Líf í árvekni: Margt smátt

miðvikudagur, 22. febrúar 2006

Margt smátt

Frábær bók sem ég er nýbúin að lesa: Stúlka með perlueyrnalokk. Gerist í Hollandi á heimili listmálarans Vermeer, sem var á dögum 1632-1675. Sjónarhornið er hjá vinnustúlkunni, sem kannski var fyrirsætan að verkinu hér til vinstri.

Frábær bók sem ég er með á náttborðinu núna: Gleði Guðs eftir Auði Eir (takk Ragga!)

Nýyrði sem ég bjó til í vikunni: Umhverfis-Alzheimer (ástæða þess að yðar einlæg er eilíft áttavillt og er eins og Rauðhetta í skóginum þegar hún er komin úr 100 metra radíus frá heimili sínu).

Skemmtileg sjón í dag: Krókusamergðin í Meadows og íkorni að skjótast upp í tré.

Merkilegur viðburður þennan dag fyrir langa löngu: Eyjarnar fyrir norðan Skotland skiptu um eigendur og þjóðerni. Skotlandskonungurinn James III. fékk Orkneyjar og Hjaltland (eiginlega) í heimanmund með brúði sinni Margréti prinsessu Kristjánsdóttur I konungs Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Íslands. Eiginlega, af því að þær voru veðsettar í fyrstu upp í heimanmund árið sem þau giftust, 1468.

En Stjáni hinn fyrsti var blankur, gat ekki borgað með einkadótturinni og eftir japl, juml og fuður voru eyjarnar innlimaðar í veldi Skotakonungs þann 22. febrúar 1472. Fyrir 534 árum. Því má við bæta að James III var 17 ára á brúðkaupsdaginn og Magga Kalmarsambands prinsessa 13 ára. Brúðkaupið fór fram í Holyrood klaustri sem er hér skammt frá okkur (sjá mynd). Og prinsessan var aðeins 28 ára þegar hún dó frá kóngi sínum og þremur sonum.

Dugnaður sýndur í gær: Hljóp hálfan annan hring í kringum Meadows.

Dugnaður sýndur í dag: Búin með fyrirlesturinn um grímusiði Íslendinga (25 glærur) og að undirbúa viðtal við markaðsstjóra Edinburgh Dungeon, sem ég hyggst taka á morgun vegna ritgerðarsmíðar um fyrirbærið sem selur túrhestum fortíðarhrylling Skotlands - með gamansömu ívafi...

Efni næsta bloggs: Heimsókn í moskuna í Edinborg í gær. Með slæðu um höfuð.

Sólarupprás í Edinborg í morgun: kl. 7:22
Sólsetur: kl. 17:32

Sólarupprás í Reykjavík í morgun: kl. 9.00
Sólsetur: kl. 18.24

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hullo darling!Unhverfis-Alzheimer?!?
Does that mean when you do your jogging that you have to do it on a leash? He, he, hræðilegur leirhúmor, sat í Perlunni áðan borðaði belgískar vöfflur og úti var ekkert að sjá nema gráröndótta glugga. Búið að kaupa tjull, semalíu stein og tvinna. Á morgun hefst kjólahöfuðverkurinn.

Nafnlaus sagði...

Góða og besta, endurnærandi að lesa bloggið þitt. Svona Villuleg blanda af fróðleik og daglegu fjölskyldu fjöri.
þva
m

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Njóla:

Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég jogga ekki eftir myrkur!

Bergljót mín Njóla
saumar fína kjóla
....og botnaðu nú!

--------------------------
M (m!):
Takk fyrir það, mín elsku
kæra "m". Ég ræð af undirskriftinni að veturinn vestan við sól og austan við mána sé orðinn skrambi langur.
þva
Villa

McHillary sagði...

Hæ Villary! takk fyrir kveðjuna, Gísli hefur jafnað sig vel og vonandi kemur ekki meira upp á, 7-9-13. Vona að þér hafi gengið vel með fyrirlesturinn í dag, efast reyndar ekkert um það, eruði svo ekki á leið á þorrablótið á morgun? Ég ákvað að vera bara hjemme og "chilla" með gaurunum mínum. Góða skemmtun og heyrumst sem fyrst..

Nafnlaus sagði...

bara að kvitta fyrir lestur.. þvoba Gunni