Líf í árvekni: Blessaður hvunndagurinn

laugardagur, 9. september 2006

Blessaður hvunndagurinn

Svo margt hefur á daga okkar drifið frá því að hér var bloggað síðast fyrir þremur mánuðum að ekki verður í lagt að rekja það allt saman, enda óþarft kannski því gestir síðunnar hafa vísast af hremmingum okkar í húsnæðismálum haft nokkrar spurnir og margir hverjir sátu síðan brullaup okkar skötuhjúanna þann 5. ágúst síðastliðinn.

Á fjórða degi eftir heimkomuna úr brúðkaupsferð til Rómar flutti fjölskyldan sem sé á nýjan stað, Gilmore Place heitir gatan og er í Viewforth hverfi, skamman spöl til vesturs frá fyrra heimili við Meadows-garðinn. Hér er hreint ekki síðra að vera þótt lengra sé á róló, því eins og sjá má á myndasyrpunni hér höfum við nú okkar prívatgarð, með eigin íkorna og fjölbreyttu flugu-og fuglalífi, og hægt að ganga beint út í blíðuna sem hér ríkir eilíft beint út úr borðstofunni.

Skólinn er vitanlega löngu byrjaður hér í Edinborg; heimasætan og Snúður eru nú í fyrsta sinni á ævinni í sama skóla, James Gillespies High School, fylgjast að á fimmtán mínútna labbitúr í skólann og mæta í sama kladdahóp hvern virkan morgun. Skottan hyggst sömuleiðis hefja skólagöngu og er nú í ,,settling-in" í leikskóla kenndum við Regnbogann hér í sömu Gilmore-götu. Lánið á okkur alltaf hreint :)

Yðar einlæg hóf eigið nám á ný fyrir rúmri viku og ver nú flestum stundum annað hvort í Heilaga horninu að prenta út fræðigreinar frá lærimeistaranum norður við ysta haf eða með nefið ofan í þeim sömu pappírum. Á planinu er að ná að lesa allan bunkann sem fyrir er settur í hverri viku og eiga líka dálítið fjölskyldulíf (ef hér verður annað langt hlé á bloggi vita menn að það stafar af tómri samviskusemi við námið). Eiginmaðurinn og Skottan sinna húsverkunum á meðan eins og sjá má á myndinni hér efst og fóðra líka íkornann okkar sem gerir sig heimakominn í bakgarðinum með reglulegu millibili.

Mikið var nú gaman að vera á Íslandi, vera í brúðkaupi litlu systur og hitta allt fólkið sitt og gifta sig og fara til Rómar og borða rómverskan ís þrisvar á dag en mikið óskaplega er líka gaman og gott að vera komin í blessaðan hvunndaginn aftur, með bæði síma- og netsamband við umheiminn, hárrauða Kitchen Aid í eldhúsinu, þvott á snúrunum og glænýtt reiðhjól að spóka sig á.

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

til hamingju með hjónabandið.

Nafnlaus sagði...

Til lukku með þetta allt saman.

kv, kolbrún við Warrender Park Road

Nafnlaus sagði...

Til hamingju að vera komin ur syndinni!
Nu eru þið litil og sæt kristileg hjon!
Tapio er buin að lesa Hrafninn ok honum fannast hun vera besta bokin eftir þig Villa. Fekkstu boð um að koma a bokamessu til Finnlands?
Allavega ég nefndi þig þegar var spurt, hverjum mætti bjóða út... svo, varðandi Hrafninn: ég var að tala við útgefanda minn, en hann sagði að það er svo þröngt á þingi í norrænum bókmenntum eins og stendur. En sjáum bara til á næstu árum.
Kveðja frá Finnalandinu góða,
Hulda & Tapio

McHillary sagði...

Hæ FRÚ Villary!
þetta er nú meira fínið slotið sem þið hafið fengið, hlakka til að koma og fá einn súperfínan latte úr maskínunni. Hér er allt að gerast, ég byrjaði í vinnunni á föstudaginn og svo er allt búið að vera á haus um helgina, er búin að pakka okkur saman og bíð eftir að geta flutt allt draslið. Við förum héðan á miðvikudag og flytjum í nýju íbúðina á laugardaginn næsta. Verðum endilega að heyrast sem fyrst...

Nafnlaus sagði...

