Líf í árvekni: Talandi um dreka...

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Talandi um dreka...

Mikið er ég fegin að við skyldum ákveða að stíga það skref að deila með ykkur því sem er að gerast í lífinu um þessar mundir; bestu þakkir öllsömun fyrir allar kveðjurnar, bæði hingað á síðuna og í tölvupóstinum. Það er ómetanlegt að finna allan þennan hlýhug og styrkir okkur meira en ykkur grunar.

Við vorum í fjóra tíma á spítalanum í dag þar sem jafnmargir sérfræðingar, hver á sínu sviði, settust niður hjá okkur í pre-admission klíníkinni og fóru yfir það sem framundan er, spurðu Björgvin hver um sig út í allt mögulegt varðandi heilsufar, minni, mál, köst, ofnæmi og svo framvegis og tóku blóð og mældu allt sem mæla má. Skurðlæknirinn, prófessor Whittle, talaði við okkur síðastur og fór ítarlega yfir aðgerðina, útskýrði hvað hann ætlaði að gera og teiknaði upp fyrir okkur skýringarmyndir í gömlu stílabókina hans Matta sem ég hafði sem betur fer kippt með mér á síðustu stundu í morgun, því ekki veitti af undir glósurnar!

Sagt er að kjöftugri ratist stundum satt orð rétt á munn og eftir það sem Whittle sagði okkur í dag er mér skapi næst að nota það orðatiltæki um yðar einlæga. Æxlisskömmin hans Björgvins er nefnilega einmitt staðsett þar í heilanum sem heitir hippocampus á latnesku læknamáli, en sá hluti er á ástkæra, ylhýra kallaður... drekinn!

Við vissum fyrir að æxlið væri í gagnaugablaðinu vinstra megin, en skurðlæknirinn dró upp fyrir okkur teikningu af nánari staðsetningu og sýndi okkur hvernig æxlið hefur vaxið utan um hippocampusinn eða drekann í vinstra gagnaugablaðinu og út úr honum á alla vegu, þannig að hann er horfinn sjónum inn í miklu stærri æxlið. Á ensku er því þess vegna lýst sem ,,hippocampal lesion" eða... drekaæxli.

Vegna þess að þessi vöxtur hefur verið mjög hægur, jafnvel tekið tíu ár, hafa aðrar heilafrumur haft ráðrúm til þess að taka að sér störf (góða) drekans sem fyrir var, en talið er að þau felist aðallega í að sjá um að geyma upplýsingar um skamman tíma, áður en þær eru fluttar yfir í langtímaminnið sem býr í heilaberkinum. Þetta skýrir hvers vegna einkenni Björgvins eru þó ekki meiri en raun ber vitni þrátt fyrir mikið umfang æxlisins, en tungumálaerfiðleikarnir stafa af því að það þrýstir á þær stöðvar sem sjá um málakunnáttuna.

Önnur tíðindi dagsins voru þau Björgvin munu ,,horfast í augu við drekann" glaðvakandi, öfugt við það sem talað var um í nóvember. Hann verður að vísu svæfður til að byrja með og mun sofa þann hálfa annan klukkutíma sem það tekur að gera hann kláran í aðgerð, höfuðið skrúfað fast og drengurinn ,,víraður upp", og op gert á höfuðkúpuna fyrir ofan vinstra eyrað í boga út á gagnaugað. Þá verður hann vakinn og á meðan sjö manna lækna-og hjúkrunarlið sér um að flytja hinn útbólgna dreka úr helli sínum verður Björgvin í (vonandi fjörugum) samræðum við talmeinafræðing, sem fylgist grannt með viðbrögðum hans við því sem fram fer í kollinum á honum - í bókstaflegri merkingu.

Þessi aðferð við heilaskurðaðgerð er talin langöruggust til þess að tryggja að ekki sé hreyft við heilbrigðum heilavef sem hefur eitthvert hlutverk með höndum; þagni Björgvin skyndilega og svari ekki spurningum talmeinafræðingsins leggur skurðlæknirinn frá sér græjurnar og bíður átekta. Ef Björgvin svarar svo aftur spurningum eftir fáar mínútur er haldið áfram og svona áfram þar til helst allt æxlið hefur verið fjarlægt. Læknirinn sagðist vonast til að geta fjarlægt um 90% af æxlinu, en ekki er hægt að segja um það fyrir víst fyrirfram - það ræðst af því hversu ræðinn Björgvin verður á skurðarborðinu og hversu langt halinn á drekanum nær inn að viðkvæmustu svæðum heilans.

Greiningin á gerð og gráðu hefst þegar í stað á sýni sem er tekið á meðan skurðaðgerðin stendur yfir en síðan er allur æxlisvefurinn rannsakaður nákvæmlega og það líða heilir TÍU dagar þar til við fáum að vita niðurstöðurnar úr þeim. Guð, gefðu mér þolinmæli strax!

