Líf í árvekni: Nautnir töskufíkils

sunnudagur, 7. janúar 2007

Nautnir töskufíkils

Eitt af því sem gerir mig hamingjusama er að finna og kaupa mér nýja tösku. Gleðin sem hríslast um mig þegar ég eftir langa leit finn réttu töskuna, þessa sem er nákvæmlega eins og ég vil hafa hana, er nær því ólýsanleg. Og endurtekur sig í hvert sinn sem ég lít á gripinn og viðhelst lengi eftir að ég byrja að brúka hann. Ég hef heyrt um konur sem fá eitthvað kikk út úr skókaupum (makalaust merkilegt eins og það er hrútleiðinlegt og erfitt að kaupa almennilega skó), og þær kannski skilja hvað ég er að tala um.

Minn heittelskaði hefur svipaða nautn af því að fara í ritfangabúðir og yðar einlæg af að valsa um töskubúðir; munurinn á okkur er þó sá að hann kaupir eiginlega aldrei neitt af þessum hefturum, pennastatívum eða möppum sem hann er að dást að en ég fæ mér tösku ekki sjaldnar en árlega, jafnvel oftar. Vitanlega hefur komið fyrir að kona hafi gert smámistök, eins og í brúðkaupsferðinni í Róm, þegar ég keypti af götusala krúttlega tösku frá Afríku sem ég hef ekki notað ennþá. Það er svo sem ekki útilokað að ég muni nota hana í útstáelsi einhvern tímann en einhvern veginn er hún of lítil til að rúma þessa fáu hluti sem ég þarf að hafa með mér hvert á land sem ég fer, og situr því upp í skáp ásamt nokkrum öðrum stallsystrum sínum sem hafa fengið pásu eða jafnvel "early retirement."

Nú er náttúrulega ekkert til sem heitir hin fullkomna taska, þótt leitin að henni muni standa yfir á meðan ég stend í fæturna, því eins og minn heittelskaði hefur bent á myndi leitinni þá linna - og þar með nautninni af því að skoða, meta, fussa yfir útliti og háu verði og kannski, kannski ramba á eina góða. Því gleðin er ekki bara í því að kaupa og hafa með heim, heldur líka að sjá að taskan sem ég er með á öxlinni núna er svona líka miklu betri og flottari en þetta dót sem er til sölu í þessari búð og ég fæ enn eitt kikkið út úr því að hafa valið svona líka asskoti vel við síðustu töskukaup. Ekki spillir þegar maður fær gripinn á góðu verði - þótt verð sé auðvitað engin fyrirstaða ef taskan er algjört verð-að-fá. Það er ekki eins og maður sé að spreða í dótarí svona dags daglega og samviskan tárhrein að því leytinu.

En að réttu töskunni. Hún hefur um nokkuð langt skeið verið með breiða og nógu langa axlaról þannig að ég geti haft hana á hægri öxl hangandi á vinstri mjöðm. Ekki bara af því að það er mjög kúl heldur líka af því að vefjagigtin leyfir ekki annað en álaginu sé dreift með þessu móti. Auk þess þarf taskan að vera tiltölulega létt í sér af sömu ástæðu og því var nú aldeilis gaman í fyrrasumar þegar ég fann mér eina úr hampi, litla , sumarlega og mátulega netta í hraðstíga spássertúra um miðborgina þar sem ég hentist á milli búða í lkapp við tímann í leit að prinsessukjól á Skottuna, prinsessusokkum, hárskrauti, sparibuxum á Snúðinn og perlum fyrir sjálfa mig og svo framvegis vegna brullaupsins. (Keypti reyndar enga tösku í tilefni þess, skil ekki af hverju ég sleppti því. Of önnum kafin líklega, maður flýtir sér ekki við töskukaup.)

