Þegar ég mætti á vaktina um ellefu í morgun var Björgvin búinn að fara í sturtu, smeygja sér í sín eigin (spánýju jóla-) náttföt og sitja í ,,mínum" stól í klukkutíma. Búið að taka af honum allar græjur, jafnt fótanudd sem vökva í æð og þvaglegg og bólgan í andlitinu sýnilega minni, þvert ofan í það sem læknirinn hafði sagt mér í gærkvöldi, þ.e. varðandi það síðastnefnda, en hann hafði varað mig við því að bólgan myndi vaxa næsta sólarhringinn.
Þar sem mér þótti pilturinn nokkuð brattur bauðst ég til að lesa nú fyrir hann bloggin mín og kveðjurnar ykkar undanfarna tvo daga, sem hann hafði ekki treyst sér til að hlýða á í gær fyrir þreytu, en þá rétti hann höndina eftir bunkanum og sagði hæglátlega, eins og hans er vandi: ,,Leyfðu mér að sjá þetta."
Las sig svo sjálfur í gegnum bunkann á ótrúlega skömmum tíma, glotti út í annað við að sjá kommentið frá Gumma (!) og strauk tár af hvarmi þegar hann lét mig hafa blöðin aftur. Ég ætlaði varla að trúa eigin augum og spurði hann aðeins út í efnið, svona til að vera viss um að hann væri ekki að þykjast neitt en það var alveg ljóst að hann getur lesið vandalaust, sagðist reyndar vera aðeins lengur að því en venjulega en mér sýndist litlu muna.
Nóttin var sæmileg, nokkrir verkir og vakinn tvisvar, en í dag hefur Björgvin verið verkjalaus og borðaði ágætlega í hádeginu, lítið reyndar eftir það (nema 11 pillur sem ég taldi ofan í hann kl. 18), en var duglegur að drekka eins og hjúkkurnar skipuðu honum, enda mikilvægt þegar vökvinn er farinn úr æðinni að koma ræstikerfi líkamans í gang aftur.
Eins skipti miklu í dag að sitja eins og hann treysti sér til þannig að bólgan rynni fyrr úr andlitinu, og það hefur hún vissulega gert eins og sést á myndinni - dökkgulur litur hins vegar að koma á glóðaraugað. Hann spáir því sjálfur og segist tala af reynslu (sem Guðmundur og Kristján geta kannski sagt mér eitthvað meira frá?!) að það taki tíu daga að losna alveg við glóðarauga (!).
Þessi afrek sem að ofan eru talin tóku talsvert á og hann var gríðarlega þreyttur í dag, eiginlega örmagna og ósköp feginn að fá dálítinn svefnfrið seinnipartinn þegar friður komst á deildina um miðdegið eftir tékk, gestagang á stofunni og annan umgang.
Whittle skurðlæknir, sem kom í heimsókn til hans um áttaleytið í kvöld, lofaði því hins vegar að honum myndi hafa aukist þrek strax á morgun eftir góðan nætursvefn. Þá stendur til að bæði sjúkraþjálfi og iðjuþjálfi komi í heimsókn; Whittle sagði honum þó að ráða því sjálfur hvort hann vildi eitthvað við þá tala eða hreyfa sig fram úr. ,,If not just tell them to piss off," sagði prófessorinn vingjarnlega.
Doksi var mjög ánægður með framfarirnar og sagði að með sama áframhaldi gæti Björgvin jafnvel fengið að koma heim strax á þriðjudaginn. Það fór satt best að segja dálítið um yðar einlæga við þessi orð, en vísast verður minn maður bara ,,orðinn hress á morgun," svo ég vitni í hans eigin orð. Guð láti gott á vita.
