Líf í árvekni: Stækkandi Skotta

föstudagur, 5. janúar 2007

Stækkandi Skotta

Þótt skammt sé liðið af árinu hefur Skottan frá áramótum þegar tekið tvö mikilvæg skref í átt til óumflýjanlegra fullorðinsáranna og teygst allverulega á henni við það, jafnt í eigin augum sem okkar, stoltra foreldranna, svo hún virðist nú gott betur en tveggja og hálfs. Hið fyrra skrefið kostaði að visu samstarf við yfirnáttúrulegar verur og nokkrar samningaviðræður (ekki alveg átakalausar á lokasprettinum); fjórtándi jólasveinninn, hann Snuddusníkir, kom í heimsókn aðfaranótt nýársins og hefur eflaust verið glaður við þegar hann leit ofan í rauða stígvélið Skottunnar við gluggann því þar blöstu við honum sjö fallegar snuddur í margvíslegum litum. Í skiptum fyrir þessa veglegu gjöf lét hann fallegt pennaveski fullt af tússlitum og teikniblokk, sem vakti mikla ánægju á nýársmorgni.
Stöku sinnum hefur verið spurt um snuddurnar góðu síðan en ekkert tár hefur fylgt upprifjun þessa merkisviðburðar, þegar jólasveinninn fékk að fara með þær allar upp í fjöllin. Kannski hefur hann hengt þær á jólatréð sitt...

Síðara skrefið, að kveðja bleiuna blessaða, hefur haft tveggja vikna aðdraganda, en framfarirnar í þessari viku eru stórar: Skottan notar nú klóið bæði heima og á leikskólanum frá morgni til kvölds og borðar súkkulaðirúsínur frá Nóa Síríus í stórum stíl fyrir hvert unnið afrek að þessu leyti (3 stk. fyrir nr.1 og 6 stk. fyrir nr.2).

Á þremur dögum hefur rútínan breyst frá því að foreldrið situr yfir afkvæminu á baðherberginu í hálfan til heilan klukkutíma eftir kvöldmatinn þar til árangur næst, yfir í að Skottan tilkynnir nú um yfirvofandi aðgerðir, labbar sig sjálf fram á kló, skellir á eftir sér hurðinni um leið óg hún skipar fullorðnum að halda sig fjarri þessu prívatmáli, girðir niður og upp sjálf eftir þörfum, kemur síðan fram aftur að málinu afgreiddu, dansandi af gleði og tilkynnir: ,,Þinnú dulleg! Ðúþínu!"

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt árið.
Er mætt í "bonnie" Edinburgh ef þið þurfið aðstoð.

kv, Kolbrún of Warrender Park

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Velkomin heim, kæra Kolbrún og takk fyrir það! Heimasætan kemur þann níunda og "Dagurinn" með stórum staf verður þann tólfta. Líttu endilega hingað á 132 Gilmore Place í kaffibolla ef þér gefst tími til í vikunni.

Nafnlaus sagði...

Meira krúttið! Til hamingju með hana. Ég trúi ekki að ég sé sjálfviljug að byrja aftur á þessum bleyjupakka, ég hlýt að hafa étið sýru þegar ég stakk upp á þessu.

Nafnlaus sagði...

Aldeilis dugleg hún Sigrún Ugla og byrjar árið vel! sendi verðlaun eftir fáeina daga , þrettándakveðjur frá ömmu!!!

Katrín sagði...

sæt mynd!!!

Nafnlaus sagði...

Ég hló svo mikið að þessari frásögn að tárin láku niður kinnarnar, hún er nú meira krúttið þessi frænka mín :o)

Kysstu hana til hamingju með stóráfangana frá okkur hérna í Fífulindinni.

Kærar kveðjur Auður Lilja