Líf í árvekni: I will go crazy within 24 to 48 hours!

föstudagur, 27. október 2006

I will go crazy within 24 to 48 hours!

Viti menn, yðar einlæg er sest við tölvuna, komin með langþráð netsamband og ætlar að blogga lítilsháttar í kveld... Eins og (báðir) aðdáendur síðunnar Mindful Living vita hefur heimilið verið netsambandslaust um alllangt skeið; síðasta færsla skrifuð í september og færð á netið með þráðlausu sambandi næstu nágranna, sem síðan gerðu okkur þann óleik að flytja með allt sitt hafurtask og tengingar guðmávitahvert.

Stríðið við British Telecom um að flytja tenginguna okkar frá fyrra heimili hingað á Gilmore götu stóð í fimm vikur: þann tíma var minn heittelskaði eiginmaður í nokkuð svo stöðugu símasambandi við innhringimiðstöð British Telecom í Bombay, ræðandi ýmist við einhverja af 137 illa enskufærum indverskum símþjónum BT eða símaverkfræðinga þeirra hér í landi Betu drottningar (af framburðinum að dæma a.m.k.).

Þeir fyrrnefndu tjáðu okkur hvað eftir annað að hinir síðarnefndu myndu aðhafast í málinu hið fyrsta, ,,an engineer will contact you within 24 to 48 hours" (berist fram með afar indverskum framburði), en hinir síðarnefndu virtust ekki hafa neinar spurnir af óskum okkar þar um og komu ávallt líkt og ofan af Ben Nevis þegar í þá náðist. Síðustu tíu dagana af þessu símsambandi til Indlands (sem iðulega var svo slæmt að einungis heyrðist annað hvert orð) vorum við reyndar hætt að hringja; þess þurfti ekki því Indverjarnir hringdu sjálfir annan hvern dag, oftast eftir kvöldmat með tilkynninguna sem að ofan er getið (24-48 hours) eða til að segja okkur að búið væri að kippa málinu í liðinn, sem engar vísbendingar voru þó um á blessuðum tækjabúnaðinum sem blikkaði bara rauðu í staðinn fyrir grænu.

Þessum tilkynningum um væntanlegar aðgerðir verkfræðinganna linnti ekki einu sinni þótt yðar einlæg hefði í eitt skiptið spurt afar kurteislega en þó fremur kuldalega hvað það ætti að þýða að ljúga svona að fólki dag eftir dag, hvur væri eiginlega tilgangurinn með þessarri vitleysu. Svörin voru engin og dagljóst að símþjónarnir gátu bara sagt setningar sem voru skrifaðar á blað fyrir framan þá; þar voru engin svör við ísköldum spurningum af þessu tagi. ,,I will go crazy within 24 to 48 hours," sagði ég við þá indversku sem stamaði bara óskiljanlegu hiksti á móti og skellti á.

Eftir þessar óskiljanlegu fimm vikur var BT á endanum sagt upp og tók sú aðgerð til allrar hamingju ekki nema samtal við þrjár manneskjur í samtals hálfa klukkustund. Að því búnu snerum við okkur til Telewest sem okkur til nokkurs léttis var með símþjóna sem hljómuðu innfæddir (nei, er ekki rasisti en símasambandið innanlands er mun betra en til Bombay) og höfðu þar að auki nöfn, sem mátti vísa til þegar þörf krafði um frekari upplýsingar. Sá hængur var þó á mannlegheitum Telewest að Okkar maður þar lá í flensu í viku þannig að það tók hátt í tvær að fá tenginguna; hann var sá eini sem sá um okkar mál. Það er í ökkla eða eyra.

Þessari póstmódernísku harmsögu linnti þó ekki þar með fyrir yðar einlæga; fyrir Íslandsferð fengum við samband í húsið með kapli en komumst að því eftir heimkomuna að okkar eigin tækjabúnaður (hvað þá BT-græjan) dugði ekki í þráðlaust samband um allt hús svo að hann þurfti að panta frá Telewest. Og þegar sú græja var komin í hús kom í ljóst að tölvan mín hafði gamlast svo að netkortið hennar var orðið úrelt (arg!!) og nýtt kort var því keypt í vikunni.

Af ofanskráðu hefur undirritaðri lærst eitt og annað sem samræmist lífsstefnunni Mindful Living. T.d. er mikill tímasparnaður að því að vera ekki með netsamband því þá notar maður ekki netið nema brýna þörf beri til (t.d. við fjarnám við HÍ), það er ágætt fyrir skrokkinn að fá hreyfinguna af því að hjóla út á netkaffi, það er gott að á Íslandi er ekki byrjað að bjóða þjónustugeira fyrirtækja út á alþjóðlega vísu (eða er það nokkuð?!) þannig að þeir sem hafa ódýrasta vinnuaflið sjái um símsvörunina og það er alveg með ólíkindum hvað maður er glaður og þakklátur þegar maður fær loksins tryggt samband við umheiminn beint frá heimilinu eftir rúma fjögurra mánaða langt hlé þar á, þ.e. allt frá 5. júní þegar við fluttum tímabundið í vesturbæ Edinborgar.

Með bestu kveðju heim á landið bláa,
Villa

p.s. kem ekki ljósmynd á síðuna í kvöld af e-m ástæðum en vilji menn viti hvernig indversk símsvörunarmiðstöð lítur út eru hér ágætar myndir af slíkum vinnustöðum, og skilja menn þá betur hvað var eiginlega í gangi...

Engin ummæli: