Líf í árvekni: Yndislega Jórvík

mánudagur, 27. nóvember 2006

Yndislega Jórvík

Við erum að spá í að flytja til York. Miðbærinn hefur á sér slíkan miðaldablæ að það er engu líkara en maður sé kominn aftur í tímann. Ókei, svolítið póstmódernískar miðaldir - keðjubúðir og svona hér og þar en þær eru engan veginn í meirihluta. Myndirnar segja meira en mörg orð; hér eru þær. Stór hluti af gamla borgarmúrnum stendur ennþá og í miðbænum eru margar göturnar svo þröngar að efri hæðir húsanna mætast næstum því yfir höfði manns, og rúma engan veginn bílaumferð svo að þær eru göngugötur. Frábært! Niður með einkabílinn! (Hver vill kaupa okkar?)

Götuheitin enda felst á -gate, sem merkir ekki hlið heldur gata og er arfur frá danskinum sem þarna réði ríkjum á 11. öldinni. Og York Minster kirkjan, sú var aldeilis fögur. Þar fengum við brot af tónleikum í kaupbæti; strengjahljómsveit og kór að æfa sig fyrir tónleika sem við dáðumst að gotneskum bogum og makalaust fallegum steindum gluggum.


Í víkingasafninu ,,Jorvik Center" er töluð íslenska. Að vísu voru það bara véldúkkurnar í víkingafötunum sem þrösuðu um kaup og sölu á ástkæra, ylhýra í endurgerðri mynd af Jórvík 11. aldar - starfsfólkið kunni ekki múkk annað en ensku. En snillingar eru Bretar í safnavinnu, það verður ekki annað sagt. Hroðaleg ólykt við víkingaaldarkamarinn og saggafnykur í húsunum.

Haldið ekki að við höfum rambað á vinsælustu ferðamannahelgi Jórvíkur; einmitt þessa þrjá daga stóð yfir árlegt St. Nicholas Fayre og gamli miðbærinn var undirlagður af sölubásum þar sem allt milli himins og jarðar var fáanlegt. Við keyptum helling af karamellu og fudge-nammi (aðeins of mikið jafnvel), líka handgerða konfektmola í sérversluninni Chocolate Heaven og svo fékk Björgvin trefil í síðbúna útskriftargjöf.

Við bættum fyrir bíóferðaleti vetrarins og sáum Borat og Bond og getum mælt eindregið með þeim félögum báðum. Helgin var sem sé hreint út sagt dásamleg að frádreginni hastarlegri rótarbólgu sem lagðist á yðar einlæga sem við stigum út úr lestinni, en slíkt og þvíumlíkt smáræði gleymist fljótt nú þegar bót hefur verið fengin á meininu hjá dýrlingunum í neyðartannlæknaþjónustu Edinborgar. Hefði kannski átt að borða minna af föddsi...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hænurnar á borðtennisspaðanum eru æði. Og mikið er þetta fallegur bær, og jólalegur!

Bryndís úr þjóðó

Nafnlaus sagði...

Frábærar myndir!Og skemmtileg frásögn,var með ykkur í anda,vildi gjarnan koma þarna aftur, og ekki myndi spilla að hafa með þjóðfræðinga og fleira fólk!!! knús kveðjur til Sigrúnar! Mamma

Nafnlaus sagði...

Yndisleg ferð og gott að rótarbólga var með rótum upp rifin!
Palli og Ólöf

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að að heira að þið hafið það gott,falleg borg hún Jórvík,hún minnir mig svoldið á Aberdeen,með turnum og miðalda kirkjum,ég kom þangað 02` og aftur 03`KÆR KVEÐJA.