Líf í árvekni: Sund á laugar-degi

sunnudagur, 9. apríl 2006

Sund á laugar-degi

Þá er fjölskyldan loks búin að prófa að fara í sund hér í útlandinu, fórum í gær í nýlega endurbætta innilaug í fárra mínútna göngufjarlægð frá heimilinu. Skotum þykir óþarfi að fara í sturtu áður en þeir fara ofan í en þvo sér þó eftir á - í sundfötunum vitanlega - og í þessari fínu laug (sjá myndina) eru sturtur á opnu svæði við endann undir boganum, ætlaðar báðum kynjum. Öðrum megin við laugina er svo löng röð af einstaklingsbúningsklefum (vá, langt orð!). Ef eitthvað er að marka upplýsingar af netinu þar sem ég hnuplaði myndinni er þessi laug eldgömul líkt og allt annað hér í borg, byggð 1888.

Alla vega, við skemmtum okkur konunglega, Skottan reyndar ekki fyrr en á leið en var orðin kát og glöð þegar við vorum rekin upp úr um sexleytið eftir tæpra tveggja tíma sull. Eins og sést á myndinni hér til hliðar er nóg að gera hjá henni við uppeldið á Pó, sem henni þykir ástæða til að hafa á bleiu.

Gólfið óhrjálega undir þeim stöllum eru viðarplöturnar undir eldhúsdúknum, sem vonandi verða huldar á ný á miðvikudaginn eftir heimsókn tjónamatsmanns sem hefur þá líka - ætla ég að vona - á burt með sér ótætis blásarana.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er spurning hvort ekki þarf að skreppa vestur í sund í sumar?
Vonandi sleppið þið við blásarana sem fyrst!Kveðja mamma