Líf í árvekni: Snjór í Edinborg

föstudagur, 3. mars 2006

Snjór í Edinborg

Fyrsti snjórinn í vetur féll í dag (tel ekki með frosnu döggina í nóvemberlok), innfæddum til mismikillar ánægju. Fréttatíminn á BBC Scotland í kvöld fullur með spólandi bílum og kyrrsettum skólabörnum. Skottan skemmti sér vel á róló í snjónum en var hálfhissa á þessu hvíta teppi sem lagðist yfir veröldina og tók sér dágóðan tíma í að reyna að bursta snjóinn af bæði sér og pabba, hafði þó vart undan veðurguðunum.

Yðar einlæg var fjarri á meðan á þessum undrum gekk, var í dagsferð í snjólausri Glasgow með lærimóður og skólasystur að heimsækja eitt af samkunduhúsum gyðinga þar í borg sem og St. Mungo Museum of Religous Life and Art. Myndavélarskömmin brást aftur og verður nú sett í viðgerð, en myndin hér er fengin af netinu. Mér þótti samkunduhúsið minna merkilega mikið á sóknarkirkjuna okkar heima, þ.e. Dómkirkjuna í Reykjavík, en um það getur hver dæmt fyrir sig (t.d. 5. ágúst í sumar)...Í samkunduhúsinu og gagnasafni sem þar er um gyðinga í Skotlandi hittum við Rósu, sem kom 13 ára frá Berlín til Bretlands árið 1938 í hópi 10.000 gyðingabarna sem þannig var bjargað frá því að týna lífinu í útrýmingarbúðum nasista. Hún sagði okkur frá móður sinni sem lifði í leynum í Berlín allt stríðið á enda og var vitni að því þegar Rússar tóku borgina í maí 1945. Faðir hennar og bróðir fórust í helförinni en móðir Rósu kom til hennar í Skotlandi eftir stríðið.

Saga Rósu var mögnuð á að heyra, ekki síst fyrir það að í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Der Untergang í sjónvarpinu, sem fjallar um síðustu daga Hitlers frá sjónarhorni ritara hans. Rósa sagði okkur m.a. frá því að móðir hennar hefði dag einn verið á leið í lestina með tösku með matvælum sem hún hafði keypt á svartamarkaðinum, þegar hún var stöðvuð af lögreglumanni sem krafðist þess að sjá ofan í töskuna hennar. Hefði hún þurft að opna töskuna hefðu dagar hennar verið taldir því hún hafði vitanlega enga pappíra, og hafði byrjað ,,neðanjarðarlíf" sitt árið 1941 eftir að hafa skrifað sjálfsmorðsbréf og skilið eftir á heimili sínu.

Hún var fljót að hugsa, kerrti hnakkann og hreytti í lögreglumanninn um leið og hún strunsaði áfram: ,,Ég hef engan tíma til þess, ég er á leiðinni til fundar við der Fuhrer!" Hann trúði henni og hleypti henni framhjá. Hurð skall nærri hælum í fleiri skipti þessi fjögur ár og kraftaverki líkast að þessi hugrakka kona skyldi lifa af.

5 ummæli:

McHillary sagði...

Hæ Villa. Svakalega er þetta flott mynd sem þú hefur tekið þarna í átt að uppljómuðum kastalanum...allt á fullu hérna megin í skruddunum, röltum samt í bíó seinni partinn og sáum Walk the line. Mæli mjög með henni ef þið hafið ekki séð hana..hafið það gott um helgina.
Bestu kveðjur, Hilla.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Hæ og takk fyrir hólið en ég á það því miður ekki skilið, því ég hnuplaði myndinni af netinu. Myndavél Katrínar er í ólagi og bíður þess að hinn handlagni heimilisfaðir kanni hvað að henni amar :(
Plönum einmitt bíó og meððí fljótlega, þegar fyrsta áfanga ritgerðatarnar beggja lýkur og gott að vita af góðu myndefni!

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með snjóinn! Hann hefur greinlega skipt um búsetustað því það er búið að vera algjörlega snjólaust hér svo vikum skiptir. Sem betur fer reyndar, ég sakna hans ekki!
Ég ákvað að blogga fyrst og lesa þig svo, þannig að núna er loksins komið nýtt blogg! hahaha
Knús á línuna
Auður

Nafnlaus sagði...

Jæja loksins! Það snjóaði líka hér í gær en verður líklega farinn í kvöld ,spáir hvössu og rigningu!
Fórum á Flateyri á laugardaginn í fínu veðri ! Allt autt um allar jarðir, líka um Hrafnseyrar heiði og suður úr!Verð á námskeiði næstu vikur út Mars annað hvort kvöld: ástar kveðjur til allra! mamma.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Snjórinn horfinn á sunnudegi, stutt gaman það. En það voru samt stórir snjókallar á Meadows túninu á laugardaginn. Hvers konar námskeið ertu að fara á, duglega mamma?!