Taskan góða má alls ekki hafa neins konar málmskraut, best ef sylgja og smella eða lokunargræja eru nær alveg ósýnilegar, einföld sem sé og klassísk. Kögur, semalíusteinar og áberandi vörumerki eru eitur í mínum beinum og fá ekkert annað en verðskuldað hnuss. Taskan þarf sömuleiðis að vera brúnleit, má vera út í örlítið rautt ef það fer vel með leðrinu. Og það er bara leður eða strigi/hampur/tau sem koma til greina. Mjúkt, verkað leður er best, létt í því. Já, leðurlíki er sosum í lagi, ef það er verulega sannfærandi. Betra en ansk. grjótstíft, ,,highest-quality that will last you for 20 years!" leðrið sem selt er í ítölsku töskubúðinni á Princes Street af óþolandi uppáþrengjandi sölumönnum sem móðgast persónulega ef maður er ekki fyrir það sem þeir stinga upp á og troða upp í andlitið á manni. Arrg!

En sem sagt, svo maður komi sér nú að myndefninu hér fyrir ofan, þá var töskuleiðangur gærdagsins algjörlega fullkominn. Taskan sú til hægri hefur þjónað mér vel og lengi, (einsog sést á slitinu) svo lengi að ég man ekki einu sinni hvaða ár ég keypti hana, en hún er alla vega úr töskubúðinni á Laugaveginum. Passar akkúrat utan um peningaveski, síma og varalit en dagbókinni verður að troða þarna niður og varla pláss fyrir eitt Always Ultra Normal í innanávasanum (já, ég er enn í landi lifenda!). Og axlarólin er heldur stutt fyrir þversumburð yfir vetrarkápuna (eins og sést á myndinni til hægri, úr Jórvíkurferðinni). Því hefur dýrindið til vinstri við hana nú tekið við störfum og er enn nóg rúm þótt ég hafi líka litlu glósubókina sem ég krota í af og til þegar ég er byrjuð á nýrri bók, vettlinga, snýtubréfapakka, kilju að lesa í á biðstofum og eitthvað smádót fyrir Skottuna.

Snilldin við nýju töskuna mína, fyrir utan það nú hvað hún er rosalega fín, er að hún kostaði barasta minna en nokkur taska sem ég hef áður augum litið: Skitin 19 pund og 99 pens! Þið náttlega gapið yfir þessum ólíkindum, en skýringin er einföld: Karlmenn láta ekki bjóða sér að borga tugþúsundir fyrir töskur, vilja hafa þær einfaldar, praktískar, þægilegar og kúl. Þessi er sem sé úr karladeildinni í River Island. Töskudótið í kvennadeildinni var allt saman í semalíu/kögur og fruns-lúkkinu og þar að auki var þar alveg stappað af konum á janúarútsölunni. Bergmálaði af fámenni í karladeildinni aftur á móti, fleiri starfsmenn en kúnnar. Það voru til fjórar gerðir af töskum í karladeildinni, allar flottar og allar á verðbilinu 15-20 pund. Hér eftir mun ég eingöngu leita að töskum í karlmannadeildum tískuverslana. Gúddbæ, troðnu töskudeildir í Debenhams og Accessories!

Kær kveðja, hamingjusami töskufíkillinn.

4 ummæli:

Njóla sagði...

Til hamingju með töskuna.
Nýársknús Njóla

Kolbrún sagði...

Vá hvað ég þekki þetta með töskurnar og sömuleiðis skókaup. Ég nefnilega held ég kaupi tösku hvar sem ég fer (keypti reyndar enga á Ítalíu í sumar) en þoli ekki skókaup. Við þiggjum kaffi með þökkum. Okkur veitir ekki af að fara í göngutúr og labba af okkur jólaskvapið :) Kannski við fáum okkur göngutúr bara strax á morgun mánudag eftir skólann hjá Óðni.
já og til hamingju með töskuna hún er flott ... á eina soldið svipaða sem ég keypti einmitt í USC á 30 pund í karladeildinni.

Kolbrún

Ljúfa sagði...

Frábær færsla!

Ég ber líka svona tilfinningar í brjósti til taskna(?) sbr. færslu í byrjun desember.

Auður Lilja sagði...

Hjartanlega til hamingju með töskuna systir kær, hún er alveg sérstaklega fín.
Alveg sammála með karladeildirnar, það eru mun flottari töskur þar :O)
Risaknús
Auður