Líf í árvekni: Gleðilegt sumar!

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn, elskulegu vinir og ættingjar sem gefið ykkur tíma til að líta hingað af og til. Sá í Mogganum að það fraus saman vetur og sumar á landinu bláa, sem ku vita á gott sumar. Veðurstofan er með skemmtilegan pistil fyrir áhugafólk um veðurfar á þessum langþráða degi.

Þar segir m.a.: "Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á sumardaginn fyrsta frá 1949 að telja er 13,5°C árið 1998. Ámóta hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2004. Á sumardaginn fyrsta 1956 fór hiti ekki niður fyrir 8 stig allan sólarhringinn og 9 sinnum hefur hámarkshitinn verið yfir 10 stig." En það hefur víst oft verið kaldara...

Hér í Edinborg má segja að sumar og vetur hafi blotnað saman og veit það örugglega á sama hátt á brakandi þurrt sumar og blíðuveður framundan. Í morgun var samt grenjandi rigning þegar við Snúðurinn og Skottan löbbuðum fengum okkur sirka hálftíma labbitúr í ritfangabúð eftir "bókbandsefni" utan um síðustu ritgerðina mína, en til allrar hamingju hlýtt, 10 stiga hiti, og nánast logn svo að það var bara hún ég, akandi kerrunni, sem ekki gat skýlt mér undir regnhlíf eða regnplasti, sem varð alveg gegndrepa.

Vonandi er hann búinn að skvetta úr sér í bili - alla vega er spáð sæmilegasta veðri næstu dagana, þurrki og glampandi sól og 13 stiga hita þegar við fáum gestina að heiman á sunnudaginn.
Hætt við því samt að ekki verði þó allir þurrir í framan þann daginn, því þá Snúðurinn kveður eftir þriggja vikna yndislega samveru.

Engin ummæli: