Niðurstaðan eftir nokkur heilabrot er sú að vera hér þar til heimasætan hefur útskrifast með sitt skoska stúdentspróf í júnílok en fara þá heim á landið bláa. Reynslunni ríkari eftir rétt tveggja ára dvöl, Björgvin með meistarapróf í heilsusálfræði upp á vasann og Villa með ríflega helming þess sem til þarf í þjóðfræðimeistarann heima.
Doktorsnámið sem prinsinn stefndi að áður en lífið tók þessa líka kúvendingu, á samkvæmt námsskrá Queen Margaret University College að taka tvö ár, ásamt með hlutastarfi í heilbrigðisgeiranum, en hefur tekið minnst þrjú fyrir fullhrausta (og innfædda) hingað til.
Okkur þótti því sem doktorinn myndi fela í sér lengri dvöl fjarri ömmum og afa, frænkum og frændum, vinum og vandamönnum en við gætum hugsað okkur, enda nóg annað við að vera fyrir mann sem hefur vasann þegar svo úttroðinn af gráðum og diplómum að flestum þætti það hálfa meira en nóg!
Með því að hinkra með heimferð í þessa fimm mánuði náum við að njóta skoska vorsins sem áætlar lendingu hér í næsta mánuði (!), meginhluta skoska sumarsins sem hefst í þarnæsta mánuði (eins og heima... Not!) og Björgvin verður búinn að safna góðum kröftum eftir geislameðferðina sem hefst eftir tvær vikur, stendur í sex og getur valdið dálítilli þreytu nokkru lengur.
Við vitum fyrir víst að Snúðurinn á Suðurgötunni er ákaflega kátur með þessa niðurstöðu og þá ekki síður ,,Þinnú" amma, og víst verður gott að vera umvafinn öllu sínu fólki ekki aðeins í andanum hér í bloggheimum heldur líka í holdinu. Við erum því tekin til við að lesa matvöruauglýsingar í íslensku netmiðlunum, svona til þess að búa okkur undir það sem koma skal með sumri og hindra að við fáum alvarlegt kostnaðarmeðvitundarkúltúrsjokk (31 stafur).
Sömuleiðis koma okkur nú í hug á hverjum degi góðar hliðar þess að halda heim á ný þótt á undan áætlun sé, (sem að öllu óbreyttu, okkar í milli sagt, hefði orðið að sögn míns heittelskaða þegar Framsóknarflokkurinn hefði verið niðurlagður. Kosningar í vor, svo að það er aldrei að vita svo sem...). Þar á meðal eru eftirfarandi ástæður þegar komnar á lista:
1. Það fæst amerískt Cheerios á Íslandi. Og pítusósa líka.
2. Þá þarf Björgvin ekki lengur að drekka Irn-Bru, skoskt appelsín með gömlu ávaxtatyggjóbragði. Hann hefur neyðst til að drekka þennan óþverra þar sem hann vill eiga eitthvað kalt að drekka í ískápnum í friði fyrir öðrum í fjölskyldunni (á piparsveinsárunum gat hann víst átt kóladrykki í ísskápnum dögum saman!).
2. Þá þarf Björgvin ekki lengur að drekka Irn-Bru, skoskt appelsín með gömlu ávaxtatyggjóbragði. Hann hefur neyðst til að drekka þennan óþverra þar sem hann vill eiga eitthvað kalt að drekka í ískápnum í friði fyrir öðrum í fjölskyldunni (á piparsveinsárunum gat hann víst átt kóladrykki í ísskápnum dögum saman!).
Til þess að hann komi ofan í sig járnbrugginu þarf að kæla það í frystinum í klukkutíma fyrir neyslu. Annars finnst of mikið bragð af því (!) Ótrúlegt að þetta sull skuli vera vinsælasti drykkur hérlendra, næst á eftir viskíi náttúrulega og Stellu.
3. Það er tvöfalt gler í húsum á Íslandi og kynt jafnt nótt sem dag, sumar sem vetur; óþarfi þar að klæðast þykkum peysum og lopasokkum þótt aðeins kólni í veðri.
4. Íslensk birta er engu lík.
