. Marystreet 33 þann 19.4 (rétt hjá barnasafninu). Erum ekki búin að plana gistingu síðustu daga fyrir brottför þann 26.