Aðgerðin hefst væntanlega um klukkan ellefu fyrir hádegi á föstudaginn og mun taka einhverja klukkutíma; við höfðum svo margt að ræða við skurðlækninn að mér láðist að spyrja hve marga! Hjúkrunarfræðingur sagði okkur þó að það mætti gera ráð fyrir að Björgvin yrði kominn út úr ,,leikhúsinu" (þeir kalla skurðstofuna theater!) um klukkan sex síðdegis.

Enda þótt ekki þurfi að raka nema lítinn hluta af hárinu af honum vegna aðgerðarinnar, rétt nógu til þess að hægt sé að gera bogadreginn skurð upp á gagnaugað, var mælt með því að Björgvin rakaði af sér skeggið. Ekki vegna þess að það standi til að skera inn á skeggsvæðið, heldur út af því að annars væri hætt við að hann fengi frekar óþægilega ,,vaxmeðferð" hjá svæfingarlækninum, sem þarf að líma plástra á vangana á honum til þess að festa slöngu ofan í kokið á honum í byrjun aðgerðarinnar!

Eins og sjá má á myndinni þótti piltinum eins gott að drífa þetta af, svo að yðar einlæg hefði a.m.k. hálfan annan sólarhring til að jafna sig á glænýju útliti hans, en síðast þegar hann tók af sér skeggið hló ég svo mikið í hvert skipti sem ég sá hann að hann safnaði því snarlega aftur!

Læt þetta duga núna, þarf að fara að taka fram spjaldabunka frá talmeinafræðingnum með myndum af alls konar algengum fyrirbærum, rúmi, tré, blýanti og þess háttar, og búa til lista yfir hvað þetta heitir allt á íslensku og reyna að hljóðskrifa það eins vel og ég get, þ.e. stafsetja það eins og ég held að enskumælandi myndi bera orðið fram.

Hús mun ég til dæmis skrifa ,,hoos" og þannig getur talmeinafræðingurinn spurt Björgvin í aðgerðinni um hvað sé á spjaldnu bæði á ensku og íslensku. Innfæddir Skotar segja reyndar ,,hoos" líka þegar þeir tala um hús.

Kær kveðja og þakklæti fyrir kveðjurnar allar,
prinsipissan og kó.

10 ummæli:

Mamma sagði...

Stöndum með ykkur gegnum þykkt og þunnt!!! 'Astarkveðjur Mamma

McHillary sagði...

Fagra prinsessa og hugrakki prins!
Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með á þennan hátt.
Mun biðja fyrir því að baráttu ykkar við drekann muni ljúka með sætum sigri.
Ég er hér ef þið þurfið á mér að halda.
Ykkar,
Montpelier Pilla.

Magga sagði...

Kveiki á kerti fyrir ykkur á föstudaginn.

Kveðja.

Magga Hallm,

Davíð Davídsson sagði...

Ég óska þér Björgvin minn alls hinns besta á meðan aðgerð stendur og góða bata að henni lokinni,Þetta er eingin smá skurðaðgerð.jæja kær kveðja.til allra. DADDI MÁGUR

Þórir og Guðrún Erla sagði...

Bestu óskir um gott gengi á morgun. Við verðum með hugann hjá ykkur og erum ekki í vafa um að allt muni fara vel. Endilega hafið samband ef eitthvað er og við getum eitthvað hjálpað til.
Bestu kveðjur,
Guðrún Erla og Þórir
USA

bjarney sagði...

Gangi ykkur vel á morgun! Ég sendi ykkur hlýja strauma og bænir frá landinu kalda. Guð gefi ykkur styrk í þessu stóra verkefni!

Asgeir sagði...

Kærar kveðjur til ykkar allra en þó sérstaklega til þín Böbbi.

Vonum að aðgerðin takist vel og hugur okkar mun vera hjá ykkur allan daginn á morgun og dagana þar á eftir.

Kveðjur frá Svíaveldi,
Inga og Ásgeir

Auður Lilja sagði...

Elsku þið fallegu hjón!
Ég hugsa sterkt til ykkar beggja í dag líkt og aðra daga.
Er alveg handviss um að þetta muni ganga eins og í sögu, eins og í ævintýrinu um prinsinn & prinsessuna hans.
Þið eruð svo hugrökk og dugleg.
Kærleikskveðjur
Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Baráttukveðjur af Skeljagrandanum!

Við trúum að þetta aðgerðin gangi vel, vonum allt það besta og sendum ykkur kærleikskveðjur. Þið eruð í bænum okkar.

Ástarkveðja,

Kiddi, Hrefna og fjölskyldan öll

Úr 1. Kor. 13: "En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur."

Kiddi sagði...

Sko, fyrsta tilraunin til að setja komment á bloggsíðuna og ég heiti anonymus. Getur bara batnað :-) Kær kveðja, Kiddi