Þá er tjónamatsmaðurinn kominn og farinn og horfur á að við verðum að flytja yfir í aðra íbúð í tvær vikur eða svo um miðjan maí, þegar ráðist verður í þær framkvæmdir að skipta um gólfborð, tvo eldhússkápa og alla loftklæðninguna í eldhúsinu.
Þetta er þó ekki alveg útrætt, enn eigum við eftir að fá fulltrúa verktakanna sem sjá um framkvæmdina í heimsókn og fá áætlun hans, væntanlega á mánudaginn, um hversu langan tíma verkið mun taka. Alla vega er leigumiðlunin byrjuð að gá að fjögurra herbergja íbúð í hverfinu sem við gætum lagt undir okkur um miðjan maí. Okkur vitanlega að kostnaðarlausu - að frátöldum óþægindunum við umstangið og tímanum sem allt þetta stúss tekur frá okkur.
Það jákvæða í stöðunni er að við fáum að ráða því hvenær lætin byrja og getum því fengið fyrirhugaða heimsókn frá Íslandi 23. apríl eins og til stóð, og haft hér frið við ritgerðasmíðar og próflestur, sem lýkur 8. maí. Að vísu verðum við að ganga á ósléttu eldhúsgólfi (en það var nú ekki sérlega slétt fyrir) og búa við gat í loftklæðningunni fram í maí, en fyrir það er hægt að tjalda þegar loftið er þornað til fulls eftir svo sem viku, þannig að 137 ára gömul aska og 'Latin plaster' sáldrist ekki ofan í hjarta heimilisins og allt sem þar er inni. Og blásararnir ganga næstu vikuna, munum samt gefa þeim pásu yfir daginn úr þessu - ættu að þurrka það sem þarf engu að síður að áliti tjónamatsmannsins.
Það reynir dálítið á þanþolið að standa í svona nokk og einbeitingin við námið hefur farið fyrir lítið undanfarna daga svo að það er eins gott að rifja upp markmiðin sem fylgja yfirskriftinni hér að ofan, og líta bara á þetta allt saman sem enn eina lexíuna í lífi í varurð og eflingu 'höndlunarhæfileikanna' (á einhver gott orð yfir 'coping skills'?).
Eitt og annað jákvætt má finna sér til að horfa á, svo sem eins og ágæt samskipt við eigendurna þau J. Bond (!) og Good, og bókina 'Climbers on a Stair' sem er nú komin í húsið þar sem hún var skrifuð og fer fram, auk þess sem útlit er fyrir að starfsfólkið hjá leigumiðlunarskömminni sé nú loks hrokkið í gang og viljugt til að gera sitt til að auðvelda okkur það sem framundan er.
1 ummæli:
Hernig væri jafnaðargeð!
Gott að heyra að það fer nú komast í gang eitthvað ferli til að gera ykkur þetta bærilegra! Erum farin að hlakka til að koma í vorið hjá ykkur,hér er bara vetur eins og er, norðan átt og snjór!En allt batnar um síðir!Ástar kveðjur Mamma og Pabbi.
Skrifa ummæli