Á að vera að lesa fyrir próf í Þjóðfræði trúarlegrar tjáningar en rakst þar á í glósunum að brunnurinn sem við sáum í norðurhlíð Arthur's Seat, rétt neðan við kapellurústina, er helgaður heilögum Antoni (líkt og kapellan) og það telst því rauninni lærdómur að setja inn myndina af honum hér.
Fletti honum líka upp á netinu, og þar sá ég á síðu þessa mynd hér til hægri, sem og þær upplýsingar að ekki sé óhugsandi að kapellan hafi verið eins konar viti fyrir skip á leið til hafnar í Leith, með ljóskeri fyrir sæfara sem gátu þá beint sjónum sínu og huga til dýrlingsins.
Anton hinn sæli var fæddur árið 250 og stofnaði fyrsta klaustur sögunnar. Líkamsleifar hans voru taldar miðla lækningu á húðsjúkdómi sem við hann varð kenndur sem Antonseldur -Anthony's Fire, sem var alvarlegt heilbrigðisvandamál í Edinborg á 15. öld. Víst er talið að kapellan hafi tengst Knights Hospitallers of St. Anthony í Leith og spítala sem stofnaður var 1430 í Edinborg. (Svona til sögulegs samhengis má þess geta að ári síðar, 1431, kom til bardaga á milli Íslendinga og Englendinga á Höfðaströnd og má lesa nánar um þá dramatísku atburði í bók yðar einlægrar, Galdri.)
Önnur sögn segir svo frá því að brunnurinn sé heilsubrunnur, til á undan kirkjunni, helgaður heilögum Antoni, og kapellan hafi verið reist einmitt þarna vegna hans. Pílagrímar hafa sótt í brunninn til lækninga og þvegið sér í honum á hinni heiðnu hátíð Beltane, sem að ég tel víst er núna 1. maí nk.
Nú vill svo skemmtilega til að ég þvoði hendur mínar í brunninum, að vísu bara með því að tína upp úr honum grjót sem mér fannst ekki eiga að vera ofan í honum, og treysti því að það muni hafa haft góð áhrif á mín vefjagigtarmein sem einmitt eiga það til að lýsa sér í stirðum fingrum að morgni dags. Bautinn sem er lagður þarna ofan við brunninn er talinn hafa verið settur þar til að verja hann vegna mikils ágangs, en um það veit svo sem enginn fyrir víst. Einhver tilgangur hefur þó verið með því, þar sem greinilegt er að steinninn vegur ábyggilega marga ,,steina" eins og hérlendir segja. Hugsa sér, ef steinar gætu talað...
4 ummæli:
Erum stödd hjá Björgvin bróðir í Keflavik, á leið til ykkar! Björgvin biður að heilsa .Mamma
Annars, Villa, ein spurning, þarsem þú ert nú í þessum þjóðfræðum: við Hulda vorum að velta fyrir okkur, hver sé uppruni páskakanininunnar? Hvurra manna er hún eiginlega? Er hún kannski keltnesk til að byrja með?
Áhugavert að lesa um heilagan Anton, við brósi vorum einmitt aðeins að spá í honum því við höfðum okkur nú upp í sætið hans á laugardaginn. Ég missti hins vegar alveg af brunninum. Þarf greinilega að fara aftur. Er þetta ekki annars alveg dásamlegur dagur?? Ég var svo mikið í mínum eigin heimi í morgun að ég mundi ekki einu sinni að það átti að gera við kyndinguna í dag og var bara að frílista mig niður í bæ þegar gæjarnir mættu. Svona er maður nú alveg úti að aka stundum.
Eigðu góðan dag!
Kvitt kvitt fyrir lesturinn :)
Bið kærlega að heilsa öllum!
knúsó
Auður
Skrifa ummæli