Líf í árvekni: Einn dagur í einu

mánudagur, 29. janúar 2007

Einn dagur í einu

Þá er Laggan mín farin heim á landið bláa, eftir ómetanlega dvöl hér hjá okkur í Gilmore kastala og verður saknað mjög, ekki síst af Skottunni, en ekki minna af okkur sem hærri erum í loftinu og höfum notið góðs af veru hennar hér á alla lund.

Fyrir þau ykkar sem hafið aldrei vitað hver Laggan er og ekki kunnað við að spyrja þá er það hún Ragnheiður Björk, ein besta vinkona sem kona getur þakkað fyrir að eiga, ættuð frá Norðfirði en búsett til allrar hamingju í vesturbænum í henni Reykjavík.

Minn heittelskaði tók í kjölfarið þá ákvörðun að slá öll hraðamet í bata og er nú í byrjun þriðju viku eftir heilaskurðaðgerð þegar tekinn til við að setja í hina daglegu þvottavél, fara út með ruslið eftir kvöldmat, fara með Skottuna á Róló svo mamman hafi vinnufrið við þýðingarnar sínar, baða hana (Skottuna sko, ekki mömmuna!), lesa kvöldsöguna fyrir hana, æfa sig í að lesa enskan texta, af léttara taginu þó til að byrja með ;o) - sbr. þessa mynd sem náðist af honum í dag - og hyggst hefja sín vanabundnu kokkastörf þrisvar í viku frá og með mánaðamótunum og ekkert hnu með það. Mamma prinsins segir að það sé ekkert hægt að eiga við hann þegar hann hefur bitið eitthvað í sig og yðar einlæg hneigist til að taka undir það eftir reynslu undanfarinna daga. Í síðustu viku fórum við hjónakornin í okkar lengsta göngutúr fram að því eftir aðgerðina, að sækja honum lyf í apótekið sem er í um tuttugu mínútna göngufjarlægð frá heimilinu.

Mín hafði náttúrulega dálitlar áhyggjur af sínum manni, gönguhraðinn síst minni en vanalega og prinsinn stórstígur, og benti honum á áfangastað á stól sem er hafður þarna í horni apóteksins fyrir fótalúna kúnna, umhyggjan uppmáluð:
,,Vilt' ekki hvíla þig, elskan?"
,,Hvíldu þig bara sjálf!" sagði prinsinn sármóðgaður á svip, svo snúðugt og snöggt að yðar einlæg átti bágt með að skella ekki upp úr..

Lífið er því að nálgast það hægt og bítandi að ná þeim takti sem við eigum að venjast þótt vissulega dvelji hugurinn stundum í heldur meiri mæli við óvissa framtíðina en kona hefði kosið.

Í ágætum samtökum þar sem yðar einlæg þekkir nokkuð til, og er svo lánsöm að geta sótt fundi hjá hér í Edinborg jafnt sem heima í Reykjavík, er það haft fyrir satt að best sé að takast á við lífið einn dag í einu, jafnvel eina klukkustund í senn ef þörf krefur.

Það er haft að leiðarljósi um þessar mundir sem og það að horfa á allt það góða og skemmtilega sem skreytir dagana, eins og til dæmis þá árlegu hefð Skota sem haldin var í heiðri um landið allt um helgina og kölluð er Burns' Night; eins konar þorrablót til heiðurs þjóðskáldinu Rabbie Burns með tilheyrandi áti á haggis (skoskt slátur) og rófustöppu og skoskum dansi á eftir.

Heimasætan fór fyrir okkar hönd á Burns kvöldverð ársins og dansiball í skólanum sínum og dansaði vitanlega af sér skóna eins og sjá má á myndinni, sem er NB tekin eftir að hún kom heim síðla, síðla, síðla kvölds.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi ráðgáta með Löggu olli mér nokkrum heilabrotum, en ég var of óframfærin til að spyrja. Mikið er gott að heyra að hversdagurinn er mættur á svæðið. Ef þið eruð heppin verðið þið aftur farin að pirra ykkur á smámunum og jafnvel leiðast innan tíðar. Gangi ykkur vel.
Ísjakakveðja að vestan
Matta

mamma sagði...