Halló frænka, til hamingju þótt seint sé, hef kíkt hér reglulega til að vita hvort þú værir ekki búin að skila þér"heim". Er að fara vestur á morgun í heimsókn, fæ þá vonandi að sjá mydir hjá mömmu þinni

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ. Gaman að fá smá fréttir frá ykkur. Alltaf gaman að lesa bloggið ykkar. Fyrsti skóladagurinn minn er búinn og mér líst bara mjög vel á. Mér líður vel hér á Akureyri, íbúðin er æðisleg. Þetta á eftir að vera æðislegur vetur, trúi ekki öðru. Knús til ykkar allra og þá sérstaklega til Matta bró. Sakna hans svooo mikið! kv, Aldís

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa mín. Til hamingju með hjónabandið og bara allt saman, gaman að heyra hvað þú ert dugleg í náminu, verst að geta ekkert hitt þig í sumar, ég hitti Ásu Tedda um daginn og við vorum að plana að reyna að hittast við stelpurnar í MÍ sem erum í bænum, hefðum auðvitað átt að gera það þegar þú varst á landinu.
Kveðja
Gerður.

Nafnlaus sagði...

Sæl systir ,til hamingu með nýja heimilið,já og afmælið þann 3,9,06.hvernig fanst þér myndirnar sem eg sendi til þín?Kveðja DADDI ps:sjáðu á thingeyri.is

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Halló allesammen, mikið er gaman að heyra frá ykkur öllum! Forvitin er ég að vita hvaða frænka mín á leið vestur en ég hlýt að frétta af því fyrr en síðar :)

Aldeilis flottar myndirnar úr brúðkaupinu, kæri Daddi, og hafðu heilar þakkir fyrir, og ekki síður myndirnar skemmtilegu af Dýrafjarðardögunum sem ég var að skoða á Þingeyrarvefnum. En mikið óskaplega hefur verið kalt, úff púff,(og sjósund í þessum kulda?!) og fólk verið glatt þegar varðeldurinn var kveiktur og slegið í dans! Magnað fólk, Dýrfirðingar.

Tapio: Segðu mér endilega nafnið á útgáfufyrirtækinu þínu þótt þröngt sé þar á þingi, því það er eitt og annað spennandi framundan hjá Krumma, og aldrei að vita hvert hann á eftir að taka flugið...

Nafnlaus sagði...

Hæ Villa, útgerðin sem ég hef verið að leggja upp hjá heitir með sérkennilegu nafni Johnny Kniga; hún er deild af stærstu útgáfufyrirtækinu hérlendis, WSOY. En maður sem best er að hafa samband við heitir Timo Ernamo, hann hefur verið útgefandinn minn frá upphafi og gefið út talsvert af íslenskum bókmenntum, fékk reyndar Fálkaorðuna fyrir vikið fyrir nokkrum árum. Þannig að við erum einsog Gauji og Gokk norræna bókmenntana í Finnlandi. Endilega sendu honum línu: timo.ernamo@johnnykniga.fi

Hulda er að lesa Hrafninn núna.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa og Björgvin, hjartanlegar hamingjuóskir með brúðarsáttmálann og íbúðina.
Bestu kveðjur,
Alla

Nafnlaus sagði...

Velkomin í bloggheima á ný!
Hlakka til að lesa í vetur :)
Yndisleg að sjá þessi fína íbúð ykkar, alveg draumur að fá þennan fína garð!
Knús á línuna
Auður Lilja & Fífulindarfólkið

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa mín, og til hamingju með allt saman. Var nú reyndar að vonast til að hitta á þig á meðan þú varst heima í sumar, en gengur vonandi betur næst. Flottar myndirnar úr brúðkaupinu þínu, fannst ég næstum hafa villst inn í mitt eigið (sendi mynd til útskýringar). Bestu kveðjur, Sigga J.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Hallo allesammen! Enn a ny netlaus - attum ad fa tengingu fyrir manudi hja BT en ekkert ad gerast og nu er madur bara fastagestur a netkaffinu likt og fyrir ari. Annad eins verkefni vid ad tileinka mer aedruleysi hef eg ekki fengid. M.a.s. Bjorgvin er byrjadur ad lesa bok sem heitir Anger Management...

Nafnlaus sagði...

Hæhó!
Hvorki sími né net ennþá?
Hlakka til að sjá ykkur á Íslandi í október!
Knús Auður Lilja

Ljúfa sagði...

Er eitthvað að frétta?