Útsýnið á myndinni hér að ofan er fengið í gegnum rúst lítillar kapellu í hlíð Arthur's Seat, sem er ein af sjö hæðum Edinborgar. Varla hægt að tala um rúst, eins og sést hér á næstu mynd er þetta vart nema veggurinn enda einar sex aldir frá því að mannvirkið var reist og helgað sælum Antoni , verndara ferðamanna, fiskimanna, kúgaðra og póstsins (!)
Við lögðum sem sagt hæðina undir fót sem kennd er við annað hvort Artúr konung eða Þór hinn norræna, á páskadag og komumst að því fljótlega að fjöldi fólks hafði fengið þá sömu hugmynd; vart þverfótað fyrir barnafólki sem var hér að halda í heiðri gamlan páskasið, sem kalla mætti páskaeggjarúll.
Siðurinn felst í því að soðin eru hænuegg sem síðan eru máluð í öllum regnbogans litum, prílað með þau upp í hlíð og þau látin rúlla niður hvert í kapp við annað. Mikilvægt er að eiga eggið sem vinnur rúllið, en ég man ekki hvers vegna þótt það hafi eflaust verið skýrt þegar þetta kom til tals í tíma í vetur um skoska siði bundna árstímum. Vísast fylgir því heppni að eiga vinningseggið, held að strákurinn í Celtic-peysunni hafi borið sigur úr býtum, ef hundurinn var þá ekki fyrri til að gleypa eggið...
Við náðum "tindinum" (251 m.y.s.) eftir um klukkutíma og útsýnið var aldeilis glæsilegt, veðrið tók ýmsum breytingum á leiðinni, ýmist sól eða ekki, og vindurinn hvassari eftir því sem ofar dró, og það hélst mátulega lengi þurrt til þess að við gátum fengið okkur samlokur og djús skammt ofan við Svanavatnið - sem er nú reyndar kennt við sæla Margréti, þá sömu og skóli míns heittelskaða er nefndur eftir.
Síðdegis fórum við svo í stórskemmtilegt matarboð hjá Arnot bókaverði og fjölskyldu hennar og hittum þar fyrir hina ýmsu nörda úr skosku og keltnesku deildinni, en Arnot hefur tekið að sér að vera ,,mamma" fyrir okkur útlendinga sem eigum svo bágt að búa í öðrum löndum en mömmur okkar. Skottan vakti mikla lukku, með sín aðdáunar Úú! og Ókei! og ekki spillti nú fyrir að hún spilaði síðan tvíhent á píanó með Elenu Gunnelludóttur vinkonu sinni.
3 ummæli:
oh, þær eru svo sætar tvær!
stórskemmtileg frásagnir og myndir ! HLÖKKUM TIL AÐ BERJA ÞETTA
ALLT AUGUM!Mamma.
Gleðilegt sumar öll!
amma
Skrifa ummæli