5. Fjaran við Gróttu.
Listinn á vafalaust á eftir að lengjast eftir því sem nær dregur en ég læt þetta duga að sinni. Á mánudaginn á prinsinn að mæta upp á spítala í mátun vegna grímugerðar, þar sem hann á að mæta drekanum með geislasverðið að vopni brynjaður líkt og - hvað heitir hann aftur, Matti?- já, Anakin Skywalker, þ.e. eftir að hann skipti um lið...
p.s. Við segjum ykkur frá væntanlegri heimferð svona snemma í trausti þess að þið farið ekki að spyrja okkur reglulega hvort við séum ekki að koma heim í lok næstu viku ;o) - man hvernig sumir voru þegar Skottan var væntanleg í heiminn - konu var farið að líða eins og hún væri einhver fílskýr!
8 ummæli:
This looks a very interesting blog, it really activates my imagination. Love the icelandic beauties all happed up in their knitwear, fondest love to all,
Arnot
Það er ég vissum að prinsinn mætir tvíelfdur til leiks með prinsessunni sinni og vinnur sigur á Drekanum!!! Það verður ekki minni tilhlökkun hér í Dýrafirðinum þegar liðið kemur heim eftir sigurinn á drekanum!!! 'AStarkveðjur mamma og pabbi.!
Hey... ég gerði líka svona lista þegar við fluttum frá Íslandi. Ef ég ber saman listann ykkar við okkra, þá er greinilegt að Minnesota er betra en Ísland, og Ísland er betra en Skotland.
Minn listi var svona:
1. Minnestoa hefur Krisky-Kream kleinuhringi
2. Minnesota hefur Hooters veitingastaði (he,he)
3. Það rignir bara lóðrétt á Minnesota
4. General Mills fyrirtækið sem framleiðir Cheerios, Coco puffs og þúsundir gerða annarra morgunkorna, er einmitt frá Minnesota, og öllin húsin þar eru beintengd inn í verksmiðjuna með neðanjarðar pípulögn.
5. Minnesota hefur Victoria´s secret verslanir!!! sem er ómetanlegt fyrir æfmælisdag frúarinnar, jólagjöf handa frúnni, Valentínusardag, brúðkaupsafmælisdag, konudag, mæðradag, Thanksgiving, 1.sumardag, 1.vetrardag, 17. júní, 4.júlí.... svo fátt eitt sé nefnt.
kv.
Þórir
Ég gæti talið upp milljón kosti í viðbót við að fá ykkur heim :-D
Þú getur sagt Björvini frá því að ég er einmitt að dreypa á al-íslensku Egils appelsíni... hvisss...heyrist í gosinu :þ
Knúskveðja úr flensubælinu í Kópavogi.
Auður Lilja & kó
Var að spá í að skanna inn kvittunina frá síðustu innkaupunum, en ákvað að sleppa því.
Annars er "best" afstætt og þetta snýst bara um að búa þar sem manni líður vel.
Annars hef ég alltaf jafn gaman af íslendingum erlendis sem panta "íslenskar" grænar baunir frá ORA að heiman fyrir jólin.
Spurningin er hversu sér íslenskar eru baunirnar? (Veit ekki til að baunir séu ræktaðar á Íslandi).
Baunirnar eru fluttar inn til landsins, niðursoðnar af erlendu vinnuafli (hef alls ekkert á móti því)og eru þar af leiðandi ekkert íslenskar.
En draumsýnin um að allt íslenskt sé best er falleg.
Þar sem ALLIR þekkja mann - þar er gott að vera!
Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera
þvi að allan anskotann
er þar hægt að gera.
Cheerios? Hmm... mig er farinn að gruna að bandariska rikisstjórnin lætur blanda einhver ávanabindandi efni úti Cheerios fyrst fólk virðist vera svo háð því. Og þá kemur finnska hafragrautsauglýsingin "sannleikurinn fyrirfinnst í hafragrautnum" í allt annað ljós. Eða sú staðreynd að þegar ég kom fyrst til Íslands stóð Ananda Marga fyrir morgunkornaframleiðslu á Íslandi. Þannig að hér er greinilega samsæri í gangi. Framtið vestrænnar siðmennigu verður ráðin, ekki á stríðsvelli eða í þingsalnum, heldur á morgunverðaborði... hú húu...
Skrifa ummæli