Líf í árvekni: Einu sinni var...

mánudagur, 8. janúar 2007

Einu sinni var...

Skottan okkar fékk þá skemmtilegu bók í jólagjöf frá ömmu og afa fyrir vestan sem ber titilinn Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar. Skötuhjú þessi ná saman eftir að hugrakki prinsinn hefur, eftir þó nokkra leit að prinsessunni, gengið frá dreka einum og að því búnu eignast þau sæl og glöð mörg börn sem öll eru einstaklega fögur, stillt og kurteis, prúð, ljúf, góð, prúðbúin, hæglát og hógvær og svo framvegis.

Nú kannast flestir þeir sem hér renna augum yfir línur við að yðar einlæg hefur sterka tilhneigingu til þess að vilja hafa skáldlegan blæ á lífinu og vita sem er að hún hefur þegar sett sig í hlutverk prinsessunnar undurfögru og sinn heittelskaða ektamann í sæti prinsins hugrakka.

Reyndar er ekki allt sem sýnist og ýmislegt kynlegt og óvænt gerist bæði i sögum og lífinu sjálfu. Teikningarnar í bókinni passa hreint ekki með textanum; prinsessan undurfagra er hreint ekkert stillt og góð heldur óskaplegt frekjuskass og grenjuskjóða, hugrakki prinsinn er blindur og ríður á asna og drekinn hræðilegi er svo meinlaus að hann spilar á spil við sauð á meðan hann á að vera að vakta prinsessuna fyrir vonbiðlum. Eins og þeir sem þekkja yðar einlæga vita á þessi prinsessulýsing auðvitað engan veginn við hana mig (þegið þið, bræður fjórir!) og skilja vísast ekki hvaðan á þá stendur veðrið þegar hér er komið.

Engu að síður er samlíkingin ekki allsendis óviðeigandi; til dæmis tók það ákaflega hugrakka prinsinn minn - að eigin sögn – ein 30 ár að hafa upp á prinsessunni sinni (byrjaði leitina sjö ára), og þótt hann sé svosem langt í frá blindur hefur hann nýlega fengið sér fjarsýnisgleraugu til lesturs. Börnin okkar komu reyndar heiminn áður en brullaupið var haldið en eru rétt eins og sögubörnin öll einstaklega fögur, stillt og kurteis, prúð, ljúf, góð, prúðbúin, hæglát og hógvær og svo framvegis (sbr. mynd t.h.)

Og svo eigum við dreka og af honum hefst nú frásaga, frá og með deginum í dag. Drekinn þessi virðist við fyrstu sýn ógnvekjandi og illvígur en við erum ráðin í því að snúa hann niður í sameiningu hvað svo sem hann derrir sig, rétt eins og hjúin í sögunni góðu. Við vissum ekki að hann væri fluttur inn fyrr en nýlega en hann hafði þó komið sér fyrir í leynum fyrir einhverjum árum síðan og látið lítið fyrir sér fara þar til í fyrravor. Eins og mörg ykkar vita nú þegar er þessi óboðni gestur æxli, sem greindist fyrir þremur mánuðum í heila Björgvins, nánar tiltekið fyrir ofan vinstra eyra, í þeim hluta heilans sem er kallaður gagnaugablað og mál og minni hafa stjórnstöðvar sínar.

Vinnan við að flytja drekann út úr því allra heilagasta hefst að morgni næstkomandi föstudags, 12. janúar, en þá mun Björgvin gangast undir heilaskurðaðgerð á Western General Hospital hér í Edinborg, þar sem reynt verður að fjarlægja eins mikið af æxlinu og mögulegt er. Það er í stærra lagi, aflangt, 7.7 sm. á lengdina en 3.7 sm. á breidd og um 3-4 sm. á þykktina. Að aðgerð lokinni fáum við að vita hvaða tegund það er og hversu árásargjarnt það er, en mjög góðar líkur eru á að það sé aðeins á 2. stigi af 4. stigum heilaæxla sem hafa samheitið glioma.

Á miðvikudag, þann 10. janúar, fer Björgvin (og yðar einlæg) með honum í hálfs dags rannsóknir á WGH og viðtöl til undirbúnings aðgerðinni, sem gera má ráð fyrir að taki þó nokkra klukkustundir. Hann mun síðan liggja á spítalanum í 4-5 sólarhringa og taka nokkrar vikur í að jafna sig heima við. Eða kannski bara eina eða tvær, því eins og Björgvin segir sjálfur, þá nennir hann ekki að eyða of miklum tíma í þetta vesen og er á leiðinni að hefja doktorsnámið sem hann hefur fengið inngöngu í eftir glæsilegt meistarapróf í haust, en hann útskrifaðist með meistaragráðuna í heilsusálfræði 17. nóvember sl., daginn eftir 41. afmælisdaginn sinn, tveimur dögum eftir að við fengum að vita hver staða mála var eftir MRI myndatöku.

Æxlið hefur haft nokkur áhrif á enskukunnáttu og minni Björgvins, aðallega á heiti og hugtök, og veldur honum einnig svonefndum einföldum hlutaflogum sem hefur að mestu tekist að koma í veg fyrir með lyfjagjöf frá því í október sl. Hér fyrir neðan hef ég sett sjúkrasöguna hans Björgvins frá því fyrir um ári, þegar hann varð fyrst var við að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera, fyrir þá sem vilja vita nánar hvað á undan er gengið.

