Líf í árvekni: Saumatökudagur

föstudagur, 19. janúar 2007

Saumatökudagur

Það er vart að kona trúi því að það sé bara vika liðin frá því að minn heittelskaði lá hálfan dag á skurðarborðinu með gagnaugað opið og átta manna lækna- og hjúkrunarlið að stússast í kollinum á sér. Tíminn er skrítið fyrirbæri -afstæður býst ég við - því á einhvern óútskýranlegan hátt er eins og föstudagurinn fyrir viku hafi átt sér stað í öðru lífi.

Um hádegisbilið í dag kom hingað þessi indæla umdæmishjúkka og plokkaði kapmellusporin 22 úr drengnum, Skottan að skottast í kringum þau á meðan og talaði um að nú væri verið að ,,,taka meiddi pabba." Hjúkrunarkonan veitti góðfúslega leyfi fyrir myndatökunni, dálítið hissa á bóninni, og sagðist ekki hafa fengið slíka síðan hún starfaði sem ljósmóðir..!

Bloggið verður í styttra lagi í kvöld; við Laggan mín búnar að mýkja okkur á dálitlu hvítvíni frá Frans og kominn háttatími eftir langan dag við þvotta og annað stúss ;o) Vildi bara segja ykkur fyrir nóttina að það er alveg ómetanlegt að fá frá ykkur kveðjurnar hingað á bloggið, hressir, bætir og kætir, líkt og besta ópal fyrir andann (eða var það maltið?) og hafið okkar bestu þakkir fyrir það.
Sumir eru vitanlega feimnari en aðrir (við sjáum ykkur í gegnum teljarann!) og einhverjir senda kannski bara línu í tölvupóstinn, sem er líka hið besta mál. Botna þetta að deila með ykkur sendingu frá fyrrum vinnufélaga Björgvins m.m. í Iðnskólanum í Hafnarfirði sem barst honum einmitt með emil í vikunni. Góður Hermann...

9 ummæli:

Þórir Þórisson sagði...

Þetta er nú aldeilis glæsilegt. Einni viku eftir mína fyrir aðgerð þá fékk ég endalaus flog.... talaði mest með heimatilbúnu táknmáli.... mundi engin símanúmer.... gat ekki reiknað hvað 3X7 var mikið.... gat ekki lesið neitt... gat ekki sagt hvað klukkan væri..... og hélt að Pamela Anderson væri konan mín!!!!! (Kannski var þetta síðasta nú bara óskhyggja)

Þannig að þetta er eins gott og á verður kosið hjá ykkur. Ég sendi þér svo næst nokkrar "já og nei" spurningar Björgvin, svo að Vilborg geti tékkað á því hvernig heilastarfsemin er "í alvöru" eftir aðgerðina (he,he)

Bestu kveðjur frá Íslenska víkingnum í MPLS........ Þórir

Gunni sagði...

Bið að heilsa.. Gaman að fylgjast með sporunum bæði þessum sem tekin eru úr hársverðunum og þessum sem tekin eru áfram.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ
Ég er ein af þeim sem kíki á "hljóðlega" blogið á hverjum degi. Gott að heyra hvað allt gengur vel og vonandi gengur þetta allt vel áfram. Þekki vel tilfinninguna um að linir atburðir hafi gerst í öðru lífi, á tímabili beið ég eftir því að einhver kæmi og segði okkur að tökum á bíómyndinni væri lokið og við mættum aftur fara í gömlu hlutverkin okkar s.s verða við sjálf.
Kveðja
Dedda

kolbrun sagði...

Aftur bestu kveðjur frá St. Catherine's Convent og okkur á Warrender Park.

Kolbrún

Sirra sagði...

Komið þið sæl!
Mikið er gott að geta fylgst með ykkur á síðunni. Ég vil bara segja ykkur að þið eruð hetjur og ég veit að þetta fer allt vel. Það er ótrúlegt að sjá hann frænda svona hressilegan eftir svona mikla aðgerð. Gangi ykkur vel og við verðum í sambandi.
Sirra

Nafnlaus sagði...

Hæ Villa og þið öll.Þetta er nu i fyrsta skipti sem eg sendi nokkuð a tölvu.Ég hef haft ánægju af blogginu þínu.Þið eruð ótrúlega dugleg.Það er uppörvandi fyrir aðra að sjá hvað þið höndlið aðstæðurnar vel.Ég hef líka komist á góðar bútasaumssíður gegnum síðuna.Hugsum til ykkar. kveðjur frá okkur öllum. Tóta tengdó Auðar

Nafnlaus sagði...

Brosandi skaltu ganga.
brosandi skaltu ganga þinn veraldarveg
ef von þín er traust og ætlunin frambærileg.
Ekki skaltu með andvörpum ryðja þér leið.
'Anægja þín á að víga þitt baráttuskeið.
Daglætin renni sem dáðir í göngunar sjóð.
Dagmálagleðin skal semja þitt kvöldvökuljóð.

Guðmundur Ingi .
'Astar og hvatningarkveðjur
mamma

Auður Lilja & Tommi sagði...

Elsku hjón!
Við vorum að koma heim eftir að hafa dvalið á Lútherskri hjónahelgi alla helgina.
Stórkostleg helgi að baki og yndislegt að vera komin heim.
Ákvað að kíkja aðeins á "uppáhalds" síðuna mína og athuga hvað væri að frétta af Edinborgurum þar sem við höfum verið að hugsa mikið til ykkar.
Sendum okkar allra bestu kveðjur til ykkar elsku Villa , Björgvin, Katrín , Sigrún og ekki má gleyma Löggu :o)Villa mín, ég kem seint heim annað kvöld en læt heyra frá mér á þriðjudaginn er ég verð komin niður á jörðina aftur :o)
Hafið það sem allra best og verið góð hvort við annað :)
Kærleikskveðja
Auður & Tommi

Nafnlaus sagði...

Vil bara kvitta fyrir komu minni. Ég verða viðurkenna að ég hef velt því fyrir mér hver myndi hafa unnið HM á þessum tíma.
Gangi ykkur vel og vonandi verða fréttirnar þann 24. góðar.
þva
Matta