Líf í árvekni: Sunnudagshreingerning

sunnudagur, 19. febrúar 2006

Sunnudagshreingerning

Svo margt í vikunni sem ég hef ætlað að blogga um en gefist lítill tíminn til skrifta, aðallega fyrir Skottunni sem tók upp á því að kvefast af stórusysturinni og þurfa óendanlega mikla athygli, líka fyrir próflestri míns heittelskaða sem er á leið í sitt síðasta stóra próf á þriðjudaginn komandi, sem og mínum eigin heimalestri sem illa er hægt að sinna nema sú stutta sé sofandi. Nú er þó pása (miðdegisblundur Uglu) - sem ég ætti eiginlega að nota til að fara að semja 45 mínútna fyrirlestur á ensku með tilheyrandi Power Point sýningu um dulbúningasiði á Íslandi til flutnings á næsta föstudag fyrir alla póstgradjúeita skosku/keltnesku deildarinnar - en mig langar meira til að tala við ykkur og sjálfa mig og koma skikki á þetta allt saman í kollinum á mér. Sunnudagshreingerning sem sé. Svo lofa ég að koma mér að verki við fyrirlesturinn...

Það eru til dæmis öll þessi verk og litlu stundirnar hér og þar í hvunndeginum sem raða saman lífinu og gera það skemmtilegt og ljúft - hef eiginlega mest verið að hugsa einmitt um það hvað rútínan er mér mikilvæg; þessir föstu póstar sem ég þarf að hafa til að halda mér í svo ég missi ekki jafnvægið og hlunkist ofan í þunglyndispyttinn sem fylgir vefjagigtarskömminni.

Loftþrýstingurinn skástrik veðrið síðustu daga verið þannig að liðamótin eru góða stund að mýkjast að morgni svo að ég hef kveinkað mér undan því að sinna hlaupunum mínum og þá er vítahringurinn byrjaður, svefninn raskast og þreytan eykst, mígrenihöfuðverkurinn bankar upp á og hugurinn fer að leita uppi það sem er sárt (t.d. Snúðleysið) en hitt sem er skemmtilegt að hugsa um, og ég fer að ,,gleyma" því sem ég á og vil gera til að mér líði vel; hlaupa í kringum Meadows þrisvar í viku, að tala nógu við Hana Þarna Uppi og daglegu hugleiðslunni.

Til allrar hamingju hef ég þó fundina mína á mánudagskvöldum og það minnir mig á að hvert andartak er nýtt upphaf - alltaf hægt að byrja upp á nýtt. En sjaldan hef ég tekist á við jafnsnúið verkefni og að sitja kyrr í 20 mínútur dag hvern og reyna að hugsa ekki um neitt nema það að draga andann rólega. Engu líkara en þá fyrst hefjist akkorðið við að telja upp allt það sem er ógert fyrir þennan og þennan daginn (t.d. fyrir 24. mars - skiladagar ritgerða- eða 5. ágúst - grilljón atriði sem þarf að sinna löngu fyrir þann dag, sjá hér), verkefnalistinn lengist með hverri mínútunni sem hugurinn á að vera til friðs og hvorki dugir að telja andardrættina aftur á bak eða áfram, hvað þá að blaka þessum frekjulegu hugsununum til hliðar með þessu eða hinu kærleiks- eða friðarhugtakinu (eins og ágætur prestur benti mér einu sinni á að gera) og eiginlega mesta furða að ég skuli ekki vera lafmóð af áreynslunni við að þagga niður í þessari eilífðarblaðurskjóðu sem býr á milli eyrnanna á mér.

En stundum hefst það þó - stundarkorn - og það slaknar á mér, kjálkinn og axlirnar síga - og það sem verra er: Augnlokin líka. Mín alltaf syfjuð. Og þýðir ekkert að þiggja boð míns heittelskaða um að sofa út að vild því að því lengur sem ég ligg í rúminu því stirðari verða veslíngs liðamótin mín. Arg. (Sniff sniff, sjálfsvorkunn í miklu magni).

