Líf í árvekni: Kardimomma frá Burkina Faso

þriðjudagur, 23. maí 2006

Kardimomma frá Burkina Faso

Við Skottan löbbuðum okkur út í Alvöru fæði (Real Foods), sem er heilsubúð hér í næstu götu í morgun og keyptum okkur eitt og annað gott í gogginn, allt saman ræktað á lífrænan máta, vitanlega.

Sú stutta heldur hér á pakka af kardimommudufti sem við nánari athugun reyndist koma alla leið frá Burkina Faso, sólblómafræin sem við keyptum líka voru frá Kína og sesamfræin komu frá Guatemala. Speltmjölið var hins vegar bara frá Berkshire í Englandi.

Mundi það eitt um Burkina Faso að frá því landi var lítil telpa sem gefin var til ættleiðingar í afar krúttlegri danskri bíómynd sem ég sá einhvern tímann fyrir löngu. Svo að ég gúgglaði land kardimommunnar okkar og komst að því að það er um 274 þús. ferkílómetra landsvæði í Afríku, og þæar búa næstum 14 milljónir manna. Landið er
lukið öðrum ríkjum og stærri á alla vegu, m.a. Líberíu og Fílabeinsströndinni og uppreisnarmenn frá báðum þessum löndum leita sér skjóls í þorpunum við landamæri Burkina Faso. Burkinabear eru þó lýðræðisþjóð, voru arðrændir sem nýlenda Frakka til 1968 og halda þjóðhátíðardag sinn 11. desember, en þá losnuðu þeir undan Fransmönnum. Svo undarlega sem það nú hljómar þá er franska samt opinbera tungumálið þótt 90% þjóðarinnar tali tungu af súdönskum ættstofni.

Þetta er eitt af fátækustu ríkum heims, níu af hverjum tíu íbúum lifa á sjálfsþurftarbúskap og rækta mest bómull, en líka eitt og annað fleira - eins og kardimommur auðvitað. Þurrkar ógna þessu fólki og afkomu þess eilíft og margir hafa fallið í eyðniplágunni miklu. Nýfædd telpa í Burkina Faso má vonast eftir því að ná 50 ára aldri og eiga sex börn, en það er ólíklegt að þau nái öll fullorðinsárum.

Það er lítið af myndum frá Burkina Faso á netinu, mest kort eins og þetta hér að ofan, bárujárnshreysi, blokkir í höfuðborginni Úgadúgú og nokkrir glæsilegir fílar, en svo fann ég þessa fínu mynd af stráknum á ánni líka til að botna pistil dagsins.

Svona getur nú verið fróðlegt að kíkja á merkimiðana á næringunni sinni... ;o)

12 ummæli:

Katrín sagði...

Þessi danska mynd heitir Den eneste ene og er alveg frábær. Stelpan litla sem var ættleidd frá Burkina Faso (eða eins og Danirnir segja það, Bu(r)-kína Fes-ho) og hét Mgala. Algjör dúlla.

Nafnlaus sagði...

Annað athyglisvert land í Afríku er Botswana. Landið er sögusvið bráðskemmtilegra bóka eftir rithöfundinn ALEXANDER MCCALL SMITH um einkaspæjarann Precious Ramoswe, forstöðukonu einkaspæjarafyrirtæki nr. 1 í Botswana. Mæli með.

McHillary sagði...

Burkina Faso segirðu...mér hefur alltaf þótt nafnið á höfuðborginni alveg brilljant, Úgadagúgú, ég var reyndar búin að gleyma því í hvaða landi hún væri...en mun muna það hér eftir, þökk sé þessari færslu! Thank god for the internet..

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir skemmtilegan fróðleikspistil :)
Verð að benda þér hérna á smá bloggfærslu þar sem þú , frú rithöfundur kemur við sögu :)
http://stinan.blog.is/blog/stinan/

Þetta er Stína vinkona btw..

Knúskveðja Auður Lilja sem á strákpjakk sem stóð upp sjálfur í fyrsta skiptið í dag! Og það í rúminu sínu, þverneitaði að fara að sofa og stóð bara upp eins og hann hefði aldrei gert annað :)

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Gunni: Við 'Sandy' McCall Smith erum náttlega svo gott sem nágrannar: hann býr hér í næsta hverfi (Merchiston), við götuna "Writer's Block" ásamt JK Rowling og Ian Rankin sem skrifar um Rebus löggu!
Er á leið eftir nýjustu Ramotwse-bókinni - blue shoes and happiness - en búin að lesa hinar sem eru algjör snilld.

Eigum líka Sunday Philosophy Club eftir sama höfund, sem ég ætla að lesa aftur núna -las hana fyrst heima í 101- því hún gerist hér í hverfinu okkar (Bruntsfield) og kemur manni vísast öðruvísi fyrir sjónir þegar maður hefur kynnst sögusviðinu :)

Auður Lilja: Til hamingju með kraftinn í pjakknum, nú fer að færast fjör í leikinn fyrir alvöru! Fletti upp mínum eigin og sá að hann hafði staðið uppréttur 20. mars 1995, ekki í rúminu reyndar heldur upp við lágan stokk í kjallaraíbúðinni á Bræðró. Honum lá heldur betur á að skoða heiminn, og hefur sosum farið flatt á asanum oftar en einu sinni ;) eins og reglulegar heimsóknir á slysó vitna um í gegnum árin!

Nafnlaus sagði...

Já Villa! Við gleymdum að skoða rithöfundagötuna ,eins og ég held nú upp á Alexsander,og bíð í ofvæni eftir næstu bók!Framundan er spennandi dagur,Tekst okkur að vinna Bæinn í dag !Ástar kkeðjur Mamma.

Nafnlaus sagði...

Fyrirgefðu prentvilluna!

Nafnlaus sagði...

Í dag: Hef gengið í náttúruverndargöngu, kosið sambærilega, keypt inn hjá Bónus grísnum og ekkert svona spennandi, allt til stuðnings íslenskum iðnaði. Færð vonandi bréf með ´,,réttu " innhaldi á í næstu viku. Knús
Njóla

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Það má segja Íslendingum til hróss að þeim fækkar sem styðja Framsókn. Og Hafnfirðingar eru alveg ágætir. Annað dettur mér ekki jákvætt í hug í bili eftir úrslit sveitarstjórnakosninga á landinu bláa. Sveiattan...!

Nafnlaus sagði...

Hvernig fóru þessar kosningar? Bið að heilsa bæði JK og Sandra .. ef þið rekist á hvort annað.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Þær fóru bara frekar illa (nema í Hafnarfirði), eins og sjá má hér í dag http://www.ruv.is/heim/frettir/innlendar/

Skila kveðjunni ...ef ég rekst á þau ;o) Hefur annars einhver lesið Margaret Elphinstone? Hún er höfundur sögulegra skáldsagna - henni ætla ég örugglega að kynnast í haust, á ráðstefnu hér í borg um norræn fræði...

sigurveig sagði...

snilld! fræðandi, skemmtilegt og einkar góð áminning til okkar um að taka eftir því sem er í umhverfi okkar. vera hér og nú.
takk fyrir.