Líf í árvekni: Í samhljómi við veröldina

mánudagur, 22. janúar 2007

Í samhljómi við veröldina

Suma daga finn ég betur en aðra að ég er í flæðinu - í samhljómi við veröldina, þannig séð. Dagur í flæðinu, fyrir þá sem ekki kannast við orðalagið, er dagurinn þegar píparinn er kominn og búinn að gera við leka eldhúskranann 20 mínútum eftir að kona hringdi í leigumiðlunina og bað um aðstoð. Eins og gerðist hér fyrir helgi.

Lekinn var reyndar allt að því foss en með því að leggja lóð ofan á kranann stjórnlausa tókst að hindra flóð. Leigumiðlunin sem brást svona snöggt við var í fyrra þrjár vikur að senda meindýraeyði á mýsnar okkar (hann veiddi engar, en Björgvin níu stk.). Tók þá fjóra mánuði að senda okkur pappíra sem við áttum að fá við afhendingu á íbúðinni.

Að vera í flæðinu getur líka falið í sér að það er alltaf grænt einmitt þegar þú kemur að umferðarljósunum. Allir brosa til þín á götunni og það er allt á "tveir fyrir einn" sem þig vantar í kaupfélaginu. Fólk, kunnugt eða ókunnugt, hringir í þig, sendir skilaboð eða bréf og segir einmitt það sem kona þarf á því að halda þá stundina. Bendir á góða bók. Svona eru dagarnir hjá yðar einlægri núna.

Hef verið að lesa um helgina bók sem heitir The Secret, keypti hana eftir ábendingu af þessu tagi úr flæðinu. Þar eru áréttuð fræði sem kona hefur heyrt áður af og nýtt sér í gegnum tíðina, mest kannski í fjármálunum, sem ganga út á að draga til sín það sem gott er með því að átta sig á því hvað konu langar til og í, biðja almættið um það af öllu hjarta, trúa því að það komi og treysta Guði fyrir restinni. Þakka svo fyrir allt sem kemur, hvað svo sem það er - enda einhver lexía í öllu.

Þessi leið hefur nýst mér vel í fjármálunum; hætti á sínum tíma að hafa áhyggjur af því að ég hefði ekki nóg, treysti því að mér leggðist alltaf eitthvað til og hef síðan haft alveg nóg. Þegar ég hætti að horfa með skelfingu á gluggapóstinn og opna umslögin með eftirvæntingu fóru þau oftar en ekki að innihalda ávísanir í stað reikninga.

Bókin góða rifjaði þetta upp fyrir mér svo að í morgun ákvað ég að gera dálitla tilraun. Þurfti til tannlæknis í rótfyllingu, fyrri áfanga, og átti pantaða tvo tíma til verksins, þann seinni í febrúarbyrjun. Ekki alveg skemmtilegasta byrjun á deginum. Svo að ég hugsaði sterkt um það á leiðinni - og blár himinninn yfir Edinborg hjálpaði til - hvað þetta myndi verða algjörlega sársaukalaust, taka stuttan tíma og vera að baki áður en ég vissi. Helst myndi þetta nú bara klárast í einum áfanga. Og yrði ódýrt í ofanálag (vissi reyndar fyrir að svo yrði, þar sem tannlækningar eru niðurgreiddar hér í landi fyrir alla).

Það var grænt á öllum gönguljósum þegar ég kom að þeim og trúin styrktist eftir því sem nær dró. Það fyrsta sem tannsi segir mér þegar ég er sest í stólinn er að hann ætli að reyna að klára þetta í einum áfanga, þó ekki víst að það náist tímans vegna. ,,Það næst," sagði mín keik og gapti. Deyfing og enginn sársauki eftir það. Ekki vitundar ögn óþægilegt, klinkurnar tvær hvor annarri brosmildari og andrúmsloftið makalaust notalegt. Mín í slökun og alveg að sofna þegar doktor Alistair McGill segist nú kannski ekki ná að ljúka verkinu í þessum tíma. ,,Nú er sá sem á næsta tíma að fara að afpanta hann," hugsaði ég ótrauð og gapti áfram.

Það gerðist reyndar ekki, svo ég sé nú alveg heiðarleg (sagan hefði verið betri þannig) en augnabliki síðar sagðist tannsinn hins vegar ná að klára þetta samt sem áður, því forvinnan hefði verið svo fín hjá neyðartannlæknaþjónustunni (sjá Jórvíkurtannpínublogg frá í nóv.). Yðar einlæg skoppaði glöð í bragði heim á leið stuttu síðar, skitnum 92 pundum fátækari (vona að María tannlæknirinn okkar í Reykjavíkinni sé meðal lesenda!), kom við í kaupfélaginu og keypti tvo pakka af Special K-kornfleksi (tveir fyrir einn!), og sótti verkjapillureseft og læknisvottorð fyrir minn heittelskaða hjá heilsugæslustöðinni, en það síðarnefnda átti reyndar ekki að vera tiltækt þar fyrr en á morgun. Þær pillur sem vantaði strax voru til á lager í apótekinu, sem er aldrei með neitt á lager að öllu jöfnu, en þær sem ekki vantar fyrr en síðar í vikunni má ég sækja á morgun.

Miðdegis var svo myndin hér að ofan tekin, á horninu við Bruntsfield Place, þar sem við Skottan og minn heittelskaði heimsóttum pósthúsið og borguðum þar rafmagnsreikninginn (50 pundum lægri en sá síðasti) og drógum að okkur frískandi vetrarloftið.

Hugrakki prinsinn geystist upp brekkuna á leiðinni svo að yðar einlæg mátti hafa sig alla við að halda í við hann. Lúinn nokkuð eftir labbið þegar heim var komið, og þurfti kríu eftir en þetta er allt í áttina. Á miðvikudaginn, sagði mér hjúkka í síma í dag, fær hann kannski stera til að auka sér orku yfir daginn. Skurðurinn á gagnauganu grær svo vel að nú á tíunda degi er hann vandséður. Og skeggið er að verða jafngróskumikið og fyrir aðgerð ;o)

11 ummæli:

mamma sagði...

Meiriháttar! Til hamingju með þetta allt saman!Sendum ykkur orkustrauma héðan frá'Isafoldu !Kærleikskveðjur Mamma og pabbi

Ólöf María sagði...

Kæru þið
Ég kíkti inn á síðuna ykkar fyrir nokkrum dögum og er búin að lesa heilmikið af fyrri færslum. Það er mjög gaman að lesa skrifin þín, Vilborg. Mér finnst þessi lýsing þín á deginum og flæðinu alveg frábær. Kannast alveg við svona daga en það sem þú opnaðir augu mín fyrir var að maður getur líka valið að búast við þessu góða gengi og ákveða að hlutirnir eigi að ganga upp. Það gerir lífið mun léttara. Takk fyrir mig og gangi ykkur vel í baráttunni við drekann.

McHillary sagði...

Hæ elskurnar.
Labbitúr um götur Edinborgar kallar svo sannarlega fram í manni þetta með flæðið. Gott að þetta gekk vel hjá tannsa og ég kalla þig góða að hafa lagt í bresku tannsana eftir allar hryllingssögurnar sem maður hefur heyrt.

En jæja, vona að þú hafir séð frá mér sms og póstinn í dag, Villa mín. Langar til að koma til ykkar á morgun e. vinnu, vona að það henti ekki illa.
Hlakka til að sjá ykkur.

Palli sagði...

Góður dagur í góðu flæði. Einn af mörgum! Og ekki bláa himninum að þakka heldur afstöðu ykkar og viðhorfum. Þið eruð alveg með eindæmum æðrulaus og hugrökk alltaf hreint og þá geta forlögin ekki annað en dansað með...
Góðar kveðjur héðan frá Lundúnum. Sjáumst á miðvikudaginn.