Við höfum síðan ákveðið að láta hér inn á síðuna upplýsingar jafnóðum um hvernig baráttan gengur við drekaófétið, og biðjum ykkur sem eruð í samskiptum við netlausa ættingja og vini að koma þeim áfram til þeirra. Það hjálpar okkur að vita af því að fólkið okkar og vinir heima á Íslandi fylgist með okkur og þær kveðjur sem koma hér inn á meðan Björgvin er á spítalanum ætla ég að prenta út og lesa fyrir hann þar. Við erum ágætlega stemmd í slaginn eftir mikið hóglífi yfir hátíðarnar og höfum (bæði) komið okkur upp nokkrum varaforða um miðjuna, ef ske kynni að spítalafæðið yrði ekki fyrsta flokks og lystin eitthvað minni en vant er, erum þannig séð í afar góðu formi ;)

Með bestu kveðju heim á landið bláa,
prinsessan undurfagra og hugrakki prinsinn hennar.

15 ummæli:

Alda sagði...

Kæra Vilborg... ég dáist að æðruleysi þínu og þíns heittelskaða, allavega það sem lesa má á milli línanna. Ég hugsa til ykkar og bið Æðri Mátt að veita ykkur styrk og kjark, þannig að þið megið sigrast á drekanum ógurlega. Kærleikskveðja og knús.

Páll Matthíasson sagði...

Elsku vinir.
Stór áfangi að opna á þetta allt. Það er fátt mikilvægara en að vera einlægur og hreinskilinn en það þarf hugrekki til að tala um þetta- að orða ótta sinn, óvininn, drekann. Ég þekki engin hjón sem bæta hvort annað betur upp og ná eins vel að njóta þess sem lífið hefur að gefa. Ykkur á eftir að ganga vel í þessu stríði - og fá til þess hjálp Guðs og góðra vina.

Auður Lilja sagði...

Elsku Villa & Björgvin.
Takk fyrir að koma þessu svona vel á blað okkur hinum til fróðleiks.
Við hugsum til ykkar oft á dag og sendum okkar allra bestu strauma.
Þetta verður allt að baki áður en við vitum af.
Pistillinn er afburðavel skrifaður, enginn sem kæmi þessu svona vel frá sér eins og þú systir góð :o)

Mamma sagði...

Elsku Villa og Björvin!Guð styrki ykkur og styðji í þessum miklu átökum sem framundan eru!!!
Okkur finnst frábært hvernig þið takið á þessu 'AStarkveðjur !Mamma og pabbi:

Díana Ósk sagði...

Kæra Vilborg, Björgvin og börn. Takk fyrir að gera mér kleift að fylgjast með ykkur. Þið eruð sannarlega hugrakkur prins og fögur prinsessa að fást við leiðindar dreka sem vonandi er að mestu meinlaus eins og sá sem spilar við sauðinn.
Ég mun fylgjast með og senda til ykkur hlýju og kærleika og bænir mínar til hins æðri ykkur til handa.
Guð er allt í öllu.

Kærleikskveðja
Díana Ósk

Guðrún Brynjólfs sagði...

Elskulega Vilborg!

Einn dagur í einu í Al-anon, bls 100, "Þakka þér guð, ég sé nú að þyrnar hafa rósir"

Guð veri með ykkur.

Kveðja frá Ísalandinu

Nafnlaus sagði...

Elsku frænka Björgvin og börn.
Þakka þér fyrir leyfa okkur að fylgjast með.Sendum ykkur alla góða vætti héðan úr kyrrðini í Dýrafirði(Hemmi gunn getur slept þeim um stund).
Kærar kveðjur og guð veri með ykkur.
Gunna og fjölskylda.
ps; pabbi og mamma biðja fyrir kveðjur.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa og Björgvin, gangi ykkur vel í baráttuni sem framundan er.Var mjög slegin þegar ég heyrði fréttirnar um þetta.Það kallar á styrk og æðruleysi að skrá þetta niður og opna á það og deila með öðrum,en í leiðinni er það kanski úrvinnsla í ferlinu fyrir ykkur, þið standið örugglega sterkari fyrir vikið. Og þér Villa hefur nú alltaf látið vel að koma frá þér tilfinningum og hugsunum í rituðu máli.Sendum hlýja strauma til ykkar frá íslandi og guð veri með ykkur.Sendi kveðju til Katrínar og Sigrúnar líka
kveðja Kiddý

lipurta sagði...

Kæra Villa, Björgvin og börn.

Gangi ykkur allt í haginn í viðureigninni við hinn óboðna dreka.
Guð er með ykkur og hugsanir okkar og bænir líka.

Kær kveðja,
lipurtá og fjölskylda

Nafnlaus sagði...

Langbestu hjón
Ég hugsa til ykkar á morgnana þegar ég vakna, á kvöldin þegar ég fer að sofa og af og til þess á milli.
Ykkar vinkona alltaf
Matta

Magga sagði...

Elsku Vilborg.
Sendum ykkur hlýjar hugsanir og bænir.
Guð styrki ykkur.

Margrét Hallmunds og fjölskynda

Nafnlaus sagði...

Ég vona að allt gangi sem best hjá ykkur! - Bjössi bróðir.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa.
Maður verður bara orðlaus þegar maður fær svona fréttir, ég vona að allt gangi vel í baráttunni við drekann og sendi hlýjar kveðjur frá okkur í Mosó.
Gerður og Siggi.

Gunni & Marit & Co sagði...

Óska góðs gengis í baráttunni við drekann og að vel gangi fyrir ykkur öll. Við komum í heimsókn eftir páska og sjáið til að allt verður í besta farvegi þegar þar að kemur.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa, Björgvin og börn,
Megi góður Guð og allir ljóssins englar styrkja ykkur og styðja í baráttunni við drekann.
Sendum ykkur hlýjar kveðjur og allar okkar bænir.
Alla og fjölsk. Tígulsteini, Mosó.