Talandi um svefnraskanir vefjagigtarsjúklinga - og svo ekki orð meira um heilsuleysi (ó, hvað mér leiðist kvart og kvein, ekki síst mitt eigið) - ef svo skyldi vilja til að einhver ræki hér inn nefið sem hefur reynslu af lyfjum við þeim, amilíni eða e-u öðru, þá langar mig óskaplega til að fá að heyra hvort og hvernig þau hafa virkað. Langar svo til að hætta á amilíninu og hef verið að gera tilraunir með að auka og minnka skammtinn án árangurs í aðra hvora áttina - og veit svo sem ekki hvað gæti komið í staðinn.
Prívatpósturinn minn kannski betri í þess háttar umræðu ef einhver vill deila reynslu, styrk og vonum um hvernig nálgast má unaðssemdir hins góða svefns :) vilborg@snerpa.is - þ.e. ef einhver hefur enst til að lesa alla þessa langloku á annað borð...

Skrítið reyndar hvað teljarinn snýst og snýst en sjaldan að nokkur yrði á mig og hafi skoðun eða fréttir að færa mér af sér eða sínum heima á Klakanum. Kannski eru ættingjar mínir og vinir bara feimnir. Líklega. Ef svo er þá verður þetta bara svona einhliða blogg og allt í lagi með það. Gaman að ráða alltaf dagskránni sjálf :) En það væri samt gaman að eiga lítil samtöl hér í netheimum, úr því að svo lítill tími gefst til samskipta í kjötheimum.

Þetta átti nú ekki að verða alveg svona súrt blogg, en jæja, hvað um það, þetta andartak verður nýtt upphaf og hér með fer ég yfir í allt aðra sálma. Heimalesturinn undanfarna daga hefur verið um Islam og siði múslima. Á þriðjudaginn fer ég í heimsókn í mosku og þarf áður vitanlega að finna mér slæðu um höfuðið til að mega stíga þar inn fyrir dyr, ásamt skólasystrum mínum þremur og dr. MacKay sem kennir kúrsinn um trúarlega tjáningu. Er afar spennt og búin í lestrinum að komast að mörgu áhugaverðu. T.d. eru Mósebækurnar hluti af Kóraninum, eða a.m.k. innihald þeirra, og í þeirri merku bók eru guðspjall bæði um Jesú og Maríu. Múslimar trúa því að Jesú hafi verið spámaður líkt og Múhameð en í ritum þeirra frá sjöundu öld eftir Kr. eða þar um bil er þess þó hvergi getið að hann hafi verið krossfestur eða hafi stigið til himna. Í Jesúguðspjalli kóransins er margt afar fallegt og áhugasamir geta litið við á þessari síðu til að fræðast meira um það allt saman.

Las mér líka til um giftingar- og skírnarsiði múslima; þeir umskera drengi eins og gyðingar, vikugamla yfirleitt og gefa börnunum þá nöfn. Hárið er rakað af nýfæddum börnum, vegið og jafnvirði þyngdar þess í silfri er gefin til ölmusu. Merkilegur siður. Athyglisvert líka að lesa um hvað ölmusugæði eru mikilvæg í Islam; mér varð hugsað til heimilisleysingja og betlara Edinborgar sem ég hef einmitt nýlega haft kynni af einsog lesa má um hér fyrr í mánuðinum.

Jæja, kominn tími til að fara að sinna föstudagsfyrirlestrinum. Ætlaði eiginlega að skrifa miklu meira um rútínuna og alla skemmtilegu venjurnar sem við skötuhjúin erum búin að koma okkur upp og verða kannski hráefnið í sjálfshjálparbókina okkar sem er á tíu ára áætluninni að skrifa í sameiningu - en það verður að bíða þar til næst.

Botna þetta með myndum af Kodo trommurunum sem við horfðum og hlustuðum dolfallin á sl. fimmtudagskvöld í Festival Theatre. Magnað alveg hreint og eiginlega ólýsanlegt.12 ummæli:

Mamma sagði...

Stóðst ekki áskorunina, hef lítil ráð gagnvart gigtinni, veit bara að hún er bölvuð samkvæmt minni reynslu! Skánar venjulega með hærra hitastigi!
Vorum reyndar á þorrablóti í gærkveldi! "Sylvía Nótt" skemmti ´meðal annars!Ástarkveðjur til ykkar allra Mamma

Villa sagði...

Hæ mamma og takk fyrir að heilsa upp á mig! Frétti af góðu gengi Silvíu Nætur í Júsóvisjón - gaman að heyra að hún hefur troðið upp fyrir vestan líka (var hún kannski með staðgengil eins og sumt fræga fólkið - þó ekki pabba?!). Við erum að fara á þorrablót - þó góan sé byrjuð - á næsta laugardag og hlökkum mikið til. Knús & kveðja!

Mamma sagði...

Ekki bara einn, heldur fjóra eins Bretadrottning! Mamma.

Hulda sagði...

Hei!
Fiflamjolk er god!!!
Fardu til grasalaeknis og hann gefur ther fiflamjolk.Hun hefur reynst mjog vel.Eg hef adur gefid thetta rad og thad gekk vel.
Hulda

tapio sagði...

Thar sem dulbúningarsídir eru annars vegar: Hér í Rauma komu púkarnir í hverfinu ad máska á Knútsdegi 13. januar, sungu og thádu nammi og piparkökur sem kaup. Knútsdagurinn er núna 13., en hann var 7. jan í gamla daga. Thannig ad thessi hefd er ennthá í lífi hér, en hún er ekki alstadar í Finna landi.

Villa sagði...

Hulda: Hef heyrt að óhefðbundnar remedíur séu yfirleitt bragðvondar - en fíflamjólk?! Jakk, er til eitthvað bragðverra? Spurning annars hvort þetta fæst hjá skoskum grasalæknum, man allt í einu eftir Herbal Medicine - búð hérna í nágrenninu sem ég gæti auðvitað litið við í. Takk fyrir ábendinguna!

Tapio: Er einmitt að klára kaflann í fyrirlestrinum um skylda siði á Norðurlöndunum, m.a. jólabokka í Skandinavíu og grýlur í Færeyjum, og bæti nú finnskum knútum að sjálfsögðu inn í! Takk kærlega!

Mamma sagði...

Ætli að eigi ekki að bera hana á sig, það er fíflamjólkina !
Það var ekki pabbi þinn sem var staðgengillinn¨!

Villa sagði...

Tapio, hvað kalla ég Knútana ykkar á ensku og veistu hve víða í landinu siðurinn er enn í dag? St.? Knuts Day Mumming kannski?

tapio sagði...

Ja-ha... St. Knut´s Day Mumming, á finnsku Nuuttipukit "Knútsbokkar". Í dag er sídurinn enn hér vestanlands, trúlega lika á ströndinni frá Rauma til Turku. En thetta eru krakkar, og hafa lengi verid. Svo í einni bók var sagt, ad fullordnir menn fóru ad "Knúta" í Häme- fylki kringum Hämeenlinna ennthá fyrir II heimstyrjöldina, en einmitt thar er hefd ad brugga "sahti" og líka fyrir jólin, thannig ad their klárudu sahtiid sem eftir var í húsum!

Hulda sagði...

Eg veit fiflamjolkin (Taraxacum Officinale) er vond a bragdid! Thu bitur bara a jaxlinn heldur fyrir nefid og slurkar thessu i thig! Systir min var med lidagigt til margra ara, hun drakk fiflamjolk og gigtin hvarf.
Spurdu i heilsubud fyrst.
Her er frost,snjor og saela!

Auður Lilja sagði...

Var að lesa nýjasta pistilinn, hef lítinn tíma til að svara að viti en sendi þér risaknús og góðar hugsanir, vona að þær hrekji gigtarskömmina í burtu í bili, efast samt um að það geri mikið gagn en kannski meira svona andlega ;)
Sakna þín helling og alltof langt að hafa þig svona í öðru landi, tökum gott símaspjall fljótlega.
Fjórtán knús og tíu kossar.
Þín litla systir

Villa sagði...

Bestu þakkir fyrir þetta, er ekki frá því að einmitt góðar kveðjur og hugsanir hafi þessi líka fínu áhrif á heilsuna, er til muna betri í skrokknum og skapinu þessa vikuna. Einhver ætti eiginlega að gera stúdíu um heilsubót af þessu tagi... þekki ég ekki ábyggilega einhvern sem er í námi um tengsl heilsufars sálar og líkama - sem sé í heilsusálfræði...?