Líf í árvekni: Valentínus og Pó

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Valentínus og Pó

Maður gæti kannski ætlað að verndardýrlingur elskenda og smámælt barnatímabrúða ættu ekki ýkja margt sameiginlegt. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að til dæmis er litur beggja rauður. Og mörgum þykir einstaklega vænt um þau. Bæði gætu líka - aldeilis óviljandi - orðið til þess að rjúfa heimilisfriðinn vegna þess hversu sumum eru þau kær en öðrum síður.

Ekki vandamál sosum á þessu kærleiks- heimili; við þessi stóru getum flest alveg horft á Stubbana með Skottunni tímunum saman án þess að pirrast að ráði (sjá þó blogg stóru systur um það efni 4. febrúar sl.). Þessi mynd af henni í uppáhaldsnáttfötunum var tekin í kvöld.

Og í dag kom minn heittelskaði heim með tólf rauðar rósir í nafni Valentínusar. Fremur óvænt reyndar þar sem hann kveðst yfirhöfuð ekki púkka upp á útlendar venjur og kemur með blómvendi á ólíklegustu dögum öðrum en þeim sem ,,fyrirskipaðir" eru.
Samkvæmt fréttum í dag hér í landi Breta er Valentínusardagur víst einn sá erfiðasti á árinu fyrir elskendur, m.a. vegna þess svo margir eru vilja bjóða elskunni út að borða að veitingahús rúma ekki fjöldann. Svo að einhverjir eru súrir heima með sárt enni. Og svo eru auðvitað þeir sem þrjóskast kannski við að kaupa það sem til er ætlast af þeim. Eða gleyma því. Og veltan af valentínusi í það heila (konfekt, undirfatnaður, veitingahús, blóm, kort) skiptir víst einhverjum milljörðum þegar allt er talið.

Við skötuhjúin og dætur borðuðum ósköp sátt hér heima - baunaborgara Sollu smörtu - og nú verð ég að kveðja því heimatilbúni ísinn (með suðusúkkulaðibitum frá Síríusi) er kominn á borðið...

p.s. Sólarupprás í morgun var kl. 7:41 og sólsetur kl. 17:14. Bendi þeim á The Iceland Weather Report sem vilja gera samanburð á dagsbirtutímum Íslands og Skotlands.

1 ummæli:

Auður Lilja sagði...

Svakalega sæt litla stubbastelpan, algjör rúsina!
Gefðu henni knús frá guðmóðurinni :)