Líf í árvekni: Sá sæli Andrés

fimmtudagur, 30. nóvember 2006

Sá sæli Andrés

Dagur sankti Andrésar er í dag, 30. nóvember. Andrés postuli er verndardýrlingur Skotlands og ég hef verið að reyna að lesa mér til um hvað það þýðir eiginlega; sýnist að Skotar sjálfir séu ekki alveg með það á hreinu. Dagurinn ku hafa verið haldinn í heiðri hér í heil þúsund ár, eða svo segir Scotsman, en getur ekki heimilda reyndar fyrir þeirri fullyrðingu, sem er meira en lítið undarleg í ljósi þess að Skotar kvöddu dýrlinga kaþólsku kirkjunnar fyrir ríflega fjórum öldum, brenndu af þeim líkneskin og skvettu kalki yfir helgimyndirnar, með fyrirgangi og látum undir áhrifum frá þeim svissneska Calvin og skoska brennisteins-og-eimyrju-prestinum séra Knox, leiðtoga mótmælendakirkju Skotlands.

Þeir skosku hafa róast talsvert í trúmálunum síðan þá reyndar, svo mjög að kirkjurnar hafa margar verið teknar undir pöbba og æfingaturna fyrir klettaklifrara (grínlaust). Og það hef ég úr þeim sama Scotsman að einu kaþólikkarnir sem mæta orðið til messu í kirkju helgrar Maríu meyjar í Edinborg, eru pólskir innflytjendur sem hafa hrannast hingað í þúsundavís síðustu árin.

Andrésardagurinn er sem sagt eins konar óopinber þjóðhátíðardagur en það er vandræðagangur með hvernig á að halda upp á hann og manni sýnist helst að verið sé að reyna að búa til einhvers konar þjóðernistilfinningu utan um hann. Skoski fáninn er kallaður saltírinn eftir þessum skákrossi en á slíkum var fiskimaðurinn sem ,,fiskaði menn" fyrir Krist krossfestur í Grikklandi á því herrans ári 70.

Þjóðsagan segir að sankti Rule, írskur aðstoðarmaður heilags Columba sem var á dögum á 8. öld, hafi verið sagt af engli að flytja jarðneskar leifar Andrésar allt á ,,enda veraldar" og hlýddi hann því. Fór þó ekki til Íslands eins og einhverjir trúbræður hans um sama leyti, heldur hafði með sér tönn, handleggsbein, hnéskel og nokkra putta úr gröfinni norður til Skotlands. Hann varð skipreika við austurströndina skammt frá péttnesku þorpi, settist þar að og hét staðurinn æ síðan St. Andrews.

Borgin sú er nú dögum frægari fyrir að eiga elsta golfvöll heimsins og telst víst ekki lengur á enda veraldar. Restin af beinum Andrésar var lengi í Grikklandi en eru í dag á Ítalíu og ekki veit ég afhverju sankti Rule ákvað að skipta beinunum svona niður; kannski var bara lítið pláss í ferðatöskunni. Það var eiginlega eins gott að hann setti ekki öll þessi beinaegg í sömu körfuna því ofangreindur Knox og æstur múgur áttu sök á því að eldur var tendraður í kirkjunni þar sem beinin voru geymd, svo að allt brann til kaldra kola árið 1559.

Skotar voru því andrésarbeinalausir um aldir, allt þar til páfinn sá á þeim aumur 1969 og sendi þeim eitthvað af restunum sem urðu eftir í suður-Evrópu, og þær eru nú vandlega geymdar í skríni í fyrrnefndri kirkju helgrar Maríu (sjá myndina t.v.). Þangað mun sérlega gott að beina áheitum sínum eigi maður við hálsríg að stríða eða þvagsýrugigt.

Skoska þingið samþykkti með naumum meirihluta í fyrradag að St. Andrew's Day skyldi vera "national holiday"- þó ekki meiri frídagur en svo að atvinnurekendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa fólki frí eða ekki og þeir sem eiga inni haustfrídag geta tekið hann út á Andrésardaginn. beri svo 30. nóvember upp á helgi er honum einfaldlega frestað til mánudags, eins og siður er hér í landi með alla frídaga. Ekkert varið í að eiga frí þegar það er frí hvort eð er, ekki satt?!

Í útvarpinu sagði einhver spekúlant áðan að Andrésardagurinn væri einna helst búinn að festa sig í sessi sem fyrsti opinberi verslunardagurinn fyrir jólin. Það var svo sem eftir öðru, hugsaði hún ég með vandlætingu, að nútímatruntan noti öll tækifæri sem gefast til að heiðra skepnuna hann Mammon og taka dansspor í kringum gullkálfinn.

Menntamálaráðherra Skota - sem heitir því skemmtilega nafni Pétur Páfugl- hvatti skóla til að berja sér á brjóst og hafa hátt um góðan árangur sinn á öllum sviðum á Andrésardaginn; skóli krakkanna gegndi þessu kalli með fjöldagöngu í dag í kringum golfvöllinn í Bruntsfield og hafði sekkjapípuleikara í fararbroddi, sem heyrðist víst ekki mikið til fyrir hávaðaroki. Skólabörnin voru deginum áður til að vera ,,þjóðlega" klædd þennan dag og Snúður brást við með því að mæta í íslenskri lopapeysu sem amma hans prjónaði. Tók sig vitanlega vel út en var hálfsvekktur yfir því að enginn skyldi taka eftir þjóðlegheitunum!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er sveimér skondin saga af honum Andrési!Hefði verið gaman að sjá Snúðinn í lopapeysunni!'Astarkveðjur
Mamma

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Smelltu á myndalinkinn, þá birtist pilturinn á peysunni á barnalandssíðunni. Gat af e-m ástæðum ekki sett fleiri myndir inn á blogg dagsins - óþekkt í kerfinu.

Nafnlaus sagði...

Hæ elsku Villary og ástarþakkir fyrir heillaóskirnar!
Gott að heyra að þið voruð ánægð með ferðina til Jórvíkur en ekki líst mér á að þið setjist að þar.
Ertu á haus í ritgerðarvinnu? Mamma fer á sunnudaginn og það væri gaman að geta hist einhvern tíma í næstu viku..
Bestu kveðjur

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Kæra Hildur, enítæm er ég tilbúin til að leggja til hliðar greinar um póstmódernisma, hnattvæðingu og fjölhyggju og setjast að sumbli með þér. Bara að bjalla :o)