Líf í árvekni: Af flóðhestum og broddgöltum - og þó ekki

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

Af flóðhestum og broddgöltum - og þó ekki

Það rignir mikið í henni Edinborg á veturna. Einmitt núna er þó uppstytta og minn heittelskaði hlaupinn út í garð með þvottinn í hvelli að notfæra sér þurrkinn. Er á meðan er. Og meira að segja heiðskírt svo að sér í bláan himin. Á rúv.ís segir að snjórinn sé að fjúka burt úr Bláfjöllum og hitastigið undir frostmarki. Úff. Vísast kalt í fjörunni við Gróttu í dag. Hér er þó hitatalan rauð. Sjö stig í plús.

Skæðadrífurnar sem hér fjúka eru gerðar af laufum sem nú liggja yfir öllu eins og hvert annað teppi. Ef maður nennir ekki að raka þeim saman og setja í tunnuna má segja sem svo að það sé betra fyrir broddgeltina að láta þau eiga sig. Þetta sagði mér maður í gær. Hef reyndar aldrei séð neina broddgelti en hins vegar skjótast íkornar hér um allt, og láta manni bregða illilega þegar þeir hendast yfir trefjaplastsþakið yfir borðstofunni.


Við nýttum okkur uppstyttu part úr sunnudeginum og heimsóttum dýragarðinn. Myndasyrpa þaðan hér. Dvergflóðhestarnir voru langmestu krúttin, fannst mér. Vorkenndi ísbirninum dálítið, einn og yfirgefinn í litlu búri. Vísast fæddur í búri líka og þekkir ekki annað, aldrei komið í víðáttur óbyggðanna í Grænlandi.

Sýndi innfæddum í Félagi Skota um norræn fræði myndir frá Grænlandi á laugardaginn og las fyrir þá um skötuhjúin Naaju og Mikjál. Það var gaman.

Við hjónakornin (ekki þessi á myndinni fyrir ofan sko) ætlum að bregða undir okkur betri fætinum um helgina og fara í reisu suður á bóginn, og treysta heimasætunni fyrir þeim yngri til mánudags. Förum þó ekki langt, tveir tímar í lestinni til Jórvíkur, fyrrum höfuðstaðar Danalaga en svo nefndist norður-England á mektardögum danskra víkinga þar fyrir margt löngu. Í Jórvík ætlum við meðal annars að skoða stærstu gotnesku kirkju norðan Alpafjalla, eða svo segir amk á túrhestasíðu borgarinnar. Eftir að hafa safnað mér miðaldakirkjum um árabil í Frans, Bretlandi, Ítalíu og víðar get ég bara ekki verið þekkt fyrir að hafa ekki komið í þá stærstu.

Jórvík mun álíka stór og Reykjavíkin, og státar af víkingamiðstöð sem við ætlum líka að líta á og athuga hvort representasjón Jórvíkurmanna á fortíðinni er módernísk, póstmódernísk, strúktúralísk, femínísk - eða bara jórvísk - úps... hér eru farin að birtast einkenni af oflestri yðar einlægrar á þjóðfræðilegum fræðitextum um framsetningu menningar.

Læt þá staðar numið í bili. Það hefur ekki mikið verið bloggað hér að undanförnu en í vetrarrökkrinu sem hér er skollið á birtir alltaf yfir þegar kveðja birtist í kommentaglugganum. Engin pressa samt ;o)

Í guðs friði.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl veri þið í Skotlandinu. Gaman að lesa bloggið! Tja það verður eitthvað að bíða með skíðaiðkun í bili. Rétt er það að snjórinn fauk. Haðið það sem allra best. Kveðja Magnea Sif, Björgvins frænka.

Nafnlaus sagði...

Hæ elskan!!
Frábært að heyra að þið ætlið að smella ykkur í helgarreisu. Mér finnst líka dvergflóðhestarnir laaaangflottastir í dýragarðinum. Þegar ég fór síðast var annar (þessi sem var stærri þá) alltaf eitthvað að skammast í þessum litla. Gætu verið mæðgin. Hún hafði voða litla þolinmæði við hann litla greyið, alltaf eitthvað að hnýta í hann. Og hann var eitthvað svo leiður til augnanna. Ég var bara alveg eyðilögð yfir þessu.
Er annars alveg að verða búin að klára Hrafninn!! spennó spennó...
Bestu kveðjur og hafið það sem best í helgarferðinni.

Nafnlaus sagði...

Halló!fínt að þið slappið af aðeins,Villa,ég er búinn að fá nýja vinnu í Hagkaup í Kringluni,ég sá í bókadeildini nýju bókina þína Hrafninn á geisladisk í flottum umbúðum,varst þú með í ráðum um þessa útgáfu?

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa !
Mikið er gaman að sjá líf færast yfir bloggsíðuna þína.
Það er svo gaman að lesa skrifin þín, þú ert nú ekki rithöfundur fyrir ekki neitt :o)
Eigið yndislega helgi saman og ég hlakka til að slá á þráðinn til þín eftir helgina og heyra ferðasöguna.
Kysstu alla og knúsaðu frá okkur hérna í Fífulindinni.
Þín Auður Lilja

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Halló allesammen, mikið er gaman að heyra frá ykkur! Til hamingju með nýju vinnuna Daddi, frábært hjá þér. Já, hljóðbókin er gerð í samráði við mig, þ.e. ef þetta er diskur gefinn út af Hljóðbókaútgáfunni Gísla Helgasonar en ég vissi ekki að hún væri komin út. Gaman gaman!

Nafnlaus sagði...

Sæl elsku Villa mín! Gaman að þið skulið fara í smá afslöppun, við höfum komið til York í Bændaferð, fórum í víkingasafnið ,en því miður ekki í Dómkirkjuna. Það er mjög fallegt þarna!tek undir allt sem Auður skrifaði!!!'Astarkveðjur. Mamma Fínar myndir!

Nafnlaus sagði...

Jamm, til Jórvíkur... ekki sem verst, sýnist mér. En sem sagt, góða ferð og skemmtið ykkur vel. Af okkur hér austan salts er allt gott að frétta, Hulda er að kenna flókaverk annars lagið, ég er að skrífa og Ísak Kjartan er farinn að tala heilar setningar á tungu feðranna, þó öll 14 föll eru ekki í notkun. Og Dísa skvísa er á leiðinni hingað fyrir jól, erum að biða eftir henni...

Nafnlaus sagði...

Harmi, síðan vildi bara ekki taka við nafnið!

Nafnlaus sagði...

Halló og hæ hæ! Bíð eftir ferðasögunni;vona að þið hafið haft það gott í Jórvikinni!Kærar kveðjur, Mamma.