'Otrúlegur maður hann Björgvin!
Hamingjuóskir með þetta allt! Katrín er aldeilis flott í kjólnum! Hún hlýtur að hafa dansað mikið!Þorrablót um helgina! 'Astar kveðjur mamma og pabbi!

Palli sagði...

Böbbi er nefnilega af þeirri óvenjulegu manntegund sem aðhefst eins og hann predikar og tekur á málum af yfirvegun - og þroska umfram árin (og eru þau þó ekki fá!). Heimsókn mín til ykkar í síðustu viku var námskeið í æðruleysi og reglusemi og ég kom að vanda til baka margs vísari. Er nú farinn að sópa gólf og elda mat af kappi að góðu fordæmi prinsins.
Guð blessi ykkur.

McHillary sagði...

Sælar elskurnar mínar.
Frábærar myndir, sérlega góð af heimasætunni. Hún hefur alveg slegið í gegn á ballinu. Hitaði haggis áðan og fannst hann ekkert rosalega vondur. Er að smakka hann í fyrsta skipti!! Maður á kannski ekkert að vera að deila því hér hvað maður er óþjóðlegur Skoti.
En jæja, hef hugsað mér að heyra í þér á morgun mín kæra.
Góðar kveðjur ofan úr Montpelier hæðum.

sirra sagði...

Kæru hjón!
Það er stórkostlegt að fylgjast með hvernig þið takið á þessu erfiða verkefni. Jákvæðni ykkar og yfirvegun mætti verða okkur hinum góð eftirbreytni.
Við frænkurnar hugsum til ykkar og biðjum þann sem öllu ræður að vera með ykkur.
Ég, Nanna og Sigga ákváðum að skreppa í Kópavoginn svona óvænt í gærkvöldi. Við völdum þetta kvöld af því að við héldum að Sigrún hefði lítinn áhuga á handbolta en það stóð yfir bein útsending á leik Íslendinga og Dana. En viti menn, æsingurinn var slíkur að lá við að hrópin heyrðust út. Sigga frænka kom aðeins seinna en við og varð þá Jonna að orði: Það er ein í viðbót og mátti minnstu muna að henni yrði ekki hleypt inn því að allir stóðu á öndinni ef svo má að orði komast. Já, hún Sigrún er alveg einstök. Það er ekki bara allur myndarskapurinn og handverkið heldur tekur hún þátt í öllu með manni eins og ung stelpa.
Það var yndislegt að sitja hjá þeim eftir leikinn yfir góðum sopa og senda ykkur kveðjur í huganum. Íslendingarnir töpuðu með einu marki en við jöfnuðum okkur fljótt og horfðum á myndbandið af Sigrúnu litlu. Í henni og hinum börnunum eigið þið sannkallaða gullmola.
Við áttum yndislega og óvænta kvöldstund sem seint gleymist.
Ég átti að skila góðum kveðjum frá okkur öllum og sérstaklega frá Steinu í London með ósk um góðan bata.
Guð veri með ykkur,
Verðum í sambandi,
Sirra frænka á Brekkó.

Gunni sagði...

Ljómandi með batamet. Meira hvað hún blómstrar heimasætan... spurning hvor einhver skotinn verður ekki skotinn?

Bjössi bró... sagði...

Hæhæ! Góðan bata! -Bjössi-

Nafnlaus sagði...

Kæru vinir
Gott að sjá að það er regla og myndarskapur á heimilishaldinu að vanda og að húmorinn ræður enn ríkjum.
Bestu kveður,
Madamaselle Gilitrutte

Ásgeir, Inga og rest sagði...

Sá gamli dottinn í gírinn aftur :)
Stundum hægt að segja um Björgvin að hann sé skárri þegar hann er verri.

Kveðja,
Ásgeir, Inga börn og brummbrumm

Villa sagði...

Þið sem eruð svekkt út í danskinn eftir handboltann, smellið endilega á linkinn hér fyrir ofan, hjá ásgeiri, ingu og rest...alveg makalaust skemmtilegt myndband þar!