Þórir Þórisson sagði...

Það eru einmitt svona blogg sem að minna mann á af hverju þú Vilborg ert búin að gefa út 5 bækur....... en við hinir bloggararnir enga!!!!! Þetta var fyrsta flokks ritverk!!
The Secret er örugglega mjög góð bók og virðist einmitt sýna hvað jákvæður hugsunarháttur er mikilvægur. Eitt enn dæmi um jákvæðni......... ef Björgvin hefði ekki farið í heilaaðgerð, þá hefðuð þið örugglega ekki fengið pípara til að stoppa lekann fyrr en í Júlí!!!

Þá koma hér spurningarnar sem að ég var búinn að lofa Björgvini. Þetta eru 8 “já/nei” spurningar, sem eru sérhannaðar af frægustu Taugasálfræðingum í heimi, undir tryggri yfirsjón minnar. Hámarks umhugsunartími fyrir hverja spurningu eru 2 klukkust........ Þetta er allt af fullri alvöru, eða hálfri a.m.k. Vilborg þú þarf að lesa þessar spurningar fyrir Björgvin og skrá niður stigin........ Já og byrjaðu nú!!!

1. Er hægt að keyra frá Íslandi til Skotlands?
2. Heitir konan þín Edinborg?
3. Er æskilegt að nota tannkrem og tannbursta til að raka sig?
4. Var Barbapabbi einn af Smjattpöttunum?
5. Er búið að finna Geirfinn?
6. Eru 28 dagar í Janúar? (trick question....he,he)
7. Má keyra ef það er rautt ljós? (já, já ef þú ert kominn framhjá umferðarljósinu)
8. Var blátt hubba-bubba......blátt á litinn?

Átta stig fást fyrir að svara öllum spurningum. Eitt aukastig fæst fyrir hvert rétt svar. Eitt aukastig fyrir að brosa yfir heimsku hverrar spurningar.... og 3 augastig fyrir að hlæja að einhverri spurningunni.

Kveðjur frá Minnesota.........Þórir

Jóhanna sagði...

Gott að Lífið gengur svona vel hjá ykkur Villa. Og þú ert frábær penni, svei mér þá, ég þyrfti að fara að glugga í bækurnar þínar, hef enga lesið.mmm best að gera það sem fyrst
kveðja úr firðinum
Jóka

Nafnlaus sagði...

Það hefur aldeilis verið flæði á torfunni, var einmitt á ykkar slóðum í gær í miklu flæði, sá bara græn ljós og allt gekk eins og í sögu :) Frábært hvað allt gengur vel hjá ykkur. Kveðja Kristjana

Ljúfa sagði...

Gott að vita að veröldin er ykkur hagstæð.

Ég ætla að tileinka mér þennan hugsunarhátt.

Nafnlaus sagði...

hæ elsku vinkona ég hugsa til ykkar á hverjum degi

lyklaborðið mitt er ónitt, tok´mitg óratíma að skrifa þessi fáu orð svo skiljanle5tg væru.

é5tg bíð eftir n´6yhju l6yhklaborði þá skrifa ég þér emil, þangað 5til kveiki é5g á ker5ti og sendi hu5tgsanir

Lovja
&YHlíf R

Mamma sagði...

Hugsa til ykkar í dag! vona að fréttirnar verði góðar ! 'Astar og baráttukveðjur! mamma.

Gunni sagði...

Erum að skoða hótelin á svæðinu og gerum ráð fyrir að stoppa við á heimleiðinni ... ´þar sem við komum daginn fyrir skotapils-brúðkaupið í Glasgow. Nánari uppl. síðar. Hér er 50-100cm snjór yfir öllu og ekkert um græn tré eins og þarna fyrir sunnan í vætunni. Kveðja til allra og gangi vel á morgun (set puttana í kross).