Hér heima á Gilmorestöðum hefur Skottan tekið þvílíka ást við "Löggu" sína (Röggu vinkonu) að Katrín stórasystir og mamman mega hvorki hjálpa á klóinu né lesa kvöldsöguna; bara "Lagga mín hjáppa Þinnú!" Hún ávarpar Ragnheiði ekki öðruvísi en skeyta "mín" fyrir aftan nafnið, sem vitanlega opnar henni allar dyr, jafnt í lestri sem peruáti (3 perur í gær) og óvíst með sama áframhaldi hversu margar bækur faðir hennar þarf að komast í gegnum fyrir nóttina þegar hann tekur aftur við kvöldsögulestrinum!
p.s. á mánudeginum: Kæra Kolla/ættingjar og vinir Sigrúnar eldri, mikið væri gott ef einhver gæti prentað út bloggið og myndina hér að ofan og fært henni í Hamraborgina, ég veit það myndi gleðja hana að sjá hvað strákurinn hennar er orðinn bratttur.
-V.
9 ummæli:
Gaman að heyra að allt gengur vel :D
kv Lilja Kópavogi ( ókunnug )
Það yljar um hjartaræturnar að heyra hvað batinn er góður, ég held sveimérþá að það virki að senda góðar hugsanir og bænir á ögurstundum. Björgvin minn það er gott að sjá hvað þú lítur vel út, ég reikna með að fá nánari lýsingar á þessari reynslu þegar við heyrumst næst. Þakka ykkur báðum fyrir að leyfa okkur hér að fylgjast svo náið með framvindu mála, það er ómetanlegt.
/Gummi
PS. Ég og Stjáni verðum að koma í heimsókn og útskýra ýmislegt þegar fram líða stundir... það tekur nokkra daga...
Frábært hvað allt gengur vel. "Lagga mín" er gælunafn sem erfist í minni fjölskyldu, ég ber það enn á góðum stundum en líklega fer að koma að því að ný Lagga taki við.
7-9-13
Bjössi bróðir
A big get well soon from the McDonald clan.
Kæra Villa og Björgvin.
Óska ykkur áfram til hamingju með góða framvindu. Þetta er kraftverki líkast. Ykkar góða og jákvæða hugarfar kemur til viðbótar öllum hlýjum straumumum héðan og þaðan. "Sumir" taka sig vel út í jólanáttfötunum og bara gera eins og á jólunum taka það rólega og náttúrlega fá sér konfektmola. Er búin að prenta út af síðunni og fer með það til Sigrúnar í dag. Gangi ykkur vel.
Kær kveðja Kolla frænka.
Sæl Súperman hjón.
Hér köllum við það gott að vera svona brattur, því útlitið er nú héðan frá séð eins og kappinn hafi verið ca. 6 tíma að slást í boxhring :-) Eru tjallahjúkkurnar svona grimmar að það er ásættanlegt að fara heim eftir svona fáa daga ? Þegar karlhelmingur undirritaðra lá á Bogganum um árið, var gert í því að bera sig illa til að fá að vera aðeins lengur, þær voru svo gullfallegar og yndislegar hjúkkurnar... :-)
Bestu kveðjur af Skeljagrandanum.
Hrefna & Kiddi
P.S.: Elín og Herdís biðja fyrir góðar kveðjur úr Garðabænum, við sýndum þeim bloggsíðurnar í gær, þegar við skruppum í heimsókn.
Kæri Böbbi.
Bati þinn er ótrúlegur og er eflaust að þakka meðfæddri hörku, Kimewazauppeldi og færni prófessors Whittle. Ég talaði við gamlan félaga á íslandi, Hlyn N. Grímsson krabbameinslækni í kvöld. Hann kannaðist svo sannarlega við Prófessor Whittle og sagði hann heimsmeistara í þessum fræðum öllum. Lagði blessun sína yfir þetta allt að svo miklu leyti sem hann gæti leyft sér að hafa skoðun á áliti supersérfræðinganna. Bauð mér að hafa samband hvenær sem væri ef þörf væri á frekari umræðum eða öðru sjónarhorni. En hann var sannarlega mjög jákvæður.
Hlakka til að spjalla mjög fljótlega.
Palli
Á dönsku heitir þetta víst að hafa hul i hovedet. Við sendum bataóskir frá Kaupmannahöfn.
Skrifa ummæli